Kjarninn - 03.04.2014, Qupperneq 51
03/07 Viðtal
þá að búa til sjónvarpsauglýsingu fyrir gleraugun, eins og
þau væru tilbúin til markaðssetningar. Hugmyndirnar sem
birtust í auglýsingunni þóttu svo góðar að myndskeiðið var
notað sem viðmið þegar kom að forritun og smíði tækisins.
„Google Glass var fyrsta verkefnið sem við [á hönnunar-
stofunni] höfðum svo mikil áhrif á. Þetta var í raun og veru
í fyrsta sinn sem tilbúið myndband hafði svo mikil áhrif á
lokaútkomu tækis eins og Google Glass. Nú erum við farin
að gera mun meira af þessu,“ segir Wong þegar hann er
inntur eftir því hvort þetta sé hefðbundin nálgun þegar ný
og framúrskarandi hugmynd að tækni er í þróun. „Mynd-
bandið var í raun og veru bara upphafið á þessari vegferð
því eftir að það var tilbúið eyddum við einu og hálfu ári með
verkfræðingunum sem smíðuðu tækið og forrituðu.“
Wong lýsir myndbandinu sem eins konar sérvíettu-
teikningu sem hafi orðið að raunveruleika. Það hafi verið
uppkast af vöruþróuninni og mótað hvernig notandinn átti
eftir að upplifa Google Glass. „Þetta er frábær leið til að móta
sjónræna upplifun á tækinu.“
google glaSS eru þróuð af leyniteymi google
Google Glass er fyrsta tæki sinnar tegundar í
heiminum, en það sameinar kosti fjölmargra tækja,
svo sem snjallsíma, leiðsagnartækis, myndavélar,
myndbandsupptökuvélar, klukku og gleraugna.
Tæknin á bak við gleraugun frá Google er þróuð af
Google X; hálf dularfullu teymi sem auk fram-
tíðargleraugna þróar sjálfakandi bíla og alheims-
internetsaðgang í gegnum loftbelgi sem eiga að
svífa í heiðhvolfinu.
Google Glass er í raun og veru hefðbundin
gleraugnaspöng með engum glerjum. Í stað glersins
er aðeins lítill skjár sem staðsettur er rétt innan við
jaðarsjón notandans. Skjárinn gengur fram fyrir
spöngina frá snertifleti við gagnaugað sem festur er
á spöngina. Fyrir aftan eyrað er svo áföst smátölva.
Skjárinn er ekki alltaf virkur. Maður þarf að
snerta spöngina hægra megin til að virkja skjáinn
og aflæsa tölvunni með raddskipuninni „Ok, glass“.
Þá birtast á skjánum alls kyns skipanir sem hægt
er að bæta við. Svo sem: „Ok, glass. Take a picture.“
Það kemur á óvart hversu hraðvirk smátölvan er, því
um leið birtist ljósmynd á skjánum. Fleiri skipanir
má gefa tölvunni eins og að leita á vefnum, hringja í
mömmu og senda textaskilaboð.
Enn sem komið er skilja gleraugun aðeins
ensku.