Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1951, Síða 112
„Það hefur voða-þungar tíðir
þjóðinni verið guðleg móðir,
hennar brjóst við hungri og þorsta,
hjartaskjól, þegar burt er sólin,
hennar Ijós í lágu hreysi,
langra kvelda jólaeldur,
fréttaþráður af fjarrum þjóðum,
frægðargaldur liðinna alda.
Hvað er tungan? Ætli enginn
orðin tóm séu lífsins forði, —
hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.
Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir Jandsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum,
heiftar-eim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum — geymir í sjóði.“
Ekki mundi neitt, sem sagt væri um málið á kvæð-
um séra Matthiasar, geta skýrt máltöfra hans betur
en þetta kvæði — því að það skáld, sem slíkum
orðum og slikri hrynjandi getur brúað höf aldanna
i mál- og menningarþróun þjóðar sinnar og svo
ljóslega og lifandi skilgreint, hvað móðurmál hans
í rauninni er, hvernig það hefur breytzt og mótazt,
hitað á afli sögunnar i eldi þrauta og rauna, meitlað
og hamrað á steðja mikilla atburða og hert i blóði
og tárum — og þannig gert skiljanlegt, hvert gildi
það hefur fyrir þjóðina —- það skáld er kjörviður,
sem á sér mikla og laufríka krónu, er þiggur blessun
frá himinsól skaparans og sýgur frjómagn þeim
rótum og róttaugum, er ná svo langt í jörðu niður
sem mold forfeðra og formæðra er djúp til.
(110)