Læknablaðið - 15.02.1998, Blaðsíða 9
LÆKNABLAÐIÐ 1998; 84
97
Niðurstöður: Hámarksbeinmagni virðist
náð um tvítugt. Engin fylgni fannst milli
kalkneyslu og beinmagns nema í mjöðm í
undirhópi 18 ára kvenna sem neyttu minna en
1000 mg á dag. Engin marktæk fylgni fannst
milli þéttni 25-OH-vítamín D í blóði og heild-
arbeinmagns. Af hópnum höfðu 15-18,5%
lægri gildi (<25 nmól/L) á 25-OH-vítamín D í
blóði en æskilegt hefur verið talið fyrir full-
orðna. Veruleg fylgni fannst milli magns
mjúkvefja (þar með talið vöðva) og beinmagns,
0,38-0,53, p<0,01 en mjúkvefjamagnið var
jafnframt í réttu hlutfalli við líkamshreyfingu,
r=0,2-0,47, p<0,05. í fjölþáttagreiningu var
marktæk fylgni milli líkamshreyfingar og
heildarbeinmagns í 16-20 ára hópnum
(p<0,01), þannig jókst beinmagnið um 0,45%
fyrir hverja klukkustund líkamshreyfingar á
viku. Slík fylgni fannst ekki í hópi 25 ára.
Magn mjúkvefja skýrði 25,8-28,3% af breyti-
leika í heildarbeinmagni þátttakenda.
Alyktun: Hámarksbeinmagni kvenna er að
mestu náð um tvítugt. Þessi rannsókn bendir til
að unnt sé að auka það með æskilegu vöðva-
magni sem fæst meðal annars með nægilegri
líkamshreyfingu fyrir tvítugt. Meðalkalkneysla
reyndist góð og það kann að skýra að lítil
fylgni fannst milli hennar og beinmagns. D-
vítamínhagur hópsins var hins vegar neðan
æskilegra marka (<25 nmól/L) hjá að minnsta
kosti 15% þátttakenda án þess að það hefði
áhrif á beinmagnið.
Inngangur
Beinstyrkleiki á öllunt aldri ákvarðast að
stórum hluta (80%) af beinmagninu (1,2).
Beinmagn einstaklings á efri árum ákvarðast
bæði af því hámarksbeinmagni (peak bone
mass) sem viðkomandi hlaut er vexti beina var
lokið og því beintapi sem hann verður fyrir
með aldrinum. Rannsóknir benda til að bein-
magn sjötugra kvenna ákvarðist að hálfu af
hámarksbeinmagni viðkomandi konu og að
hálfu leyti af aldursbundnu beintapi, sérstak-
lega eftir tíðahvörf (3). Þess vegna hefur verið
mikill áhugi á að kanna hvað ákvarði hámarks-
beinmagn einstaklingsins, auk erfða, í því
skyni að hugsanlega megi stuðla að auknum
beinmassa á yngri árum. Það skiptir því jafn-
framt verulegu máli að vita hvenær hámarks-
beinmagni er náð, en niðurstöður rannsókna
hafa verið verulega misvísandi í þessu tilliti
eða 16-35 ára (4-6). í þessari rannsókn höfum
við reynt að meta hvenær hámarksbeinmagni
íslenskra kvenna sé náð og hvort fylgni sé milli
beinmagns og mataræðis, sérstaklega kalks og
D-vítamíns og líkamshreyfingar á þessum
aldri.
Efniviður og aðferðir
Slembiúrtak kvenna af Reykjavíkursvæðinu
á 16., 18., 20. og 25. aldursári var fengið úr
fbúaskrá Reykjavíkur. Alls var 496 konum
boðin þátttaka (tafla I). Þær sem voru þungað-
ar, höfðu átt barn innan sex mánaða eða höfðu
sjúkdóma sem kynnu að hafa áhrif á bein voru
útilokaðar. í rannsókninni tóku þátt alls 335
eða um 68% boðaðra, 71 var á 16. aldursári, á
18. aldursári voru 60, 118 á 20. aldursári og 86
á 25. aldursári. Rannsóknin á 16, 18 og 20 ára
hópunum var framkvæmd í febrúar til apríl
1996 og á 25 ára aldurshópnum í október og
nóvember 1996, að fengnu skriflegu samþykki
þátttakenda og foreldra yngstu stúlknanna.
Rannsóknin var samþykkt af siðanefnd lækna-
ráðs Sjúkrahúss Reykjavíkur.
Könnun á matarœði (kalki, prótíni og D-
vítamíni): Staðlaður spurningalisti (tíðnikönn-
unarlisti Manneldisráðs), saminn upp úr könn-
un Overvad og fleiri (7,8), var lagður fyrir þátt-
takendur þar sem beðið var um að krossa við
hversu oft ákveðinna fæðutegunda var neytt á
dag, í viku eða mánuði undanfarna þrjá
mánuði. Skammtastærðir voru áætlaðar með
Tafla I. Rannsóknarhópar, fjöldi þátttakenda í hverjum aldurshópi.
16 ára 18 ára 20 ára 25 ára Samtals
Boðaðar 86 82 185 143 496
Útilokaðar* 0 2 10 13 25
Mættu 71 60 118 86 335
Mætingarhlutfall 82 73 64 60 68
‘Útilokaðar voru þær sem voru þungaðar eða höfðu átt barn á síöustu sex mánuðum (alls 17), fengið meðferð með sykurvirkum sterum (fimm)
eða voru á flogaveikilyfjum (þrjár).