Bændablaðið - 16.02.2012, Blaðsíða 22

Bændablaðið - 16.02.2012, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | fimmtudagur 16. febrúar 2012 Hringrot í kartöflum er stöðug ógn Hringrot er sjúkdómur í kart- öflum sem bakterían Clavibacter michiganensis subsp. sepedonicus veldur. Í Evrópu er hann einkum vandamál í nyrðri og svalari ríkjum álfunnar en meiri ska ðvaldur hefur hann þó verið í Norður-Ameríku. Við sáum sjúkdóminn fyrst hér á landi snemma árs 1984 í innfluttum finnskum kartöflum og var rúmum 50 tonnum fargað af þeim orsökum. Sjúkdómurinn var þó þegar kominn í innlenda ræktun og sama vor fannst hann á rúmlega 30 bæjum á Suðurlandi. Ekki skal fullyrt um hvernig hann barst til landsins. Þó má segja að smit hafi snemma komist í nýtt yrki sem heitir Premiere og flutt var inn frá Hollandi. Árið 1982 voru flutt inn 10 tonn af útsæði sem að mestu fóru í Þykkvabæinn og skiptust á 10-12 ræktendur. Árið 1983 fékkst mjög takmarkað magn af Premiere- útsæði að utan og því fór óvenju mikið af útsæði milli ræktenda því allir vildu reyna þetta nýja, snemmþroska yrki. Árin 1984 og 1985 var talsvert flutt inn, m.a. til ræktenda á Norðurlandi. Á þessum tíma fullyrtu Hollendingar að sjúkdómurinn væri ekki til í Hollandi. Um 1990 var komin upp alvarleg staða. Smit mátti finna hjá um 80 ræktendum í öllum landshlutum og skemmdir frá því að vera engar og upp í um fjórðungur kartaflna með innri skemmdir. Það alvarlegasta var þó að smit var komið í stofnútsæðið og nokkrir ræktendur fengu til sín smit með því. Svo heppilega vildi til að Rannsóknastofnun landbúnaðarins var tilbúin með nýja veirufría stofna af Gullauga, Helgu og Rauðum íslenskum. Sett var reglugerð um kart- öfluútsæði en hún lagði grunn að nýrri stofnrækt sem byggði á endurnýjun stofna með vefjaræktun. Reglugerðin átti einnig að hamla gegn því að hring- rot dreifðist með útsæði með því að koma á svokölluðum útsæðisleyfum. Víðtækur stuðningur fékkst til að byggja upp nýju stofnræktina, m.a. með þingsályktunartillögu á Alþingi og hefur dyggilegur stuðningur frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins tryggt viðgang hennar. Árangur var góður og má segja að tjón af völdum hringrots þessa síðustu tvo áratugi hafi verið óverulegt og flestir þessara ræktenda virðast hafa losað sig við smitið. Það skal tekið fram að bakterían sjálf er hættulaus fyrir allar lífverur aðrar en kartöfluna og skyldar tegundir. Sjúkdómseinkenni Bakterían getur verið til staðar í kart- öflunni án þess að nokkur einkenni sjáist en fari fjöldi þeirra yfir ákveðin mörk koma fram skemmdir í leiðslu- vef plöntunnar. Í kartöflunum liggur þessi leiðsluvefur í hring utarlega í kartöflunni með tengingu við nafla og augu, sem verður fyrst gulleitur og má þá kreista úr honum ljóst, grautkennt slím þegar þrýst er á kart- öfluna. Skemmdin í hringnum getur síðar orðið dökkleit. Eðlilegt er að leiðsluvefurinn sé gulari en nálægur vefur og ekki er óalgengt að dökk skemmd sé í leiðsluvefnum, m.a. vegna mikilla þurrka, en ef hægt er að kreista slím úr leiðsluvef kartöflu sem óskemmd er að utan og vefurinn losnar þannig að rifa myndast, er að öllum líkindum um hringrot að ræða. Mörg ár geta liðið frá því að smit berst í ræktunina og þar til menn verða varir við skemmdar kartöflur. Misjafnt er eftir yrkjum hversu gjörn þau eru á að sýna einkenni. Hér er eingöngu fjallað um svokallað ljóst hringrot en til er einnig dökkt hringrot sem bakterían Ralstonia solanacearum veldur en hefur ekki greinst hér á landi enn. Smitleiðir Mikilvægustu smitleiðirnar eru með útsæði og þeim vélum sem snerta og skadda kartöflurnar eins og niðursetn- ingarvél, upptökuvél og flokkunarvél. Minni hætta er af jarðvinnslutækjum og dráttarvélum með tilliti til hring- rots en þeim mun meiri vegna hnúð- orms sem berst með jarðvegi. Smit hringrots lifir takmarkað í garðinum og þá helst í kartöflum sem ekki ná að frjósa yfir veturinn. Smituð en ein- kennalaus kartafla skilur lítið smit eftir sig í vélum miðað við kartöflu sem komin er í mauk og skilur eftir sig smitklessur víða. Lengst lifir smitið í innþornuðu slími við svöl og þurr skilyrði þar sem eru litlar hita- og rakasveiflur og eru dæmi þar um í 2 og jafnvel fleiri ár. Í sýktu kartöflugrasi getur smit einnig verið í stönglum og geta dýr sem glefsa í stöngla og fara milli garða, eins og gæsir og álftir, hugsanlega borið smit milli garða og erlendis hafa menn áhyggjur af vissum skordýrum. Varnir Með útsæðisreglugerðinni (nú nr. 455/2006) er reynt að hefta frekari dreifingu hringrotssmits. Einungis ræktendur með útsæðisleyfi mega selja kartöflur sem útsæði á almenn- an markað. Heimilt er að ræktendur eigi viðskipti sín á milli með útsæði nema staðfest hafi verið hringrot eða hnúðormur hjá ræktanda, þá er honum óheimilt að láta frá sér kartöflur til nið- ursetningar. Til að fyrirbyggja að menn fái til sín hringrot með útsæðinu má mæla með að taka einungis útsæði frá útsæðisleyfishafa og setja ekki niður kartöflur af einhverjum ótryggum upp- runa. Varðandi hina megin smitleiðina, vélarnar, þurfa menn að sýna mikla aðgát við samnýtingu véla og kaup á notuðum vélum. Það þykir oft sjálfsagt að menn hjálpist að þegar mikið liggur við að bjarga uppskerunni, en hafa verður þessa smithættu í huga áður en farið er með vélar í garðland nágranna eða vélar fengnar að láni. Þegar varnarráðstafanir eru gerðar áður en fer að bera á skemmdum kart- öflum virðist sem oft hafi tekist að losna við smitið. Þegar smitið er orðið útbreiddara og skemmdar kartöflur farnar að klessast í vélum og umbúð- um getur reynst erfiðara að losna endanlega við smit. Varnarráðstafanir felast í því að skipta út útsæðinu og sótthreinsa vélar og umbúðir. Útbreiðsla síðustu ár Hringrot má enn finna hjá einstaka ræktanda í flestum landshlutum. Gætu þeir verið á bilinu 5-10 alls. Ekki hefur verið fylgst með öllum ræktendum en reglulega þó með um 30 bændum. Vísbendingar eru um að í flestum tilvikum sé um smit að ræða sem upprunnið er 1982-1984, en ekki er hægt að útiloka að eitthvað hafi bor- ist með innfluttu útsæði síðar. Önnur lönd glíma einnig við þennan vanda og hefur hringrotssmit fundist öðru hverju í stofnútsæði í milliríkjavið- skiptum í N-Evrópu. Lokaorð Hringrot er í raun ekki erfiður sjúk- dómur að eiga við í ræktun matarkar- taflna, ef ræktendur hafa stöðugan aðgang að heilbrigðu útsæði. Með því að endurnýja reglulega með kaupum á hringrotsfríu útsæði má halda smiti niðri svo ekkert tjón verði. Örugg stofnræktun er því lyk- ilatriði. Aðaltjón af völdum hring- rots hefur verið í ræktun útsæðis og hjá þjóðum þar sem útflutningur á útsæði er mikilvægur. Meðan hring- rot finnst hjá einhverjum kartöflu- bændum er alltaf hætta á að það fari úr böndum og breiðist út. Hætt er við að menn sofni á verðinum. Þeir sem vita um hringrotssmit hjá sér bera ábyrgð á því að smit berist ekki frá þeim til annarra ræktenda með útsæði og vélum. Aðgerðir hér á landi miðast við að sporna gegn frekari útbreiðslu og láta ræktendur alfarið um að ná niður smiti hjá sér. Hér hefur ekki fengist fé til útrýmingar á plöntu- sjúkdómum eins og búfjársjúk- dómum. Innan Evrópusambandsins miðast aðgerðir við útrýmingu og samkvæmt tilskipun þar um getur þurft að leggja niður kartöfluræktun í 3 ár þar sem hringrot greinist ef ekki er nægjanlegt framboð af nýju landi og hefja síðan ræktun á ný með stofnútsæði og eftir sótthreins- un á vélum og geymslum. Líklegt er að koma muni að því að við verðum að taka hringrotið fastari tökum og kosta til þess einhverju fé. /Sigurgeir Ólafsson, plöntusjúkdómafræðingur Sjá einnig: Sigurgeir Ólafsson (1985): „Hringrot. Nýr kartöflusjúkdómur á Íslandi“. Freyr 81 (8), 300-302. Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Í síðasta pistli hér í Bændablaðinu fjallaði ég um vetrarklippingu trjágróðurs og því ekki úr vegi að fylgja þeirri umfjöllun eftir með upplýsingum um hvernig má nýta greinar sumra tegunda sem vetrargræðlinga. Það er auðveld- ara að fjölga ýmsum tegundum af trjám og runnum með vetr- argræðlingum en marga grunar. Þetta á við um nánast allar víði- tegundirnar, alaskaösp og einnig hafa margir náð góðum árangri með ræktun vetrargræðlinga af hegg og ýmsum rifstegundum. Val á móðurtré skiptir miklu máli þegar teknir eru vetrargræð- lingar, því planta sem vex upp af græðlingi er erfðafræðilega eins og móðurtréð og kallast klónn. Við val á græðlingum er algeng- ast að nýta ársprotann en hæglega má nota alla plöntuna nema allra grennstu greinarnar. Þegar teknir eru græðlingar skal nota beittar klippur svo að sárið verði hreint. Heppileg lengd græðlinga er 18 til 20 sentímetrar og sverleikinn skal vera 8 til 10 millímetrar, eða ámóta að þykkt og meðal blýantur. Geymsla á græðlingum Eftir að græðlingarnir hafa verið klipptir til er best að geyma þá í kæli við 1ºC. Ef ekki er aðstaða til að geyma græðlingana í kæli má geyma þá óklippta í skugga á svölum stað og gott er að hylja græðlingaefni með sandi eða mosa. Græðlingar sem geymdir eru lengi við ófullnægjandi aðstæður þorna og því er gott að setja þá í vatn í sólarhring svo að þeir dragi í sig vökva áður en þeim er stungið niður. Græðlingunum er stungið lóðrétt í ílát með vatni í þannig að brumin vísi upp. Ekki skal stinga græðlingunum á bólakaf. Eftir að þeir hafa dregið í sig vatn er best að stinga þeim beint í mold en ekki láta þá þorna aftur. Ræktun í beðum Ef stinga á græðlingunum í beð og rækta þá þar verður að stinga beðið upp og blanda safnhaugamold, sveppamassa eða húsdýraáburði í jarðveginn. Látið beðið standa í nokkra daga og jafna sig áður en græðlingunum er stungið niður. Gott er að setja svart plast yfir beðið og fergja vel á köntunum og stinga græðlingunum í gegnum það. Plastið heldur jöfnum raka í beðinu og dregur til sín hita. Hæfilegt bil á milli víðigræðlinga í beði er 10 til 12 sentímetrar og 15 til 20 sentímetrar á milli raða. Græðlingunum er stungið skáhallt niður og eitt til tvö brum látin standa upp úr. Vorið eftir skal klippa burt um 2/3 af ársvexti víðis svo að plantan greini sig. Ef ætlunin er að fá einstofna ösp skal velja digran sprota til áframrækt- unar en klippa aðra burt. Forræktun í pottum og bökkum Hægt er að stinga græðlingunum beint í potta eða fjölpottabakka en þegar slíkt er gert eru græðling- arnir hafðir styttri en græðlingar sem stungið er í beð og er hæfileg lengd þeirra 10 til 12 sentímetrar. Stingið græðlingunum niður þannig að 1/4 standi upp úr jarðveginum eða tvö til þrjú brum á víði, hegg og rifsi, og eitt brum á ösp. Gott er að strengja plast yfir pottana þar til græðling- arnir hafa rætt sig. Ekki er æskilegt að láta græðlingana vera meira en eitt ár í pottum. Til þess að ræktunin heppnist vel skal rækta græðlingana á skjólgóðum stað vegna þess að vindur eykur upp- gufun og vatnsþörf plantnanna. Gott er að raða pottunum þétt og hreykja jarðvegi að úthlið þeirra til að varna því að moldin í ystu pottunum þorni. Ef víðigræðlingunum er stungið niður á endanlegan vaxtarstað skal hafa 30 til 35 sentímetra á milli fín- gerðari tegunda eins og myrtuvíðis og viðju, en 50 til 75 sentímetra á milli grófgerðra tegunda eins og alaskavíðis og jörvavíðis, sem henta reyndar betur í skjólbelti en limgerði. Garðyrkja & ræktun Vetrargræðlingar af trjáplöntum

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.