Bændablaðið - 18.12.2007, Síða 22

Bændablaðið - 18.12.2007, Síða 22
Bændablaðið | Þriðjudagur 18. desember 2007 Við vorum ákveðnir í því félag­arnir að framlengja dvöl okkar í Danmörku eftir að skóla lyki og fá okkur vinnu einhvers staðar til að læra málið betur og kynnast danskri menningu frekar. Okkur lá ekkert á heim og úr því við vorum komnir þarna var um að gera að nýta sér það til frekari reynslu. Skólabróðir okkar útvegaði okkur báðum vinnu á búgörðum á Jótlandi. Sem betur fer var stutt á milli. Við kunnum því betur að hafa hvor annan innan seilingar. Skólinn var búinn 31. mars og þá fór ég og heimsótti einn vin minn og fékk lánuð hjá honum vinnuföt. Hann var að fara í herinn og sagði að ég gæti alveg slitið út úr þessum fötum því hann mundi ekki nota þau næsta hálfa annað árið. Reyndin varð sú að ég notaði þau sáralítið því alveg var hending ef ég fór í síðbuxur þetta sumar. Ég var alltaf á stuttbuxunum og ber að ofan. Aldrei í sokkum, ekki einu sinni á böllum. Fataslit var því lítið enda sumarið óskaplega gott þótt rigningartímabil kæmi í ágúst. Búgarðurinn er í Jels, sunn­ arlega á Jótlandi og heitir Søbjerg gård því hæðin, sem hann er byggður á, kallast Søbjerg og er norðanvert við Jelsvötnin. Þarna er ákaflega fallegt landslag, heiðadrög vaxin skógi og mikið af vötnum. Jelsvötnin eru geysivinsæll staður; þar er sumarhúsabyggð, mikið frí­ stundalíf og ferðafólk en annars ekkert þéttbýli þeim megin sem Søbjerg gård er. Jelsbærinn er við suðurenda vatnanna. Þarna var opinn dansstaður á sumrin og stórt útileikhús byggt í hálfhring inn í landslagið. Það tók mörg hundruð manns í sæti og þar voru sett fræg leikrit á svið með Poul Reumert og hvað eina. Þarna er gott bátalægi og bátar voru mikið notaðir við veiðar í vötnunum. Þetta var líka vinsæll baðstaður allt sumarið og mikill og góður selskapur á kvöldin þegar maður fór eftir mjaltir og baðaði sig í Jelssøen. Talsverð veiði var í vatninu og opið fyrir alla að veiða. Eftir að við vorum búnir að vinna okkar verk í fjósinu á kvöldin fórum við stund­ um að veiða geddur og aborra. Við lentum einu sinni í því við Arnþór. Við vorum nú yfirleitt á talsverðri hreyfingu til að nýta tímann vel. Við áttum leið þarna framhjá á reiðhjólum og datt þá í hug að gaman væri að fá sér bát og róa út á vatnið. Þetta var einfalt mál því tugir báta lágu þarna við sérstakar bátabryggjur. Við tókum bara fremsta bátinn og losuðum hann af pollanum, ýttum frá og hoppuðum um borð, árarnar voru í bátnum. Við vissum auðvitað ekk­ ert hver átti bátinn en ætluðum bara að skreppa smáspöl. Þegar við ætluðum að grípa til ára voru þær hlekkjaðar niður í botninn. Því varð það meira mál að komast að landi en frá. Við höfðum ýtt rösklega frá eins langt og við komumst en urðum að nota handleggina til að róa að landi. Søbjerg gård var dæmigerður danskur búgarður, byggður í U. Í miðjunni var reisulegt íbúðarhús með stórum, þremur samliggjandi stofum. Í annarri hliðarálmunni var fjósið og svínahúsið, í hinni álm­ unni voru geymslur, hesthúsið og rúmgott herbergi fyrir vinnumenn­ ina. Þar var ekki rennandi vatn en þvottaskál. Sturta var að sjálfsögðu engin en hægt var að baða sig upp úr bala rétt eins gerðist á saman tíma hér heima. Oftast böðuðum við okkur í Jelsvatninu. Og svo fórum við oft út þegar var hellirigning. Stundum gerði alveg óhemju vatns­ veður með þrumum og eldingum og eins og hellt úr fötu bókstaflega. Á aðalhúsinu var stráþak, ákaflega vandað og gott en járn á hliðaálm­ unum og í úrfelli þegar var svona heitt þá fór maður bara undir þak­ skeggið og stóð þar. Þetta var svo hlýtt, vatnið var 20­30 gráður, og það var fínt að skrúbba sig þarna. Hestunum fannst þetta voðlega gott líka. Bóndinn á Søbjerg gård hét Jens Ravn. Hann var tæplega fertugur og var virtur maður í sinni sveit, eini sonur foreldra sinna en átti eina systur. Hann var ágætlega stæður og hafði verið keyptur frá herþjónustu á sínum tíma sem sagði allt sem segja þurfti. Jafnvel var hent gaman að honum fyrir að hafa ekki gegnt herþjónustu. En þetta var öndvegis maður. Ennþá betri var þó konan hans. Hún hét Anna Maria og við urðum miklir vinir og hélst svo þangað til hún dó, blessunin. Hún er látin fyrir nokkuð mörgum árum. Hann er ennþá lif­ andi og heimsótti mig fyrir fáeinum árum í hárri elli, þá 82 ára. Ég kom á staðinn 7. apríl og var titlaður fóðurmeistari. Á búgarð­ inum var einn vinnumaður fastur og svo lausamenn þegar þannig stóð á. Ég átti að stjórna þessum eina manni og svo þeim daglaunamönn­ um sem voru með okkur í ákveðn­ um verkum og voru svona verktak­ ar á sinn hátt. Launin voru 400 kr. á mánuði, 50 kr. hærra en ella af því að ég var titlaður fóðurmeist­ ari. Þessar 50 kr. voru på vilkår eða með þeim skilyrðum að ég stæðist það sem krafist var af mér. Ég kunni vitanlega ekkert í vinnubrögðum á dönskum búgarði þegar ég byrjaði. Það var mér algjörlega nýtt að ganga dag eftir dag í 40 stiga hita með arfajárn við að grisja rófur. Ég þurfti að læra þetta og lét vitanlega engan nema vinnumanninn sjá að ég kynni ekk­ ert. Akuryrkju hafði ég aldrei séð og varla heyrt talað um nema hvað ég vissi að Klemens á Sámsstöðum hafði reynt að brydda upp á þessu. Þetta var mér algjör nýjung og þarna átti ég að stjórna sem fóðurmeistari og vissi ekki neitt, allra síst nokkuð um kornrækt. Strákarnir, sem unnu með mér, hjálpuðu mér og kenndu mér það svo ég yrði mér ekki til skammar. Þegar ég kom var búið að sá í töluvert af ökrunum. Fyrsta verkið, sem mér var fengið að leysa, var að hagræða forakri. Það er sá hluti akursins sem kemur fyrir endann á akurreinunum sem sáð er í. Notaðar voru sérstakar sáningarvélar sem mynduðu litlar rásir. Svo þegar snúið var við var ákveðið bil sem kallaðist forakur og hann var tek­ inn á eftir. Ég átti að laga þarna við skógarrjóður og hann setti mér það fyrir, bóndinn. Ég hafði ekki verið lengi að þegar ég leit heim að bænum og sá að hann stóð og skyggði hönd fyrir auga og horfði á þennan skrælingja sem hann var búinn að ráða. Greinilegt að hann ætlaði að fylgjast með mér. Þegar ég sá það henti ég frá mér skóflunni og stillti mér upp með krosslagð­ ar hendur og horfði heim á móti honum. Ég sá hann aldrei gera þetta aftur. Ég er nú oft búinn að vera verkstjóri og þarf ekki að horfa á mennina vinna til að sjá hverju þeir afkasta. Þótt ég væri óvanur bústörfum eins og þau gerðust þarna var ég ekkert óvanur að vinna þannig að það gat ég lagt fram. Heima var ég búinn að vinna í mörg ár með pabba og auðvitað læra þar ýmisleg vinnubrögð. En vitaskuld var það allt annar handleggur. Þarna var ég orðinn verkstjóri og vildi standa undir nafni sem slíkur og reyna að drífa hlutina áfram. Það tókst reyndar bærilega og við Jens Ravn náðum fljótlega mjög vel saman. Hann var annars venjulega ekk­ ert að skipta sér af búskapnum. Hann þurfti þess ekki. Hann var í útréttingum hingað og þangað og átti bíl sem var nú ekkert algengt þá, Plymouth, sem þótti flott merki. Einu sinni bauð hann mér bílinn. Ég bað hann aldrei um hann, fór alltaf á reiðhjóli. Ég þurfti að hjóla mikið því ég fór víða. Ég fór á böllin á reiðhjóli, það var miklu betra að ná sambandi við stelpurnar þannig því að þær voru á hjólum hvort eð var. Þær hefðu aldrei getað þegið bílf­ ar heim því þær þurftu að komast heim með hjólið. Við kornskurðinn voru komnar tilraunavélar sem gera eins og í dag, slá og berja kornið af hálminum og skila því í poka. Þá voru fengnir verktakar með þessar vélar og við vorum bara við að keyra korninu frá. Svo voru gömlu þreskivélarnar sem slógu og bundu í knippi og skildu þau eftir á akrinum svona eins og maður hefur séð á gömlum mynd­ um. Þeim var síðan safnað saman og flutt heim í hlöðu. Kornið geymd­ ist ágætlega þannig og svo var það tekið og þreskt í sérstökum vélum inni yfir veturinn, þá fékk maður kornið í poka og gat malað það. Við lentum í miklum óþurrkum þegar kom fram á sumarið þannig að kornið skemmdist; það lagðist í rigningunni. Í miklum rigning­ um leggst það niður og getur orðið ónýtt. Reynt var að slá og setja í knippi og verja þau frá jörðu, gera þetta upp á gamla mátann en ljóst var að stór hluti kornsins var í hættu að skemmast. Einn laugardaginn var spáin góð og ég sagði við bóndann: „Nú er spáð sólskini, eigum við ekki að fara og þreskja núna það sem við getum, slá og þreskja um helgina meðan veðrið er gott? Kornið er farið að skemmast og ef það heldur áfram verður það meira og minna ónýtt.“ „Við vinnum aldrei á sunnudög­ um,“ sagði hann. „Nei, en er ekki betra að við hvílum okkur á virkum degi þegar mígrignir og við getum ekki unnið og vinna heldur á morgun?“ segi ég. „Ja,“ sagði hann, „það fæst eng­ inn til að vinna.“ „Ég er til í að vinna og ég skal fá daglaunamanninn til að skipta um dag, þú þarft ekkert að borga honum fyrir það extra.“ Það varð úr, ég fékk mann, og karlinn kom með þótt hann ynni yfirleitt aldrei sjálfur. Hann var haf­ inn yfir það að vinna með okkur. Stéttaskiptingin var bara svona, allt annar hugsunarháttur en hér heima. Við fórum svo í þetta og allt gekk svona ljómandi vel og við djöfluðumst við þetta alveg fram yfir hádegi á mánudag og náðum miklu af ökrunum, unnum langt fram á kvöld sem aldrei var gert. Venjulegur vinnudagur var svona tólf til þrettán tímar, byrjað klukkan hálf sex á morgnana en aldrei unnið lengur en til sjö á kvöldin. Þegar svo allt lenti í rigningu aftur og við búnir að bjarga miklu af korninu, fannst mér hann eiga frekar erfitt með að þakka mér fyrir það. En hann var samt óskapleg feginn. Ég heyrði hann segja í sím­ ann að það væri nú munur að hafa menn sem kæmu hlutunum í verk þegar mikið lægi við. Þá bar hann sig mannalega. Jens Ravn var skemmtilegur maður og heimboð hans voru rómuð. Það voru glæsilegar veisl­ ur og hann átti þrjár samliggjandi stofur hlaðnar fínustu húsgögn­ um og borðbúnaði. Hins vegar var ekkert klósett á búinu. Konan sá alltaf um það, þessi menntaða, fína kona. Hún fór alltaf með kam­ arfötuna á morgnana áður en við komum á fætur, þó vöknuðum við klukkan hálf sex. Þá var hún búin að hreinsa og lét aldrei sjást að hún gerði þetta. Hún gróf það sem í föt­ unni var í safnhauginn þar sem var hálmurinn frá kúnum. Hún gróf það þar og varð aldrei vart við lykt eða neitt, aldrei flugur. Hún hefur nátt­ úrulega skammast sín fyrir þetta. Einhvern tíma að kvöldi til þegar við vorum að spjalla sagði ég þeim að heima væru nú ekki margar stofur fyrir gesti og ekki svona silfurborðbúnaður og ekki svona glasasett en það væri þó klósett. Svo var það í endann á minni búskapartíð þarna úti, svona mánuði áður en ég fór, að frúin lét verða af því að kaupa klósett. Og ég hjálpaði henni að innrétta fyrir það. Þetta vildi hún ekkert ræða við aðra. En hún var náttúrulega búin að heyra í mér tóninn og vitanlega vissi hún að möguleiki væri að fjár­ festa í þessu eins og öðru, það væri bara spurning um forgangsröðun. Ég held að hún sé bara ánægð í gröfinni, blessunin, yfir því að við drifum í þessu bæði. Þá var dálítið flott að geta boðið upp á vatnssal­ erni. Á mörgu þarna var voðaleg handarbakavinna. Þetta var allt svo gamaldags og ég stríddi þeim á því. Til dæmis var öllu heyi mokað með göfflum upp á heyloft og það gat verið erfitt í miklum hita eins og var þetta sumar. Á tímabili, svona viku, tíu daga var 40 stiga hiti í forsælu. Það var ansi heitt. Ég þoldi hitann en margir áttu erfitt með að standa í erfiðisvinnu í þessu. Það var mikið álag og þurfti mikið vatn á móti. Þetta var svo gott sumar að ég fór eiginlega aldrei í föt í vinnunni, var bara sokkalaus í skóm og á einum stuttbuxum, þurfti ekkert meira. Í minningunni er þetta óhemju skemmtilegt sumar þrátt fyrir mikla vinnu og lítinn svefn. Fóðurmeistari á dönskum búgarði Sveinn Jónsson (t.h.) ásamt Jóni Gíslasyni en þeir kepptu saman í hlaup- um fyrir UMSE á landsmótum ungmennafélaganna á sjötta áratugnum. Vasast í öllu er nafn á ævisögu Sveins Jónssonar bónda, húsasmiðs og athafnamanns á Kálfsskinni á Árskógsströnd. Sagan er skráð af Birni Ing­ ólfssyni á Grenivík en Hólaútgáfan gefur út. Bændablaðið fékk góðfúslegt leyfi til að birta kafla úr bókinni en þar segir frá dvöl Sveins á bóndabæ á Suður­Jótlandi sumarið 1953. Þá var hann liðlega tvítugur og hafði lokið námi í lýðháskólanum í Ryslinge á Fjóni. Með honum var vinur hans og skólabróðir frá Laugum, Arnþór Björnsson úr Vopnafirði. Björn Ingólfsson Endurminningar Sveins í Kálfsskinni Sveinn í ræðustól á Hvanneyri á liðnu sumri.

x

Bændablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.