Læknablaðið - 15.12.1989, Blaðsíða 8
384
LÆKNABLAÐIÐ
störf í Áburðarverksmiðjunni á árunum
1954-1985. Áburðarframleiðsla hófst þar
árið 1954. Á launa- og ráðningalistum
verksmiðjunnar á árunum 1954 og 1955 voru
engir starfsmenn nefndir, sem unnið höfðu
styttra en eitt ár, sem gæti bent til að slíka
menn vantaði á listana frá þessum árum.
Unnt var að bera kennsl á alla, sem komu
fyrir á ráðningalistunum, með fæðingardegi
og persónunúmeri og fá vitneskju um afdrif
þeirra við lok rannsóknartímabilsins 1985.
Fáar konur voru meðal starfsmanna og
er þeim því sleppt. Sjötíu höfðu dáið úr
rannsóknarhópnum og tókst að afla upplýsinga
um dánarmein þeirra allra á Hagstofu íslands.
Hópnum var skipt í þrennt eftir störfum:
»vélgæslumenn á vöktum«, »almenna
verkamenn« og »aðra«.
»Vélgæslumenn« vinna innandyra á
þrískiptum vöktum. Þeir vinna meira eða
minna einir og gæta véla. Störf þeirra eru
svipuð árið um kring. »Almennir verkamenn«
vinna almenna verkamannavinnu, mestmegnis
utandyra. Störf þeirra eru breytileg eftir
árstíðum og verkefnum hverju sinni. Þeir
vinna dagvinnu og sjaldnast einir. I hópnum
»aðrir« eru iðnaðarmenn, skrifstofumenn
o.fl. I þessari aftursýnu hóprannsókn
var sömu rannsóknaraðferð beitt og við
dánarmeinarannsóknir sömu höfunda (27, 28)
og gildir það einnig um tölfræðilegar aðferðir
(29, 30). Sjöunda útgáfa Hinnar alþjóðlegu
dánarmeinaskrár var notuð við skráningu
dánarorsaka (31). Leyfi fékkst hjá Tölvunefnd
til að gera þessa athugun.
NIÐURSTÖÐUR
í óskiptum rannsóknarhópnum (tafla I) kom
í ljós, að færri höfðu dáið en búast mátti
við. Manndauði vegna magakrabbameins
var svipaður í rannsóknarhópnum og hjá
íslenskum körlum á sama aldri á sama tíma,
en dánartölur vegna lungnakrabbameins,
krabbameins í ristli, endaþarmi og briskirtli
voru hærri í rannsóknarhópnum en vænta
mátti. Dánartölur vegna hjartasjúkdóma og
slysa voru líka hærri en væntitölumar.
Þegar hópnum var skipt eftir því, hvenær
menn hófu störf (tafla II) og litið á öll
dánarmein, krabbamein og hjartasjúkdóma,
voru dánartölur hærri en vænta mátti vegna
krabbameina í fyrsta hópnum og vegna
hjartasjúkdóma í fyrsta og öðrum hópnum.
Tafla III sýnir niðurstöður, þegar
heildarhópnum var skipt eftir störfum og það
skilyrði sett, að menn hefðu unnið a.m.k.
eitt ár. Dánartölur vegna krabbameina og
hjartasjúkdóma voru hærri en búast mátti
við hjá »vélgæslumönnum á vöktum«. Hjá
»almennum verkamönnum« og heildarhópnum
voru dánartölur vegna allra dánarmeina lægri
en vænta mátti og þær niðurstöður voru
tölfræðilega marktækar.
Tafla IV sýnir starfsár og manndauða hjá
»vélgæslumönnum á vöktum«. Dánarhlutföll
vegna allra dánanneina og krabbameina voru
hæst hjá þeim, sem unnið höfðu styst og
hlutföllin fóru lækkandi því fleiri starfsár,
sem menn höfðu að baki. Dánarhlutfallið
vegna krabbameina var tölfræðilega marktækt
í hópnum, sem vann styst. Dánarhlutföllin
vegna hjartasjúkdóma breytast óháð
starfsárum.
UMRÆÐA
í upphafi var spurt, hvort karlar við
áburðarframleiðslu ættu fremur en aðrir á
hættu að deyja úr krabbameini og þá einkum
lungna- eða magakrabbameini. Niðurstöðumar
gefa ekki skýr svör við þessari spumingu.
Okkur eru ljósir ýmsir annmarkar á þessari
athugun. Starfsmannahópurinn er borinn
saman við íslenska karla en ekki við
aðra vinnandi menn. Þessi samanburður
býður upp á »áhrif hraustra starfsmanna«
í rannsóknarhópnum (32). Hópurinn er
fámennur og þar af leiðandi erfitt að fá
ákveðnar niðurstöður varðandi maga- og
lungnakrabbamein nema um sé að ræða a.m.k.
þrefalda hættu í rannsóknarhópnum.
Margir hafa athugað tengsl nítratneyslu og
magakrabbameins. Þess vegna var í upphafi
ákveðið að líta sérstaklega á magakrabbamein
hjá hópnum, þótt um eiginlega neyslu sé ekki
að ræða heldur rykmengun, sem berast kann
í munn og lungu. Því var talið eðlilegt að
athuga líka lungnakrabbamein.
Þegar hópnum var skipt eftir störfum, kom í
ljós, að »vélgæslumenn á vöktum« höfðu hæst
dánarhlutfall. Þess vegna voru þeir athugaðir
sérstaklega og tekið tillit til starfsára.
Þá kom í ljós, að staðlað dánarhlutfall,
sem reiknað var fyrir öll dánarmein og
krabbamein, var hærra en vænta mátti hjá
þeim, sem styst höfðu unnið, en Jækkaði