Læknablaðið - 15.10.1988, Blaðsíða 16
310
LÆKNABLAÐIÐ
heldur á þeim tíma sem skepnur eru hafðar í
húsum, og fá hann aðeins þeir menn sem hafa þá
atvinnu að leysa hey úr stáli og meðhöndla það
áður en það er gefið sem fóður. Heyið er alltaf
meira eða minna rykugt, og þarf að hrista úr því
rykið, áður en það notast sem fóður. Þegar ryki
þessu er andað að sér, sér í lagi þegar hirðing
heyja hefur verið léleg og það hefur myglað í
hlöðunni, fær sá sem vinnur við heyið sjúkdóm
þennan sem stendur yfir jafn lengi og hann heldur
áfram sömu vinnu, en hverfur venjulega á
sumrin. Sjúkdómurinn, sem lýsir sér með hósta,
oftast fremur litlum uppgangi og andþyngslum,
er oft talinn erfiður og getur valdið mjög miklum
andþyngslum, sérstaklega á kvöldin. (Heyið er
venjulega leyst úr stálinu seinni hluta dags, þ.e.
það sem ætlað er til gjafar um kvöldið eða
morguninn eftir). Við skoðun á brjósti þessara
sjúklinga hef ég nokkrum sinnum fundið merki
um bronkítis, en í langflestum tilvikum ekkert
óeðlilegt. Ég hef aldrei fengið tækifæri til þess að
skoða sjúkling í kasti« (5). Jón Finsen var fyrstur
til þess að benda á, að einkennin komi á kvöldin
eftir vinnu. Hann er því vafalaust að lýsa heysótt,
þótt það fari framhjá honum, að hiti er
aðaleinkenni heysóttar, enda hafði hann ekki haft
tækifæri til að skoða sjúkling í kasti.
Svo virðist sem lítill áhugi hafi verið fyrir
heysjúkdómum á fyrri hluta þessarar aldar. í
alþjóðlegum ritum er aðeins vitnað til einnar
greinar um þetta efni, sem skrifuð er í Bretlandi
1932 (6).
Árið 1961 skrifuðu Pepys og félagar um fellipróf
sem gerð voru á sermi úr sjúklingum með heysótt,
þar sem mótefnavakinn var úr heyryki eða
sveppum. Sýnt var fram á samband milli
jákvæðra felliprófa og heysóttar (7). Meðal þeirra
sem lögðu til blóðvökva í rannsóknir Pepys voru
12 bændur úr héraði Ólafs Björnssonar á Hellu.
Rannsóknir Pepys urðu hvati að miklum
rannsóknum á orsökum heysóttar. Var í fyrstu
talið að felliprófin væru góð til að greina heysótt.
Smám saman kom þó í ljós, að þau voru óhæf til
þess vegna ónógrar sérhæfni. Prófin segja aðeins
til um hvaða mótefnavaka blóðgjafinn hefur
komið í snertingu við. Var þetta m.a. niðurstaða
athugana á felliprófum, sem gerð voru á
íslenskum sjúklingum (8).
Algengustu einkenni af heyryki eru frá efri
öndunarfærum og augum Þessi einkenni gera vart
við sig nærri strax og komið er í heystæðu. Þessi
einkenni eru dæmigerð fyrir bráðaofnæmi. Ætla
mætti að svo algeng einkenni hefðu snemma
kallað á kerfisbundnar rannsóknir, en svo var þó
ekki. Fyrsta könnunin á bráðaofnæmi fyrir
heyryki, sem verulega athygli vakti, var gerð af
Cuthbert og félögum og birt 1979 (9). Hún sýndi
að heymaurar voru algeng orsök fyrir
bráðaofnæmi.
Frá árinu 1980 hefur starfshópur undir forystu
landlæknis unnið að rannsóknum á
heysjúkdómum. Hópurinn setti sér það markmið
að kanna orsakir og tíðni heysjúkdóma og benda
á leiðir til að koma í veg fyrir þá. Til þess að
kanna tíðni ofnæmis er nauðsynlegt að þekkja
ofnæmisvaka sem valda ofnæminu. Þess vegna
hefur starfshópurinn látið gera allumfangsmiklar
rannsóknir á heyi með tilliti til hugsanlegra
ofnæmisvalda í því (10-14).
Tilgangur þeirrar könnunar, sem hér er skýrt frá,
var að athuga samband heyverkunaraðferða og
einkenna við vinnu í heyryki. Einnig var kannað,
hvort súgþurrkun og notkun heybindivéla og
heyblásara við hirðingu á þurrheyi hefði einhver
áhrif á einkennin eða hvort heygrímur gætu varið
menn gegn óþægindum.
AÐFERÐ OG EFNIVIÐUR
Könnunin var framkvæmd í tveimur
landbúnaðarhéruðum, í VesturSkaftafellssýslu og
Strandasýslu. Úrtaki einstaklinga í könnuninni og
aðferðum við öflun efniviðar hefur verið lýst áður
(15). Þátttakendur voru látnir svara ítarlegum
spurningalista um einkenni við vinnu í heyryki.
Einnig voru spurningar um heyverkunaraðferðir
og samband heygæða og einkenna lagðar fyrir
þátttakendur. Spurt var um notkun heygríma og
hvort hún hefði áhrif á einkennin, þar sem það
átti við. Þeir sem höfðu einkenni líkleg fyrir
bráðaofnæmi voru húðprófaðir með pikkprófi og
eru niðurstöður þeirra rannsókna birtar annars
staðar (15).
Við tölfræðilega úrvinnslu voru notuð chi-square
próf.
NIÐURSTÖÐUR
Tafla I sýnir fjölda þeirra sem tóku þátt í
rannsókninni og hlutfall þeirra sem höfðu
einkenni tengd vinnu með fóður. Það hlutfall
reynist svipað í báðum héruðum, 19% höfðu slík
einkenni í Strandasýslu en 24% í
Vestur-Skaftafellssýslu.
Tafla II sýnir mismuninn á heyverkunaraðferðum
á þessum svæðum. í Strandasýslu verkuðu 88%
þátttakenda meira en 90% í vothey, en aðeins 7%