Bændablaðið - 08.05.2013, Qupperneq 36

Bændablaðið - 08.05.2013, Qupperneq 36
36 Bændablaðið | Miðvikudagur 8. maí 2013 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Íslendingar þekkja bambus aðal- lega sem byggingarefni í hús gögn og sem forvitnilega viðbót í austur- lenskri matargerð. En bambusrækt á sér langa sögu í Austurlöndum og segja má að þar sé hann ómissandi hluti af daglegu lífi fólks. Í Austurlöndum fjær er bambus ein helsta nytjajurtin ásamt hrísgrjónum. Bambus er grastegund eins og hrísgrjón, hveiti, húsapuntur og vallarfoxgras. Talið er að bambus skipist í sextíu til sjötíu ættkvíslir sem greinast í mörghundruð mismunandi tegundir. Bambusar eru langlífir og sígrænir. Þeir geta náð allt að þrjátíu metra hæð og er því sannkallað risagras, en flestir eru þeir á bilinu tveir til þrír metrar. Bambusinn er harðgerður en þrífst best í hlýju og röku loftslagi og frjósömum jarðvegi og margir þeirra þola talsvert frost. Jarðvegurinn sem þeir vaxa í má þó ekki vera of blautur því þá fúna ræturnar. Vex frá fjöru til fjalla Bambusinn hefur mesta útbreiðslu í Austur- og Suðaustur-Asíu en á náttúruleg heimkynni í öllum heimsálfum utan Evrópu og Suðurskautslandsins. Í náttúrulegum heimkynnum sínum vex hann allt frá sjávarmáli og upp á fjallsbrún. Bambus þykkir einstaklega góður til að binda jarðveg vegna rótasprota sem hann myndar og er því oft ræktaður í hlíðum þar sem hætta er á flóðum. Bambus vex mjög hratt og dæmi er um allt að 30 sentímetra vöxt á einum sólarhring og sagt að það megi horfa á fljótsprottnustu tegundirnar vaxa. Allt fyrir suma eitthvað fyrir alla Talið er að Austurlandabúar hafi verið farnir að nýta bambus fyrir rúmum fjögur þúsund árum. Jurtin er talin svo mikilvæg að kínverskur málsháttur segir að bambusinn sé allt fyrir suma og eitthvað fyrir alla. Úr jurtinni eru ofnir nytjahlutir eins og körfur og mottur, búinn til pappír, blek og skriffæri. Smíðaðar eru flautur og margs konar hljóðfæri og dæmi er um pípuorgel sem eingöngu var gert úr bambus. Fátækir bændur reisa hús úr bambus, burðarbitar, vegir, gólf, þak og rennur, allt úr bambus. Það er þó ekki eingöngu í Austurlöndum sem menn hafa notfært sér eiginleika bambussins. Þegar Thomas Edison var að prófa sig áfram með glóðarperuna var hann búinn að reyna nokkur þúsund mismunandi efni í þráðinn þegar hann reyndi bambusþráð og viti menn – það kom ljós. Burðargrindin í fyrstu flugvél Wright-bræðra var gerð úr bambus. Stönglar bambussins eru holir að innan og því léttir og þola mikla sveigju. Þetta hafa Austurlandabúar notfært sér og smíðað báta úr bambus. Þessar merkilegu plöntur tengjast bátum einnig á annan hátt og segir Marco Polo frá því í ferðasögu sinni frá þrettándu öld að Kínverjar flétti kaðla úr bambusþráðum og noti þá til að draga báta á land. Hann telur einnig ástæðu til að nefna kaðlarnir séu á engan hátt lélegri en hampkaðlarnir sem notaðir voru í Evrópu á þeim tíma. Bambuseiginkona Í Japan er til það sem kallast bambuseiginkona. Það er hólkur ofinn úr bambus sem er lagður í rúm og menn sofa með þá við hliðina á sér. Tilgangurinn er að leggja annan fótinn yfir hólkinn en um hann streymir kalt loft sem kemur í veg fyrir að menn svitni mikið á heitum nóttum. Bambus hefur ekki alltaf verið notaður í svo friðsamlegum tilgangi, heldur einnig sem pyntingatæki. Menn voru bundnir yfir nýsprota og hann látinn vaxa inn í augun eða kviðarholið og gegnum fórnalambið. Margir indverskir kotbændur lifa í eins konar bambusveröld allt frá vöggu til grafar. Börn sofa í bambusvöggu, fullorðnir vinna á bambusökrum og notast við bambusverkfæri. Bændurnir nota bambus sem fóður fyrir búfé og borða hann sjálfir og að loknu ævistarfinu eru þeir bornir til grafar á bambusbörum. Bambusbækur Eins og fyrr segir skipar bambus stóran sess í menningarheimi Austurlanda fjær. Í Kína eru til tvö þúsund ára gamlar skráðar heimildir á þrjátíu sentímetra langar bambusrullum sem bundnar eru saman í bók. Rullurnar eru ótrúlega endingar góðar og margar þeirra vel læsilegar enn í dag. Qis Shi Huang keisari, sem uppi var 259 til 210 fyrir Krist, skipaði svo fyrir að bækur Konfúsíusar yrðu brenndar og nokkrir munkar grafnir lifandi. Bókunum var komið undan með því að grafa þær í jörð. Hundrað árum síðar voru þær teknar í sátt að nýju og grafnar upp. Þær voru að mestu óskemmdar og grundvöllur þess sem vitað er um kenningar Konfúsíusar. Bambus í matinn Bambus þykir hið mesta lostæti og er víða nýttur sem fæða. Búddamunkar líta á bambus sem sælgæti og ekki að undra, þar sem hann er ein er af fáum fæðutegundum sem þeir mega neyta. Kínverjar og Taílendingar framleiða mikið af bambus til útflutnings. Sprotarnir þykkja bestir rétt áður en þeir koma upp úr jörðinni og segir sagan að bændur sem rækta bambus fari um akrana berfættir og leiti þannig að sprotum sem eru að skjóta upp kollinum. Til þess að halda þeim mjúkum hreykja þeir upp smá þúfum til að tefja fyrir því að vaxtarsprotinn komist í birtu. Pandabirnir eru mjög háðir bambus og nærast nánast eingöngu á einni tegund af bambus en þetta einhæfa mataræði hefur reynst þeim mjög afdrifaríkt. Þrátt fyrir að sumar bambustegundir geti lifað í allt að 120 ár eru þær þeirri náttúru gæddar að blómstra aðeins einu sinni og deyja svo. Allir einstaklingar sömu tegundar blómstra á sama tíma á svipuðum slóðum í heiminum og það tekur fræin allt að fimm ár að spíra og ná þeirri stærð að pandabirnirnir geti nærst á þeim. Meðan á endurnýjuninni stendur drepast margir pandabirnir úr hungri og eins og gefur að skilja hefur þetta einnig veruleg áhrif á efnahag bænda sem lifa af bambusrækt. Bambusjurtin er einnig þekkt sem lækningajurt og enn eru hefðbundin lyf úr þeim notuð á sjúkrahúsum í Kína gegn margsháttar sjúkdómum í öndunarveig. Jurtin er notuð í ástarhvata, en nýsprotarnir líkjast nashyrningshornum. Um tíma og eflaust enn flytja bændur á Indlandi þá út sem slík, en eins og flestir vita þykir fátt betra til að hressa upp á kynlífið en mulið nashyrningshorn. Bambushljóð Eins og áður hefur komið fram eru smíðuð hljóðfæri úr bambus en bambusinn á líka sín eigin hljóð og sumir segja að það séu fallegustu hljóð í heimi. Þegar vindurinn blæs milli sverðlaga blaðanna myndast eins konar blanda af gusti og skrjáfi sem hefur róandi áhrif á sál og lík- ama. Þegar jurtin er í sem örustum vexti gefur hún einnig frá sér hljóð. Krafturinn er svo mikill þegar ný vöxturinn brýtur sér leið upp úr jarðveginum og rífur sig gegnum rótarbjörgina að það heyrist hljóð ekki ósvipað því og þegar tappi er tekinn úr kampavínsflösku. Þeir sem hafa upplifað þetta segja að það sé eins og að ganga í gegnum ævintýraskóg og heyra skógarpúkana gera sér glaðan dag. Bambus á Íslandi Á Íslandi er lítið af bambus í görðum en sem komið er. Gulbambus sem upprunninn er í Himalajafjöllum hefur reynst ótrúlega harðgerður og hefur vaxið ágætlega og í nokkrum görðum Reykjavík. Þrátt fyrir að bambus sé sjaldgæfur ætti það ekki að koma í veg fyrir að hann sé ræktaður í garðskálum. Bambus er afskaplega blaðfallegur og fljótsprottinn og auðvelt er að fjölga honum með skiptingu og fátt er unaðslegra en að sitja í fallegum gróðurskála eða úti í garði og horfa á lítinn bambus og drekka rauðvín með elskunni sinni. Garðyrkja & ræktun Bambus – planta framtíðarinnar

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.