Freyr

Årgang

Freyr - 01.12.1971, Side 9

Freyr - 01.12.1971, Side 9
GUÐMUNDUR JÓSAFATSSON: MINNINGAR FRÁ HÓLUM Það var furðumikið fyrirtæki feimnum unglingi að leggja upp í skólagöngu haust- ið 1915, jafnvel þótt ekki væri hugsað til langrar setu á skólabekk. Að vísu var heimanbúnaðurinn ekki margþættur, fátt í föggum, sem nú beygir sig í lotningu fyrir tízku samtíðarinnar og fyrirmælum hennar. Við urðum að fara að talsverðu leyti eins og við stóðum, ekki aðeins um klæðaburð og það, sem honum fylgdi, heldur og engu síður andlega séð. Við urð- um flestir að láta okkur nægja það litla, sem eftir sat af fermingarundirbúningi, að því þó viðbættu, sem stopult og tilviljana- kennt sjálfsnám lagði fram. Þó leiðin frá Brandsstöðum í Blöndudal að Hólum í Hjaltadal sé ekki löng, var hún talsvert önnur en nú, annir annars eðlis og ærnar þó. Það sýndist ekki fært að láta mann mér til fylgdar. Ég þurfti því að flytjazt á hálf- gerðum skotspónum. Ég réðist í fylgd með Pétri Péturssyni, bónda á Bollastöðum og var svo til ætlazt, að ég ræki sláturfé hans til Sauðárkróks. Skyldi ég fela Pálma Péturssyni, kaup- manni þar, farangurinn til varðveizlu. Hann væri vís til að greiða götu hans til Hóla. Við náðum til Sauðárkróks að kvöldi 4. okt. Morgunin eftir rétti ég hjálparhönd við afhendingu sláturfjárins og hugðist leggja upp frá Sauðárkróki eftir hádegið, gangandi. Pálmi ætlaði að koma farangr- inum til Kolkuóss. En um hádegisbilið greiddust þau mál svo, að bátur, sex manna far, kom frá Kolkuósi þeirra erinda að sækja vörur fyrir verzlun Hartmanns Ásgrímssonar. Pálmi bað mér fars og var það auðsótt. Degi var tekið að halla, þegar hleðslu bátsins lauk. Sunnangola var á. Undu þeir félagar upp segl og bar okkur skjótt austur yfir fjörðinn. Ég lagðist á hugi við „Sæbjörgu“ og mun bátverjum ekki hafa sýnzt ég líklegur til afreka. Var komið að dægramótum, er við lentum. Ég kom dóti mínu undir þak, spurði til vegar og hélt af stað. Tók þá að bregða birtu og var orðið aldimmt þegar ég kom upp hjá Neðra-Ási. Leitaði ég þangað heim og baðst gistingar. Var það mál auðsótt. Átti ég þar hina beztu nótt, en fámennt var og fátt til umræðu. Að morgni lagði ég upp og rölti inn dalinn. Ég var haldinn kvíða. Fannst þetta ævintýri óhugnanlegt og ég einmana. Þegar heim að Hólum kom, mætti ég konu, heilsaði henni og spurði eftir skóla- stjóra. Hún kvað trúlegt, að hann væri að matazt en lofaði að segja honum frá mér. Sigurður kom að vörmu spori, hvatlegur og hress. Ég heilsaði honum og þéraði hann. „Komdu sæll. Hvaðan ertu kallinn?" Þessi hressilega kveðja yljaði mér um hjartaræturnar. Ég leysti úr spurningu F R E Y R 473

x

Freyr

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Freyr
https://timarit.is/publication/863

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.