Bændablaðið - 16.02.2012, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 16.02.2012, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | fimmtudagur 16. febrúar 2012 Hjá Merkurbúinu sf., sem er félagsbú í Stóru-Mörk undir norðvestanverðum Eyjafjöllum, eru nú um 83 kýr og þar af um 75 mjólkandi auk þess sem öll naut eru sett á. Á bænum er tæknivætt mjal- taþjónafjós (róbótafjós) sem nú er verið að ráðast í að endurbæta. Hluti af þeim endurbótum erkaup á tveim nýjum mjaltaþjónum, sem koma í stað eldri róbóts sem er þegar ofsetinn og annar ekki fleiri kúm en nú eru í fjósinu. Þá eru um 280 fjár á bænum sem gefa af sér um 400-500 lömb að vori. Auk þessa er þar rekin ferðaþjónusta. „Við erum búin að kaupa tvo nýja Lely A4-mjólkurróbóta og erum að fara að skipta út eldri róbót sem keypt- ur var 2005 og er af gerðinni Lely A2,“ segir Aðalbjörg Ásgeirsdóttir sem rekur búið ásamt eiginmanni sínum, Eyvindi Ágústssyni. Þau reka búið í félagi með foreldrum Aðalbjargar, þeim Ásgeiri Árnasyni og Rögnu Aðalbjörnsdóttur. Aðalbjörg og Eyvindur komu inn sem rekstrarað- ilar að félagsbúinu árið 2010 og hafa verið að taka við hlut Guðbjargar föðursystur Aðalbjargar og Kristjáns Mikkelssen, eiginmanns hennar. Fimmti ættliðurinn að taka við Búið í Stóru-Mörk hefur verið í ábúð sömu fjölskyldu allt frá árinu 1865 þegar Einar Ólafsson hóf þar búskap. Aðalbjörg er fimmti ættliður og segir hún mikinn mun fyrir ungt fólk eins og þau Eyvind að geta komið inn í búskap með þessum hætti. Nær úti- lokað sé að hefja búskap frá grunni í dag nema eiga umtalsverða fjármuni aflögu. Rekstur myndi heldur aldrei standa undir 100% lántöku í slíku dæmi. 1.650 lítrar á sólarhring „Gamli róbótinn er eiginlega orðinn ofsetinn,“ segir Aðalbjörg. „Í fyrri viku fóru sólarhringsafköstin á mjólk frá þessum gamla róbót í fyrsta sinn yfir 1.600 lítra eða upp í 1.650. Sú mjólk fékkst frá 74 kúm. Samkvæmt því sem söluaðilar Lely segja okkur er þetta mesta mjólkurmagn sem sést hefur hér á landi á einum degi á einn róbót.“ Íslandsmet Sverrir Geirmundsson, sölumaður hjá Vélaborg (VB landbúnaður ehf.), segir það vel geta verið rétt að um Íslandsmet sé að ræða í sólarhrings mjólkurnyt á einn Lely-mjaltaþjón. Birkir Arnar Tómasson, bóndi á Móeiðarhvoli 2 í Hvolshreppi skammt vestan við Hvolsvöll, hafi þó náð eitt- hvað yfir 1.600 lítrum í sólarhrings- nyt á einn Lely-mjaltaþjón og eins hafi bændur á Lyngbrekku í Dölum náð miklum afköstum með Lely- mjaltaþjónum, enda hafi það verið afurðahæsta bú landsins árið 2007. „Það er oft miðað við að Lely- mjaltaþjónarnir geti annað allt að 70 kúm á dag, en þá skiptir öllu máli hvernig hjörðin er samansett og mjaltahraðinn hjá hverri kú skiptir þar mjög miklu. Sumar kýr geta verið 15 til 20 mínútur í mjöltun á meðan aðrar eru kannski ekki nema fimm mínútur. Ef hjörðin er lausmjólka geta Lely-róbótarnir þjónað mjög mörgum kúm,“ segir Sverrir. Segir hann að ef miðað sé við 1.650 lítra dagsnyt, eins og náðist í Stóru-Mörk, þá myndi slíkt gera 594.000 lítra á ári ef sú nyt næðist alla daga. Einn Lely-róbót ráði vel við 450.000 lítra á ári og margir bændur fari vel yfir það. Starfsmenn umboðsaðilans Vélaborgar munu sjá um uppsetningu á nýju mjaltaþjón- unum í Stóru-Mörk í mars eða apríl. Fjölga í stofninum Ásgeir Árnason segir að svo vel hafi gengið að halda við stofninum á bænum að þau hafi orðið að selja frá sér 10 kvígur í fyrra þar sem mjaltaþjónninn annaði ekki fleirum. „Í stað þess að halda áfram á sömu braut ákváðum við að fjölga heldur róbótum.“ Segir hann að þessar breytingar með möguleikum á aukinni fram- leiðslu séu vel í takt við þá möguleika sem séu í greininni. Mjólkursamsalan hafi t.d. á mánudag í síðustu viku greint frá áformum um stóraukna sölu á mjólkurafurðum til Bandaríkjanna. Ásgeir segir þetta ánægjulega þróun, auk þess sem hægt sé um leið að auka kjötframleiðsluna. Fyrir um tveim árum hafi staðan verið þannig á kjötmarkaði hérlendis að það hafi hreinlega ekki borgað sig að fram- leiða nautakjöt. Nú virðist menn loks vera að átta sig á því að verð á land- búnaðarvörum á Íslandi hafi dregist afturúr þróuninni erlendis. Þegar gengi krónunnar var kolrangt skráð og allt of sterkt fyrir nokkrum árum hafi menn hamast við það í fjölmiðlum að reyna að sýna fram á hvað verð á íslenskum landbúnaðarafurðum væri óhagstætt í samanburði við erlenda framleiðslu. Nú sé hætt að birta slíkan samanburð. Stóra-Mörk er 9 kílómetrum innan við vegamótin á þjóðvegi 1 fyrir neðan Seljalandsfoss. Íbúðarhús, gistihús og fjós félagsbúsins Merkurbús sf. er lengst til vinstri á myndinni, en Stóra-Mörk II og III til hægri. Myndir / HKr. Eyvindur Ágústsson og Ásgeir Árnason við gamla Lely mjaltaþjóninn sem metið var sett á í fyrri viku. Met sett á dögunum í afköstum á einn mjaltaþjón hjá félagsbúinu Stóru-Mörk: Kaupa tvo nýja mjaltaþjóna, endurbæta fjósið og fjölga mjólkurkúm - Hefur verið í ábúð sömu fjölskyldu í fimm ættliði, eða frá því Einar Ólafsson hóf þar búskap 1865

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.