Læknablaðið : fylgirit - 15.07.1995, Blaðsíða 11

Læknablaðið : fylgirit - 15.07.1995, Blaðsíða 11
LÆKNABLAÐIÐ 1995; 81 11 brennsluspritt, en þessi blanda sem hann drakk nefndist þá dúndur. Ég þekkti þennan mann vel í sjón, man ekki hvað hann hét en kalla hann hér Jón. Hann ók hestvagni með ýmsan varning um bæinn, aðallega vörur frá heildverslunum til kaupmanna. Hann sat jafnan sjálfur á vagngrind- inni. Nokkru eftir komu okkar birtist veitingamað- urinn í eldhúsdyrunum og spyr Jón hvort ekki megi bjóða honum að snæða með þeim hjónum hádegisverð, og þáði hann það. Litlu síðar bjugg- umst við Gunnar til brottfarar eftir að hafa drukk- ið ölið, en þá kemur veitingamaðurinn þjótandi út úr eldhúsinu og biður okkur um að koma strax því eitthvað sé að Jóni. Hann hafi skyndilega staðið upp frá borðinu og hlaupið í áttina að vaskinum en á leiðinni hafi hann fallið á gólfið og liggi þar nú hreyfingarlaus. Við skoðuðum manninn. Hann var náfölur í andliti, púlsinn ekki finnanleg- ur og enginn andardráttur. Pað var ekki vafi á þvf að hann væri dáinn. Strax var hringt í Magnús Pétursson bæjarlækni, sem var góðkunningi okk- ar félaga, og hann kom von bráðar ásamt lög- regluþjónum. Eftir að bæjarlæknir hafði staðfest að Jón væri látinn var líkinu ekið í líkhús Rann- sóknastofu Háskólans. Næsta morgun vorum við Gunnar að vinna við krufningu með prófessor Dungal ásamt félögum okkar Ingólfi Blöndal og Höskuldi bróður Níelsar Dungals. Prófessorinn skoðaði eitt líffærið eftir annað og sagði: „Petta er eins og lambalifur", og hampaði lifrinni. „Það er alveg stórkostlegt! Maðurinn hefur drukkið brennsluspritt áratugum saman og samt er ekkert athugavert við lifrina, hjartað eins og í ungum manni og heilinn alveg eðlilegur. Ég skil ekkert í því hvað valdið hefur dauða hans, en það er eftir að rannsaka dálítið fleira. Vilt þú ekki Erlingur skera líffærin úr hálsinum, og færa mér þau?“ Ég gerði það og viti menn, vænn kjötbiti stóð í barka- kýlinu eins og tappi í flösku. Þarna var dánar- orsökin. Dungal sagði að sig hefði ekki grunað þetta vegna þess að Jón hefði ekki haft nein ein- kenni köfnunar. Hann hefði heldur alls ekki kafn- að, en kjötbitinn hefði valdið svo mikilli ertingu á vagustaugina að hjartað stöðvaðist. Þetta gæti líka komið fyrir þegar menn væru á sundi og fengju kalt vatn niður íbarkann. Þetta væri kallað að fá krampa, en væri beinlínis hjartalömun vegna svipaðrar ertingar. Þegar krufningunni var lokið og búið að setja líffærin aftur inn í líkið og verið að sauma saman var barið að dyrum. Þar var þá kominn sonur Jóns heitins ásamt móður sinni. Hana hafði dreymt um nóttina, að Jón kæmi til sín og segði að það hefði verið farið með sig á rann- sóknastofu prófessors Dungal. Þar hefði hann verið skorinn upp og stolið úr sér ýmsum líffær- um. Nú væru þau kominn hingað til að athuga hvort þetta væri rétt. Prófessorinn sagði að þeim mæðginum væri velkomið að koma inn og myndi hann láta opna líkið aftur og taka líffærin út ef þau gætu talið upp það sem ætti að vera þar inni. Þau töldu upp allt sem þeim datt í hug. Dungal sagði að þar ætti að vera miklu fleira og úr því að þau vissu það ekki væri þýðingarlaust að opna skurð- inn. Þau létu sér það lynda og fóru. Þetta var réttarkrufning og Dungal kenndi okkur einnig réttarlæknisfræði. Hann var prýðiskennari og rnjög áhugasamur vísindamaður. I miðhluta kenndi prófessor Jón Hjaltalín Sig- urðsson lyfjafræði. Hann var ágætlega lærður, ljúfur maður og léttur og við kunnum vel að meta hann. Hann sýndi okkur ýmsar þurrkaðar jurtir, sem notaðar voru til lyfjagerðar fyrr og síðar, og sagði okkur stundum gamansögur. Eitt sinn var hann að ræða um kynörvandi lyf sem þá voru fá á markaðnum, líklega ennþá færri en nú á dögum. Það var þá eiginlega aðeins eitt lyf, yohimbin, sem notað var í þeim tilgangi. Prófessor Hjaltalín sagði okkur að til sín hefði komið kunningi sinn nokkuð við aldur, og sagt honum að nú yrði hann að hjálpa sér því mikið lægi við. Hann væri að fá nýja ráðskonu og þyrfti að sýna henni fulla karl- mennsku, en upp á síðkastið hefði hann því miður verið getulítill. „Ég lét hann fá lyfseðil á þetta lyf“, sagði Hjaltalín „og sagðist vona að það dygði honum vel. Nokkrum dögum síðar var ég á gangi í miðbænum og þá kom þessi kunningi minn hlaup- andi yfir götuna, faðmaði mig að sér og sagði að þetta hefði nú verið meira undralyfið sem ég hefði látið sig fá og hefði það dugað sér mjög vel. Hann ljómaði af ánægju og þakkaði mér innilega.“ Ekki vildi prófessor Hjaltalín þó telja þetta sönnun um ágæti lyfsins, en hefði þó stundum látið menn reyna það þegar önnur ráð hefðu brugðist og alloft gefist vel, en ef til vill væri þetta aðeins sálræn verkun! Það var mjög ánægjulegt að læra lyflæknisfræði hjá honum. Sérstaklega kenndi hann okkur vel að skoða sjúklinga ekki síst að hlusta hjarta og lungu, en fáir voru honum færari á því sviði. Þar naut sín vel mikil reynsla hans, þekking, þolinmæði og nákvæmni. í ársbyrjun 1937 kom Kristinn Stefánsson lækn- ir til sögunnar og leysti prófessor Jón Hjaltalín Sigurðsson af hólmi í lyfjafræðikennslunni. Það var tími til kominn enda allt of mikið starf að kenna bæði lyfja- og lyflæknisfræði, en það gerði Hjaltalín fram til þessa. Kristinn, sem var bróðir Sæmundar mágs míns, hóf kennslu um það leyti sem ég var í lokaprófi og var hann því aldrei kennari minn.

x

Læknablaðið : fylgirit

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið : fylgirit
https://timarit.is/publication/991

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.