Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.12.1991, Blaðsíða 31

Læknablaðið - 15.12.1991, Blaðsíða 31
LÆKNABLAÐIÐ 1991: 77: 391-6. 391 Örn Bjarnason Orðasmíð í læknisfræði. ÍÐORÐASTARF FYRR OG NÚ: HVERJIR? HVERNIG? HVERS VEGNA? Nomina si nescis, perit et cognitio reram (1). GAGNRÝNI Á MÁLFARINU í LÆKNABLAÐINU í nýútkomnu riti um málhreinsun á íslandi segir frá því, að nýyrðasmíð í Iæknisfræði hafi ekki hafizt að marki fyrr en fremur seint. Það hafi ekki verið fyrr en Guðmundur Bjömsson kom að Læknaskólanum 1894, að farið var að leitast við það í kennslu, að setja íslenzk læknisfræðiheiti í stað þeirra erlendu. Lengi á eftir hafi læknar þó verið tregir til að nota íslenzku orðin, jafnvel á prenti. Hafi málfarið á Læknablaðinu, sem hóf göngu sína 1915, verið svo útlenzkuskotið, að þess hafi verið fá dæmi í prentuðu máli á þeim tíma. Guðmundur Bjömsson, þá orðinn landlæknir, skrifaði harða ádrepu um málfarið í blaðinu árið 1916 og taldi þjóðarhneisu, og árið 1928 gagnrýndi Guðmundur Finnbogason landsbókavörður blaðið fyrir málblending (2). Guðmundur Hannesson prófessor getur þess árið 1941, að í fræðum lækna sé aragrúi hluta og hugtaka, sem eigi engin íslenzk heiti, sízt svo, að þau hafi náð festu í málinu. Hafi þá alþjóðleg (Iatneskgrísk) heiti verið notuð í þeirra stað. Þetta hafi valdið því, að læknamálið sé hið mesta hrognamál, eins og víða megi sjá í Læknablaðinu (3) og árið 1955 segir Vilmundur Jónsson landlæknir, að þetta eina málgagn íslenzkrar læknastéttar beri hnignandi málfari stéttarinnar vitni, því að segja megi, að hafi hin fyrsta ganga þess verið ill, þá sé hin síðari verri (4). Undanfama áratugi hefir ritstjóm Læknablaðsins haldið fast við þá stefnu, að íslenzkað skuli allt sem íslenzkað verður (5). Þetta hefir kallað á verulega íðorðasmíð, en ekki er það mitt að dæma hvemig til hefir tekizt. í þessari grein mun ég fyrst leitast við að gera grein fyrir því, hvað íðorðafræði eru, í hverju íðorðastarf er fólgið, hvað hefir áunnizt og hvað er framundan. Síðar mun ég reyna að svara nýlega fram kominni gagnrýni á kerfisbundna orðasmíð. ÞRENNS KONAR VIÐHORF Nú á dögum ríkja einkum þrenns konar viðhorf til almennra rannsókna í íðorðafræðum (6): * Viðfangsaðferð tekur til meðferðar hugtakið og tengsl þess við nálæg hugtök, samsvörun hugtaks og íðorðs, svo og nafngjöfina, það er að segja heimfærslu íðorðs á hugtak. Þar situr í fyrirrúmi skráning íðorðagagna eftir efni og tekin eru fyrir kerfi hugtaka. Þannig eru brotnar hefðbundnar meginreglur orðabókargerðar. í stað stafrófsröðunar kemur hugtakaflokkun, þar sem hugtakið verður þungamiðja skráningarinnar (7). * Heimspekiaðferð svipar mjög til þeirrar viðfangsmiðuðu, sem hér var lýst á undan. Lögð er áherzla á skipun hugtaka í heimspekilega flokka. Einkum er leitast við að renna stoðum undir flokkunarkenningar. * Málvísindaaðferð byggir á þeirri hugmynd, að þar sem íðorðasöfn séu undirflokkar í orðaforða sérhæfða málsins, séu þau undirtungumál einstakra tungumála. Þess vegna er ráðum málvísindanna beitt á íðorðafyrirbæri, þar á meðal orðabókarfræðunum. SKILGREINING Á SKILGREININGU OG Á HUGTAKINU HUGTAK Skilgreining er stutt lýsing á hlut, eigindum eða ferli. Hugtakið hugtak má skilgreina sem almenna hugmynd, sem vísar til sameiginda einstakra (tegunda) hluta eða fyrirbæra (8).

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.