Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1995, Page 183
Fyrri hluta apríl var mjög beðið eftir tillögum frá ríkis-
stjórninni til þess að greiða fyrir samningum. Hinn 15. apríl
lagði stjórnin svo fram yfirlýsingu um aðgerðir til þess að
tryggja vinnufrið eins og það var orðað. Aðalatriði þessar-
ar yfirlýsingar var það, að ríkisstjórnin ætlaði að vinna að
lækkun vaxta, leggja milljarð í atvinnuskapandi aðgerðir
og lækka virðisaukaskatt á matvælum í 14% 1. janúar 1994.
Þangað til átti að greiða niður vissar landbúnaðarafurðir.
Þessi pakki var talinn kosta ríkissjóð 5,5 milljarða króna.
Alþýðusambandið hafnaði þessum pakka daginn eftir, 16.
apríl, og taldi aðgerðirnar ganga of skammt.
Fyrir milligöngu sáttasemjara héldu viðræður áfram milli
ASI og VSI og var jafnframt haft samráð við ríkisstjórn-
ina, sem hafði tilbúinn kjarapakka, þegar samningar næð-
ust. Aðfaranótt 21. maí tókust síðan samningar sem í raun
gengu út á það að framlengja eldri samninga til 31.
desember 1994. Gert var ráð fyrir, að launa- og orlofsbætur
yrðu óbreyttar en desemberuppbót hækkaði um 1.000 kr.
Gert var ráð fyrir ákveðnum forsendum í gengis- og verð-
lagsmálum, en ef þær breyttust að ráði væru samning-
ar lausir í nóvember eða maí 1994. Þetta ákvæði taldi
forseti ASÍ hafa ráðið mestu um það, að hreyfingin gat
samþykkt þennan samning, enda var pakki ríkisstjórnar-
innar að lokum nálega hinn sami og hafnað hafði verið í
apríl.
ASÍ og ríkisstjórnin höfðu deilt um það, hvernig fjár-
magna ætti framlag stjórnarinnar til lausnar vinnudeilun-
um. Var að lokum gefið loforð urn það, að ríkið skyldi afla
að nokkru fjár til þess með álagningu fjármagnstekjuskatts
á árinu 1994.
ASI, VSI og ríkið gengu hart fram í því að allir semdu á
sömu nótum og samið var um 21. maí. Gerði ríkið samn-
inga við félög BSRB og BHMR eftir þessari forskrift. Voru
þeir samþykktir með semingi.
Flugvirkjar voru ekki aðilar að samkomulagi ASÍ og
VSÍ og boðuðu verkfall 27. maí. Þeim var hótað bráða-
birgðalögum og hættu því við verkfallið.
(181)