Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1986, Page 217
íslenskar mállýskurannsóknir 215
haflega var áætlað að fénu, sem varið var til rannsóknanna fyrst í stað, yrði varið til
málfegrunar (Björn Guðfinnsson 1946:82) svo það er ef til vill eðlilegt að rannsóknir
Björns takmörkuðust við framburðarmállýskur. Stefán Einarsson fór hins vegar í
sína rannsóknarför aðallega til að finna mörk raddaðs og óraddaðs framburðar.
Björn segist (1946:98) hafa rannsakað um 10000 manns þar af 6520 börn í yfirlits-
rannsókninni. Ástæður þess að binda yfirlitsrannsóknina við börn eru þær að þannig
tókst Birni að ná til fjölda fólks í hverju héraði og fékk samræmi í aldri hljóðhafanna
og rétt hlutfall kynjanna (1946:84) en sú ástæða er einnig þung á metunum að þar
sem Björn beitti svokallaðri lestraraðferð þá varð hann að halda sig við börn á aldrin-
um 10 til 13 ára. Að mati Björns eru yngri börn ekki nógu vel læs og erfitt að beita
aðferðinni á fullorðið fólk þar sem því er ekki vel við slíkar rannsóknir, og það getur
átt það til að breyta framburði sínum (1946:134). Jafnframt yfirlitsrannsóknum á
börnum með lestraraðferð kannaði Björn fjölda fullorðinna með samtalsaðferð
(1946:98). Stefán Einarsson rannsakaði sennilega eingöngu fullorðið fólk og þá lík-
lega að meiri hluta karlmenn og margir þeirra hafa sennilega verið á miðjum aldri.
Eins og fram kom í upphafi kaflans þá fór Björn um mest allt landið, aðeins 10
skólahverfi af 235 urðu útundan og flest fámenn (1946:90-07). Þetta hefur í för með
sér að hann rannsakaði hlutfallslega jafnmarga í stórum kaupstöðum og fámennum
sveitum. T. d. rannsakaði hann 2200 börn í Reykjavík (þar af 1000 í Austurbæjar-
skólahverfi), en ekki nema 2 í Eyjaskólahverfi í Hnappadalssýslu (1946:90-91).
Þetta hefur einnig í för með sér að hann rannsakaði ótrúlega margt fólk eða alls um
það bil 12. hvern íslending (1946:98). Stefán Einarsson kannaði í mesta lagi rúmlega
200 manns á Austurlandi en Björn kannaði 453 börn á Austurlandi (Múlasýslum,
Seyðisfirði og Neskaupstað).
Aðferðir við rannsóknirnar voru fjórar; ritunaraðferð, spurnaraðferð, samtalsað-
ferð og lestraraðferð. Veturinn 1943-44 hafði Björn rannsakað um 1000 börn með
ritunaraðferð, 1000-1500 manns með samtalsaðferð og um 7500 börn og unglinga
með lestraraðferð (1946:98). Björn telur að ritunaraðferð verði ekki beitt við aðra en
börn á aldrinum 7 til 10 ára þ. e. a. s. á þeim aldri sem börnin hafa lært að skrifa en
lítið lært í stafsetningu (1946:100-101). Spurnaraðferð notaði Björn mikið en ekki
tiltekur hann hve marga hann rannsakaði þannig (1946:115) enda ef til vill spurt
meira um almennan framburð í héraði en nákvæmlega um framburð viðmælanda.
Samtalsaðferðin var sú aðferð sem Björn beitti til að kanna framburð fullorðins fólks
en þetta er einmitt sú aðferð sem Stefán Einarsson notaði á Austurlandi. Lestrarað-
ferðin var eiginlega höfuðaðferð Björns því með henni rannsakaði hann öll börnin í
yfirlitsrannsókninni en lestraraðferð felst í því að láta hljóðhafana lesa einhverja
ákveðna texta sem samdir eru með það fyrir augum að kanna framburð á einhverju
svæði.
Björn skráði síðan upplýsingar um hljóðhafana á spjöld og merkti jafnframt inn á
spjöldin framburð viðkomandi. Á spjöldin skráði hann upplýsingar um aldur og upp-
runa barnsins en hann virðist hafa rannsakað jafnt innfædd og aðflutt börn í hverju
skólahverfi fyrir sig (sjá t. d. 1946:158-159). Hið sama gerði Stefán. Þess skal getið
að Björn tók þó nokkra af hljóðhöfum sínum upp á hljómplötur og átti dæmi um öll
framburðarafbrigði, enda lagði hann meiri áherslu á að safna fornum framburði en
að nota upptökutæknina við rannsóknirnar (Björn Guðfinnsson 1946:150). Hann