Læknablaðið : fylgirit - 15.07.1995, Blaðsíða 9

Læknablaðið : fylgirit - 15.07.1995, Blaðsíða 9
LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81 9 hafði lítið taumhald á unglingunum og ríkti oft hernaðarástand í tímum hjá honum. Næsta vetur fluttum við í sjálft skólahúsið og aðrir og fleiri kennarar komu til sögunnar. Anna Bjarnadóttir kenndi okkur ensku, alveg skínandi góður ensku- kennari. Hún kenndi okkur Oxford-ensku. Þeir Sigurður Thoroddsen og Ólafur Dan Daníelsson kenndu okkur stærðfræði. Mér er minnisstætt sérstakt atvik í öðrum bekk úr tíma hjá Sigurði Thoroddsen. Einn piltanna, Gunnar að nafni, þótti mjög baldinn. Bróður hans hafði verið vísað úr skóla árið áður af sömu ástæðu. Eitt sinn kallar Sigurður á hann í tíma og biður hann um að koma upp að töflu og reikna dæmi. Gunnar hreyfir sig ekki. Þá kallar Sigurður aftur: „Heyrðirðu ekki Gunnar?“ Þá stendur Gunnar upp en hann var mjög hár, nær tveir metrar, en Sigurður Thoroddsen fremur lágvax- inn. Gengur hann til Sigurðar, klappar honum á kollinn og segir: „Hvenær urðum við annars dús?“ Sigurður segir þá: „Mynduð þér ekki vilja reikna hér eitt dæmi uppi á töflu." Pá klappar Gunnar honum aftur á kollinn og segir: „Heyrðu annars Prútti minn, eigum við ekki bara að vera dús?“ (Prútti var uppnefni sem notað var á Sig- urð). Skömmu síðar hvarf Gunnar úr skóla og þótt við vissum ekki ástæðuna grunaði okkur hver hún væri. Kristinn Ármannsson var í miklu uppáhaldi hjá okkur. Hann kenndi okkur dönsku og síðar lat- ínu. Kristinn var mikið prúðmenni og ákaflega vingjarnlegur og góður kennari. Við vorum aðeins 10 í bekknum og hann kallaði okkur tíundu hersveitina, legio decima, en það var einmitt uppáhalds hersveit Cesars. Að skilnaði gaf Krist- inn okkur hverjum og einum kvæðabók Virgils áritaða til minningar um Iatínunámið hjá honum og þótti okkur mjög vænt um það. Pálmi Hannesson varð rektor árið 1929. Hann var einhver allra besti og skemmtilegasti kennari sem ég hef haft, en það voru því miður aðeins tvö ár. Það olli miklum úlfaþyti þegar Jónas ráðherra frá Hriflu setti hann í þetta embætti aðeins þrítug- an, en ég fer ekki nánar út í það hér. Bogi Ólafsson kenndi okkur ensku. Hann var ansi hrjúfur, en mér fannst hann viðkunnanlegur og vel að sér í enskunni. Ég hélt lengi kunnings- skap við Önnu Bjarnadóttur, Einar Magnússon, Pálma Hannesson og Kristin Ármannsson. Bogi Ólafsson leit reyndar stundum inn til mín síðar á lækningastofuna á Sóleyjargötu 5 til að spjalla við mig. Hann bjó þar í nágrenninu. Árin í læknadeild Háskóla íslands Ég varð stúdent vorið 1931. Lengi hafði ég velt því fyrir mér að fara í læknisfræði, en hafði samt sem áður ekki síður áhuga á tækninámi. Um tíma ætlaði ég að fara í Vélskólann og verða vélstjóri. En móðir mín hafði mikil áhrif á að ég valdi læknisfræði. Henni var það mjög hugleikið og sagði oft við mig að hún áliti það vera eitt hið göfugasta lífsstarf sem hugsast gæti ef það væri unnið af heilum hug. Það varð líka endanleg ákvörðun mín að læra læknisfræði og ég hef aldrei iðrast þess. Hinsvegar hef ég oft haft með ýmis- konar vélar og tæki að gera bæði í starfi og heima fyrir svo að dálítil tæknikunnátta hefur komið sér vel. Haustið 1931 hóf ég síðan nám í læknadeild- inni, sem þá var til húsa í Alþingishúsinu. Þetta var ein rúmgóð stofa með gluggum út að Dóm- kirkjunni. Guðmundur Hannesson kenndi okkur líffæra- fræði, lífeðlisfræði og heilbrigðisfræði. Hann sagði okkur urmul af sögum og byrjaði oft kennslustundina með því að fara með hnittna vísu eða segja okkursögu. Eitt sinn sagði hann: „Piltar mínir! Er allt fyrirfram ákveðið? Þó manni þyki helvíti hart að trúa því, þá virðist vera alveg ná- kvæmlega sama hvernig maður hegðar sér. Það kemur fram sem koma skal eins og þessi saga virðist benda til“, og svo hóf hann frásögnina: „Það var einu sinni kona sem bjó í sjávarplássi. Eina nótt dreymdi hana að henni var sagt að drengurinn hennar mundi drukkna og auk þess hvaða dag það yrði. Hún bregður skjótt við og kemur drengnum fyrir á sveitabæ tveimur eða þremur vikum fyrir þennan dag. Þar átti að gæta hans vandlega og geyma hann háttaðan ofan í rúm þangað til daginn eftir þennan tiltekna dag. Föt drengsins voru falin svo hann færi örugglega ekki út. Drengurinn bar sig illa vegna þessa og var grátandi seinni part dagsins. Vinnumaður á bæn- um sem var að störfum f smiðju heyrði til hans og vissi hvarfötin voru. Hann sækirþau, klæðirhann og segir: „Þú skalt bara koma til mín. Það er hlýtt og gott í smiðjunni og þú verður þar hjá mér“. Skömmu síðar fer vinnumaðurinn að líta í kring- um sig en sér drenginn hvergi. Hann hleypur út og sér þá vök á ísi á bæjarlæknum. Hann hleypur út á ísinn, en drengurinn er horfinn, sennilega niður í vökina. Lík drengsins fannst nokkru síðar neðar í læknum“, sagði Guðmundur að lokum. Þannig var þessi sorgarsaga. Prófessor Guðmundur Hannesson kenndi okk- ur einnig líkskurð og fengum við tvö lík til krufn- ingar meðan ég var í þessum hluta námsins. Ann- að var af konu, sem hafði látist á Kleppi og var einstæðingur. Það lík var gjörnýtt og þegar búið var að kryfja allt sem krufið varð á framhliðinni var líkinu snúið. Það var kallað að venda og því

x

Læknablaðið : fylgirit

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið : fylgirit
https://timarit.is/publication/991

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.