Bændablaðið - 16.02.2012, Blaðsíða 33

Bændablaðið - 16.02.2012, Blaðsíða 33
33Bændablaðið | fimmtudagur 16. febrúar 2012 Margir halda að Ísland standi í samningaviðræðum um aðild að ESB. Bara svona að kíkja í pakk- ann dæmi og sjá hvað er í boði, og ef okkur líst ekki á það sem er í boði getum við hætt við aðild og fellt hugsanlegan samning í þjóð- aratkvæðagreiðslu. Þetta er mikill misskilningur. Eina leið Íslands til þess að fá aðild að ESB er með fyrirfram aðlögun á því regluverki ESB, sem við höfum ekki þegar tekið upp vegna EES-samningsins, áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild kemur. Það er einfaldlega ekki hægt að „kíkja í pakkann“ og sjá svo til. Nú eru liðin tvö og hálft ár síðan Alþingi samþykkti tillögu þess efnis að Ísland skyldi sækja um aðild að ESB og á þeim tímapunkti vissu fáir, þar með talinn undirritaður, hvernig aðildar- ferlinu væri háttað. Eftir að rýnivinn- unni lauk, þar sem borin var saman löggjöf ESB og Íslands, kom fyrst í ljós hvaða löggjöf þarf að breyta til þess að Ísland geti gerst aðili að ESB. Hafa þarf það í huga að það er Ísland sem ætlar að ganga inn í ESB, en ekki öfugt. Það þýðir að Ísland þarf að taka upp alla löggjöf ESB í öllum málaflokkum. 35 samningskaflar Í allt eru þetta 35 samningskaflar sem allir eiga sameiginlegt að á þeim eru svokölluð opnunarskilyrði og lokunarskilyrði. Þetta þýðir að til þess að hægt sé að hefja „samn- ingaviðræður“ í hverjum og einum kafla þarf Ísland fyrst að upp- fylla opnunarskilyrði hvers kafla fyrir sig áður en hægt er að hefja aðlögun að efni viðkomandi kafla. Aðlöguninni að regluverki hvers kafla lýkur svo ekki fyrr en Ísland hefur uppfyllt lokunarskilyrði hvers kafla fyrir sig og geri Ísland það, þá telst „samningaviðræðunum“ um viðkomandi kafla lokið og honum verður ekki breytt frekar eftir það, nema aðstæður breytist verulega. Ísland hefur þegar innleitt löggjöf ESB í átta samningsköflum í gegnum EES-samninginn og voru þeir kaflar fljótafgreiddir fyrir skemmstu. Þeir voru opnaðir og svo var þeim lokað sama daginn. Búið er að opna þrjá kafla til viðbótar, en þeir eru kafli nr. 5; Opinber innkaup, kafli nr. 10; Upplýsingasamfélagið og fjöl- miðlar og svo kafli nr. 33, sem nefnist Framlagsmál. Eftir standa þá 22 kaflar sem ekki er búið að opna, en í tveimur köflum til viðbótar hefur ESB lagt fram opnunarskilyrði sem Ísland hefur ekki orðið við enn sem komið er. Þetta eru kaflinn Byggðastefna og svo kaflinn um landbúnaðarmál og dreifbýlisþróun. Ísland neitar að verða við opnunarskilyrðum ESB Til stóð að opna kaflann um landbúnað á síðasta ári og hefja um hann „viðræður“. Opnunarskilyrði ESB lágu fyrir sl. haust, þegar rýniskýrslan var komin fram. Á fundi samningahóps um land- búnaðarmál og dreifbýlisþróun, sem haldinn var fyrir um ári síðan, var lögð áhersla á að vinna við gerð samningsafstöðu Íslands yrði sett af stað og lokið eigi síðar en 1. maí 2011. Sú vinna fór í raun aldrei af stað og er með öllu óvíst að hún verði nokkurn tíma unnin. Landbúnaðarráðherra neitaði að verða við opnunarskilyrðum ESB á síðasta ári og sendi frá sér tilkynn- ingu þess efnis að Ísland myndi ekki breyta núverandi landbúnaðarkerfi fyrr en þjóðin hefði samþykkt aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem var fullkomlega eðlileg ákvörðun. Þetta hafði þær afleiðingar að engar „viðræður“ hafa farið fram um regluverk ESB varðandi land- búnaðarkaflann, enda er það skilyrt af hálfu ESB að Ísland hefji aðlögun að þeim reglum sem gilda í landbún- aði í ESB á meðan samningskaflinn um landbúnað er í „viðræðuferli“. Seint á síðasta ári barst bréf frá ESB sem hljóðaði á þá leið að þar sem Ísland hefði ekki hafið nauð- synlega aðlögun að landbúnaðar- stefnu ESB væri ekki hægt að hefja viðræður við Ísland um þann kafla. Það að auki krafðist ESB nákvæmrar tímaáætlunar um það hvenær Ísland ætlaði að uppfylla opnunarskilyrðin. Þetta er ástæða þess að engar „við- ræður“ standa nú yfir um landbúnað- arkaflann og undirstrikar enn frekar aðlögunarkröfur ESB. Hver voru opnunarskilyrðin? Opnunarskilyrði ESB í landbún- aðarkaflanum voru fyrst og fremst þrjú. Eitt þeirra fólst í því að Ísland kæmi á fót svokallaðri greiðslustofu land- búnaðarins. Annað var að hafin yrði vinna að nákvæmum kortagrunni af öllum bújörðum í landinu, kortlagn- ingu og mælingu á ræktun bænda - svokallað landupplýsingakerfi. Það þriðja var krafa um breytingu á fyrir- komulagi búreikninga, í þá átt sem gerist í FADN (e. farm accountancy data network). Greiðslustofa landbúnaðarins er hugsuð til þess að hafa yfirumsjón með greiðslu á landbúnaðarstyrkjum frá ESB þegar og ef til þess kemur að Ísland verði aðili að ESB. Reiknað hefur verið út að miðað við umfang greiðslustofnana annara landa ESB muni 20-30 manns vinna við íslensku greiðslustofuna. Þetta er vegna mikillar skriffinnsku, skýrslu- halds og skoðunar á mánaðarlegum skýrslum frá bændum. Þess vegna þurfi svona marga starfsmenn til þess að fara yfir gögnin og reikna út styrki til hvers og eins bónda. Þess má geta að einungis þarf tvo starfsmenn í hlutastarfi til að reikna út beingreiðslur til allra bænda á Íslandi samkvæmt núgildandi bein- greiðslukerfi. Enda er það mjög einfalt í framkvæmd. Hægt er að taka dæmi af Króötum, en Króatía samþykkti aðild að ESB nú snemma á þessu ári eftir 10 ára aðlögunarferli. Í Króatíu eru íbúar um 4,5 milljónir. Áætlað er að fjöldi bænda þar í landi sé eitthvað á annað hundrað þúsund. Áætluð mannafla- þörf króatísku greiðslustofunnar er 518 manns. Kortagrunnurinn (landupplýs- ingakerfi) er hugsaður sem megin- stoðin í því sem greiðslustofan á að reikna út. Það er að segja, þar sem megnið af landbúnaðarstyrkjum ESB er greitt út miðað við hvern hektara lands í ræktun þarf auðvitað að finna út hektaraumfang hvers og eins bónda á Íslandi, svo að kerfið virki eins og í ESB. Það er auðvitað gríðarlegt verk að taka loftmyndir af allri tún- og akurrækt á landinu, heimsækja allar jarðir, mæla og skrá nákvæma stærð túna á öllum býlum landsins. Kortagrunnurinn verður síðan settur upp á rafrænan hátt. Ólíklegt þykir að þeir kortagrunnar sem þegar eru til og íslenskir bændur notafæra sér við t.d. áburðaráætlanir og fleira, séu nógu góðir fyrir greiðslustofuna. Allt verkið verður að vinnast frá grunni. Úthaginn íslenski er síðan alveg sér- stakt viðfangsefni. Kostnaðurinn við þetta verkefni verður alveg gígan- tískur. Varðandi búreikninga þarf að taka upp sama kerfi og er notað í ESB, sem er nokkuð frábrugðið því sem notað er á Íslandi í dag. Lokunarskilyrði ESB Samninganefnd Íslands í landbún- aðarkaflanum var líka kynnt hver lokunarskilyrðin yrðu af hálfu ESB. Þau eru frekar einföld. Ísland þarf að sýna fram á það með óyggjandi hætti að nýja kerfið, sem áður er lýst, virki, með því að sýna það í verki - með öðrum orðum að taka landbúnaðar- styrkjakerfi ESB upp og það áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild kemur... Er þá um eitthvað að semja? Þetta eru auðvitað ekki neinar samn- ingaviðræður, heldur ósköp einfald- lega fyrirfram aðlögun að ESB áður en þjóðin er spurð hvort hún vilji ganga inn í sambandið eða ekki. Því er ekki um neitt að semja. Eina spurningin er hversu fljótir Íslendingar verða að laga sig fyrir- fram að regluverki ESB. Það má öllum vera ljóst að þetta eru ekki samningaviðræður í hefðbundnum skilingi þess orðs heldur er þetta aðlögun. Margir halda enn að aðlögunin að ESB fari fram eftir að aðildarsamningur hafi verið sam- þykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu, en svo er aldeilis ekki. Aðlögunin fer fram á meðan á aðildarviðræðum stendur og er í raun lokið áður en til þjóðar- atkvæðagreiðslu kemur. ESB krefst þess að aðildarríkið geti sýnt fram á það, frá fyrsta degi aðildar, að það sé tilbúið til fullrar þátttöku í ESB sem fullgilt aðildarríki og enginn tími verður gefinn til aðlögunar að regluverki ESB eftir á. Þegar þjóðin fær síðan að kjósa um aðildarsamn- ing stendur hún frammi fyrir orðnum hlut, sem erfitt getur reynst að vinda ofan af, segi þjóðin nei á kjördegi. Reglur ESB um hvernig viðræðu- ferlið fer fram má finna í sérstökum bæklingi frá árinu 2011 sem heitir „The European Union's enlargement policy“ eða stækkunarstefna ESB. Í honum segir orðrétt (þýtt úr ensku): „Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samn- ingaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, fram- kvæmd þeirra og beitingu - sem fylla 100 þúsund blaðsíður. Um þessar reglur ... verður ekki samið.“ Eins og áður segir á eftir að opna 22 kafla og það eru engin smá mál - kaflarnir um frjálsa vöru og fjár- magnsflutninga, samkeppnismál, fjármálaþjónustu, matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði, sjávarútvegsmál, orkumál, skatta- mál, umhverfismál og neytenda- og heilsuverndarmál, svo að eitthvað sé nefnt. Þó svo að Ísland hafi uppfyllt einhver ákvæði í fyrrnefndum köflum í gegnum EES-samninginn standa eftir mörg „samningsatriði“ sem eftir er að uppfylla. Svo er auðvitað alveg eftir að taka kaflann um sjávarútveg fyrir, en eins og kunnugt er var hann, rétt eins og landbúnaðarkaflinn, undanskilinn í EES-samningnum á sínum tíma. Mögulegur aðildarsamningur getur aldrei orðið að veruleika fyrr en Ísland hefur uppfyllt öll lokunar- skilyrði allra samningskaflanna 35. Því er alveg ljóst að mjög langt er í land með að aðildarsamningur við ESB líti dagsins ljós og alveg klárlega ekki áður en kjörtímabil núverandi ríksstjórnar rennur út árið 2013. Fyrir alþingiskosningarnar 2009 settu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar fram hugmyndir sínar um tímaram- mann á þessu ferli. Þar var gert ráð fyrir því að kosið yrði um aðildar- samning snemma á síðasta ári, 2011. Þá átti að taka upp evruna við hátíð- lega athöfn á Þingvöllum á 200 ára afmæli Jón Sigurðssonar. Þessar hugmyndir benda nú mjög eindregið til þess að það ágæta fólk hafi ekki haft hundsvit á því sem það var að tala um, nema að það hafi þá talað gegn betri vitund, sem er auðvitað ekki útilokað. Allt um gang aðlögunarinnar að ESB má sjá á vef utanríkisráðu- neytisins hér: http://esb.utn.is/, sem þessi grein er m.a. byggð á, auk samtala við aðila úr samninganefnd Íslands um landbúnaðarmál. Hermann Aðalsteinsson bóndi, Lyngbrekku. SK ES SU H O R N 2 01 2 Er um eitthvað að semja?

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.