Læknablaðið : fylgirit - 15.07.1995, Blaðsíða 14
14
LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81
minn sem ég sérstaklega minnist var Kristján Por-
varðarson sem var þar námskandídat. Við vorum
góðkunningjar og unnum vel saman meðal annars
við tannúrdrátt sem oft var aðkallandi þegar
sjúklingar höfðu óþolandi kvalir sem verkjatöflur
ekki réðu við. En það voru þó aðeins að okkar
áliti ónýtar tennur, sem við tókum. Ef um lítið
skemmdar tennur var að ræða varð sjúklingurinn
að bíða eftir meðferð hjá tannlækni. Þeim sem
starfað hafa á Kleppi á þessum tíma getur aldrei
gleymst það sem þar var að sjá. Meiri eymd er vart
hægt að hugsa sér bæði á rólegu deildinni og þeirri
órólegu.
Staðgengill héraðslæknis
Sumarið 1935 var ég staðgengill Ólafs Einars-
sonar héraðslæknis í Laugarási í Biskupstungum.
Þangað kom ég akandi á litlum Opelbíl sem ég átti
og ætlaði að nota mikið í sjúkravitjanir. Ekki var
hægt að komast í mikinn hluta læknishéraðsins
öðruvísi en að fara fyrst yfir Hvítá með ferju því
þá var enn ekki komin brú yfir ána við Iðu, rétt
hjá Laugarási eins og nú er. Um þessar mundir
gekk slæmur kíghóstafaraldur í héraðinu einkum
á Skeiðum og í Hreppunum. Þangað var ég því
oftast kallaður, en þá varð að nota ferjuna og sá
sem bað um læknisvitjun varð að senda mann með
hesta að ferjustaðnum gegnt Laugarási á
ákveðnum tíma. Frá læknisbústaðnum sáum við
sendimanninn með hestana þegar hann nálgaðist
ána og þá hraðaði ég mér niður að bátnum, en það
var örstutt. Ég var vanur að sitja á hesti og það
gekk yfirleitt vel þótt stundum væru þetta trylltir
gæðingar. En eitt sinn kom þó fyrir er við vorum á
allmikilli ferð að hesturinn snarstöðvaðist svo ég
hentist langt fram af honum og mesta mildi var að
ég skyldi ekki hálsbrotna.
Fyrstu þrjá sólarhringana sem ég var í Laugar-
ási fór ég ekki úr fötum og svaf sáralítið. Það voru
stöðugar vitjanir og langflestar til barna, fársjúkra
með berkju- eða lungnabólgu. Ekki voru nein
sýklalyf tiltæk, aðeins hósta- og verkjastillandi lyf
ásamt slímlosandi mixtúrum. Þetta þurfti ég að
útbúa sjálfur og hafa meðferðis. Ég hafði ekki
komið á hestbak í ein tvö ár og á þriðja degi var ég
orðinn svo sár og aumur að ég átti mjög erfitt með
að sitja á hesti. En svo varð hlé á hestamennsk-
unni og ég fór í nokkrar vitjanir akandi í bflnum
upp í Biskupstungur.
Lítið hafði ég af Ólafi lækni að segja. Hann fór í
langferð en frú Sigurlaug Einarsdóttir kona hans
var heima að gæta bús og barna, sem voru fjögur,
þrír synir og dóttir á fyrsta ári. Tveir bræðranna
Jósef og Grétar eru kunnir læknar og urðu góð-
kunningjar mínir síðar. Frú Sigurlaug var mjög
geðug kona og var mér afar góð og hjálpleg á
meðan ég starfaði þarna, um mánaðartíma.
Lokapróf í læknadeild og framhaldsnám
í Danmörku
Við vorum aðeins fjórir sem tókum saman
lokapróf í læknadeildinni þann 5. febrúar 1937.
Auk mín voru það Gunnar J. Cortes lestrarfélagi
minn, Höskuldur Dungal bróðir Níelsar og Ing-
ólfur Blöndal bekkjarbróðir okkar Gunnars í
menntaskóla. Prófin gengu stórslysalaust hjá
okkur og fengum við allir fyrstu einkunn.
Þá lá næst fyrir að ná í námskandídatsstöðu á
sjúkrahúsi, en það var nánast ómögulegt á Is-
landi. Aftur á móti var nóg af þeim í Danmörku.
Ég sá nokkrar auglýstar í danska læknablaðinu og
sendi umsókn til sjúkrahússins í Nyköbing á eyj-
unni Mors í Limafirði og fékk jákvætt svar um
hæl. Óskað var eftir að ég kæmi sem allra fyrst og
ég fór af stað þangað viku eftir prófið með Gull-
fossi, konulaus íbili. þó ég væri nýlega kvongaður
Huldu Davíðsson. Ráðgert var að hún kæmi til
mín með vorinu. Svo mikið lá á að fá mig sem
kandídat á sjúkrahúsið að ráðinn var læknastúd-
ent, Alan Gammeltoft (síðar prófessor í lækning-
um kvensjúkdóma í Kaupmannahöfn), til þess að
gegna starfinu þar til ég kæmi.
Ég sigldi með Gullfossi til Kaupmannahafnar,
en þangað hafði ég komið röskum tveimur árum
áður í stutta heimsókn ásamt Huldu heitmey
minni. Þegar þangað kom var tengdafaðir minn
Ólafur V. Davíðsson kaupmaður á bryggjunni til
að taka á móti mér ásamt vini sínum Páli Ólafs-
syni frá Hjarðarholti. Hann var faðir Ólafar
myndhöggvara og þekkti ég hann vel. Þeir voru
báðir fullir af fjöri og glaðlyndi. Ákveðið var í
skyndi að aka rakleitt upp á Hótel Hafnia við
Ráðhústorgið þangað sem Ólafur bjó og skilja
farangur minn þar eftir. Síðan var ekið með mig
til að sýna mér höfuðborgina með öllum sínum
lystisemdum og bjóða mér upp á góðar veitingar á
ágætum skemmtistöðum. Um miðnættið var ég
orðinn allþreyttur og spurði hvort ekki væri mál
að fara að hvflast. Þeir kváðu að enn væri eftir að
líta inn á einn eða tvo skemmtistaði og varð það
úr. Ég held að klukkan hafi verið um þrjú þegar
við Ólafur vorum komnir upp á herbergið hans.
„Hér er góður legubekkur, sem þér er velkomið
að sofa á“, segir hann og þáði ég það. Við háttuð-
um í snatri því ég þurfti að fara á fætur klukkan sjö
til að ná hraðlestinni fyrir átta. Ólafur sofnaði um
leið og hann lagðist niður og hraut gífurlega, en ég
gat ómögulega sofnað fyrir hrotunum. Loks gafst
ég upp, vakti hann og sagði að þessi hávaði héldi
vöku fyrir mér. „Þá skal ég bara sitja uppi þar til