Vera - 01.10.1989, Blaðsíða 32

Vera - 01.10.1989, Blaðsíða 32
Blómasölukonur fyrir kosningar. öllu sem hefur verið gert og hefur viðgengist í hefðbundnu stjórnmálaflokkunum og mótum vinnureglur okkar og pólitík eftir eigin höfði. Það er mjög skemmtilegt, skapandi og orku- frekt. Auðvitað væri auðveldara að taka bara upp gamla siði og reglur og vera ekkert að velta vöngum yfir hvernig á að gera hlutina og hver á að gera hvað. Þá væri bara einhver sem stjórnaði þessu eins og herforingi og segði ger þú þetta og ger þú hitt og veldi manneskjurnar í það. En þannig vinnum við ekki. Það væri stórkostlegt ef hægt væri að byrja frá grunni á fleiri stöðum en hjá okkur. Það eru svo alltof margir draugar í lestinni sem þarf að fást við. Þetta er það sem mig óar mest við ef og þegar við tökum þátt í ríkisstjórn. Mér finnst okkur hafa tekist nokkuð vel að varðveita hugmynd- ir okkar og vinnubrögð inni í því kerfi sem við höfum gengið inn í, þ.e.a.s á Alþingi og í sveitastjórnum, þó að við höfum auðvitað orð- ið að beygja okkur undir vissar reglur. Það verður erfiðara að varðveita hugmyndirnar og vinnubrögðin inni í ríkisstjórn.“ Hvaða áhrif heldur þú að það geti haft á Kvennalistann ef hann fer í ríkisstjórn? ,,Ég óttast að Kvennalistinn yrði miklu meiri stofnun en hann er. Ég held við yrðum að veita þeim konum, sem yrðu fulltrúar okkar í ríkisstjórn, miklu meira umboð en við höfum gert hingað til. Við fengjum aldrei að breyta kerfinu í samræmi við hugmyndir okkar um vinnubrögð svona í einu vetfangi. Þess vegna yrðum við að senda konur í þessi störf svona töluvert mikið á þeirra eigin ábyrgð. Þær yrðu miklu meira einar í slíkum störfum en þær hafa verið hingað til. Það skelfir mig töluvert. Þetta gæti haft mikil áhrif á starfið í Kvenna- listanum. Konum í hreyfingunni þætti þær ekki hafa sömu möguleika á því að vera alltaf í samráði. Margir hafa sjálfsagt gert sér grein fyrir þessu og eru kannski einmitt að bíða eftir að þetta gerist og vonast til að það spilli sam- kenndinni og samstöðunni í Kvennalistanum. Afstaðan til þessa sérstaka atriðis er beggja blands hjá mér eins og svo margt, því að í hina röndina finnst mér óskaplega spennandi að sjá hvernig við myndum vinna úr þessu. Og ég hef slíka endemis tröllatrú á Kvennalistanum og því sem við höfum verið að gera að innst inni er ég sannfærð um að við myndum vinna úr þessu og koma út úr því jákvætt eins og með allt sem við höfum gert.“ „Við getum ekki samþykkt skilgreiningu þeirra á hagvexti“ Kvennalistinn fór inn á Alþingi til þess að reyna að breyta þjóðfélaginu. Hann fór inn á Alþingi sem andófsafl. Getur Kvenna- listinn tekið þátt í ríkisstjórn sem and- ófsafl? ,,Þú segir andófsafl, sem er út af fyrir sig rétt, við erum ekki ánægðar með kerfið eins og það er og við erum ekki ánæðgar með þær áherslur sem hafa verið í stjórnmálum. Aftur á móti erum við, að mínum dómi, ekki neikvætt and- ófsafl heldur jákvætt. Munurinn á Kvennalist- anum og mörgum kvennahreyfingum eins og t.d. Rauðsokkunum er að Kvennalistinn er jákvætt afl, með jákvæð viðhorf og áherslu á kvenlega eiginleika og trú á það að þessir kven- legu eiginleikar séu nauðsynleg viðbót við stjórnmálin. Við megum ekki missa sjónar á þessu. Mér finnst að vísu stundum hafa gætt um of reiðinnar og vonbrigðanna í stað þess að leggja áherslu á þetta jákvæða og trúna á að við getum breytt og þurfum að breyta. Við sjáum hvað gömlu flokkarnir eru fastir í þessari gömlu þraspólitík. Efnahagsvandinn er þessi eilífðar fjandi sem alltaf er verið að tala um og fjasa um. Þeir þykjast alltaf hafa lausnir uppi í erminni, en umræðan er stöðnuð og mótast fyrst og fremst af tryllingslegri áherslu á hag- vöxt. Við getum ekki samþykkt skilgreiningu þeirra á hagvexti. Það er aldrei tekið með í reikninginn hvaða áhrif þessi eftirsókn eftir hagvexti hefur á mannlíf og umhverfi. Um- hverfisspjöll, vinnuþrælkun eða nokkuð slíkt er aldrei tekið með í hagkvæmnisútreikninga. Ég held að það sé orðið lífsspursmál, ekki bara fyrir íslendinga heldur allan heiminn, að breyta um áherslur. Þ.e.a.s. hugarfarsbyltingin sem var boðuð í okkar fyrstu stefnuskrá, breytt verðmætamat og allt það, er hreinlega lífs- nauðsyn." Hvernig aðstæður þurfa að vera til að Kvennalistinn fari í ríkisstjórn? „Við þurfum auðvitað að hafa stuðning fólks- ins. Við fengum býsna mikinn stuðning í síðustu kosningum og það hefði hugsanlega getað enst okkur til góðra verka í ríkisstjórn. En við þurf- um líka að ná einhverjum árangri í viðræðum við aðra flokka, því ennþá getum við ekki vænst þess að fá meirihluta, a.m.k. ekki í næstu kosn- ingum. Við þurfum að hafa verulega mikið á bak við okkur til þess að hinir séu fúsir til þess að ræða við okkur og komast að samkomulagi. f mínum huga hefur Kvennalistinn frá upphafi verið tilbúinn til að fara í ríkisstjórn en gömlu stjórnmálaflokkarnir hafa ekki verið tilbúnir fyrir Kvennalistann og þeir eru það ekki enn- þá. Þeir eru mjög fastir í leikreglunum sínum og pólitík eins og þeir skilgreina hana. Þeim finnst við þurfa að læra að verða eins og þeir en það er nú ekki aldeilis okkar meining. Það verða þeir að skilja.“ Kvennalistinn hefur verið í stjórnarand- stöðu með vinstri flokkum og svo núna með Sjálfstæðisflokknum. Hefur Kvenna- listinn átt auðveldara með að vinna með einhverjum þessara flokka? „Við eigum að sjálfsögðu misjafnlega auðvelt með að ná samstöðu við aðra þingflokka. Það hefur verið auðveldara að ná málefnalegri sam- stöðu með svokölluðum félagshyggjuflokkum heldur en hægri flokkunum, sem leggja meiri áherslu á einstaklingshyggjuna. Hins vegar finnst mér að því leyti auðveldara að vinna með hægri flokkunum að línurnar eru miklu klárari. Það velkist t.d. enginn í vafa um það hver er afstaða Sjálfstæðisflokksins eða Kvennalistans 32

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.