Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.1999, Blaðsíða 244
242 Árbók VFÍ/TFÍ1998/99
til notenda. Hitaveita Suðurnesja skal reisa kyndistöðvar, teljist slíkt nauðsynlegt vegna
rekstraröryggis. “
Við stofnun Hitaveitu Suðurnesja skiptust eignarhlutar í fyrirtækinu þannig að
ríkissjóður átti 40% en sveitarfélögin sjö, sem þá voru á svæðinu 60%, sem skiptust í sam-
ræmi við íbúaijölda þann 1. desember 1974.
Fyrsti stjórnarfundur Hitaveitunnar var haldinn 13. febrúar 1975 í Þórshamri.
Stjórnarmenn frá sveitarfélögunum voru, svo sem fyrr segir, Alfreð Alfreðsson, sveitarstjóri
í Sandgerði, Eiríkur Alexandersson, sveitarstjóri í Grindavík og Jóhann Einvarðsson,
bæjarstjóri í Keflavík, sem jafnframt var kosinn formaður. Frá ríkissjóði komu í stjórnina
Olafur G. Einarsson, alþingismaður, tilnefndur af fjármálaráðherra og Þóroddur Th.
Sigurðsson, vatnsveitustjóri, tilnefndur af iðnaðarráðherra.
A árinu 1974 voru boraðar tvær viðbótarholur, 1.713 m og 1.519 m djúpar og á árunum
1978-1981 voru boraðar sjö holur til viðbótar, allt frá 425 m upp í 1.998 m að dýpt.
Eitt af fyrstu verkefnunum var að tryggja land undir virkjun og aðrar framkvæmdir á
svæðinu ogjarðhita- og ferskvatnsréttindi. Hófust viðræður við landeigendur í janúar 1974
og lauk þeim með samningi þann 22. júlí 1975 þar sem kveðið var á um að gerðardómur
skyldi ákveða gjald fyrir land og jarðhitaréttindi. Gerðardómur lauk störfum í janúar 1976
og var það mat hans að greiða skyldi 87,7 milljónir króna (gamlar) fyrir réttindin, en það er
að núvirði [1999] um 95 milljónir króna.
Lokafundur stjórnar hitaveitunnar og samningamanna landeigenda með lögmönnum
beggja var haldinn miðvikudagskvöldið 25. júní í Iðnskóla Suðurnesja í Keflavík. Að sögn
Alfreðs Alfreðssonar, sveitarstjóra í Sandgerði og stjórnarmanns hitaveitunnar, voru
samninganefndirnar hvor í sinni stofu og í sínum enda skólans, en lögmennirnir í miðstof-
unum, og báru þeir tillögur og gagntillögur á milli nefndanna. Gekk þetta þannig allt kvöldið
og fram á nótt, en sífellt leið lengra á milli tillagna frá öðrum hópnum og biðtími hins
lengdist samsvarandi. Tekið skal fram að allir samningamenn höfðu í upphafi verið sammála
um, að fundi yrði ekki slitið fyrr en samningar lægju fýrir, jafnvel þótt það tæki alla vikuna.
Hitaveitumenn gerðu sitthvað til að stytta sér biðtímann. Og Alfreð heldur áfram:
„ ... Því var það engin furða, þó að unglingar, sem leið áttu framhjá skólanum um tvö-
leytið um nóttina, yrðu forvitnir við að sjá skólann uppljómaðan á þessum tíma sólarhrings.
Og ekki varð undrun þeirra minni við það, sem fyrir augu þeirra har, er þeir guðuðu á
glugga í stofunni, sem við, hitaveitumenn, vorum í. Á gólfinu sáu þeir 4 fullorðna menn,
snögg-klœdda, á Jjórum fótum í peningastikki, það er að segja einn af þingmönnum
kjördœmisins, bœjarstjórana í Keflavík og Grindavík og svo undirritaðan. Úti í einu horni
stofunnar stóð svo vatnsveitustjórinn í Reykjavík á höfði, með hendurnar í vösum, í afslapp-
andi yogastellingu. Unglingarnir trúðu vart sínum eigin augum. Hverskonar samkunda var
þetta nú eiginlega? Þvílíkt og annað eins! Fyrirmenn, skríðandi á jjórum fótum og stand-
andi á haus um miðja nótt. Og svo er verið að hneykslast á unglingunum! Ja - þeim ferst!
Ekki gerðum við tilraun til neinna útskýringa, þegar við urðum varir við unglingana á
glugganum, enda hefði það eflaust orðið erfitt. Unglingarnir fóru sína leið í forundran á
þessum geggjuðu köllum, og við lukum að lokum við samningana seinna um nóttina og
sluppum j>ar með við svefnpoka og skrínukost. “
Klukkan 3:30 um nóttina höfðu svo samningamenn loks náð samkomulagi um að vísa
ákvörðun um andvirði lands og landréttinda til gerðardóms, svo sem fýrr segir.