Morgunblaðið - 26.11.2011, Blaðsíða 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. NÓVEMBER 2011
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
„Markmiðið með kaupunum er að
efla rækjuveiðar og treysta undir-
stöður rækjuverksmiðju Kampa hér
á Ísafirði,“ segir Jón Guðbjartsson.
Hann er stjórnarformaður Kampa,
en fyrirtækið og útgerðarfélagið
Birnir hafa keypt frystitogarann
Borgina af Íslandsbanka. Skipið fær
nafnið Ísbjörn ÍS og er nú í slipp í
Reykjavík.
Ísbjörninn er væntanlegur vestur
fyrir jól og um miðjan janúar er
áætlað að reynslusigla skipinu og
prófa tæki og tól. Með hækkandi sól
er stefnan síðan tekin á rækjuveiðar
fyrir Norðurlandi og verður mögu-
legt að sjóða og frysta stærstu rækj-
una um borð fyrir dýrari markaði.
Minni rækjunni verður landað fros-
inni til vinnslu í verksmiðjunni á Ísa-
firði.
Í Reykjavíkurhöfn í þrjú ár
Ísbjörninn er 1.103 brúttótonn að
stærð með 2.300 hestafla aðalvél.
Frystigeta er um 40 tonn á sólahring
og það hefur 450 tonna burðargetu af
frosnum afurðum. Af þeim skipum
sem verið hafa á úthafsrækju er að-
eins frystitogarinn Brimnes stærra.
Gert er ráð fyrir að tólf manns
verði í áhöfn Ísbjarnarins í hverri
veiðiferð þannig að væntanlega verð-
ur heildarfjöldi í áhöfn 20-25 manns.
Birnir ehf er stærsti hluthafinn í
Kampa ehf og gerir út tvö önnur tog-
skip, Gunnbjörn ÍS-302 og Valbjörn
ÍS-307. Skipin hafa verið gerð út á
rækju- og bolfiskveiðar.
Borgin hefur undanfarin ár verið
skráð í Litháen og er smíðuð í Nor-
egi árið 1984 fyrir grænlenska út-
gerðaraðila og fékk þá nafnið Vil-
helm Egede. Togarinn var síðan
seldur til Íslands og hét þá Gissur
ÁR og Hersir ÁR. Síðar var skipinu
flaggað út undir litháískum fána og
fékk þá nafnið Borgin. Undanfarin
þrjú ár hefur skipið legið í höfn í
Reykjavík eftir að fyrrverandi út-
gerð komst í þrot og var það komið í
eigu Íslandsbanka, að því er fram
kemur á heimasíðu Kampa.
Jón segir að með nýja skipinu
verði hægt að auka verðmæti afurða
og með frystingu um borð verði
minni frátafir frá veiðum. Þá sparist
mikill eldsneytiskostnaður því ekki
þurfi að landa eins oft og áður. Að
auki geti skipið sinnt öðum veiðum
eins og t.d. á makríl.
Allt sett upp á rönd
Kampi og Birnir voru með aðgang
að um 15% kvótans í úthafsrækju
þegar sjávarútvegsráðherra gaf
þessar veiðar frjálsar á síðasta fisk-
veiðiári „Þetta var allt sett upp á
rönd þegar veiðarnar voru gefnar
frjálsar og skipin hanga ekkert yfir
þessu lengur ef lítið veiðist,“ segir
Jón.
Aðspurður um inn-
fjarðarækjuna í Ísa-
fjarðardjúpi segir
hann að mikið hafi
veiðst og kvóti bátanna
sé langt kominn. Hins
vegar hafi rækjan farið
minnkandi og varar Jón við
því að afli næstu ára verði veidd-
ur sem smárækja í vetur.
Sjóða og frysta í Ísbirninum
Frystitogarinn Borgin seld til Ísafjarðar Markmiðið að efla rækjuveiðar og treysta undirstöður
Kampa Verðmæti aukin og frátafir verða minni Möguleikar á öðrum veiðiskap eins og á makríl
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nýtt hlutverk Frystitogarinn Ísbjörn, áður Borgin, er nú kominn í slipp í Reykjavík þar sem talsverðar endurbætur
og breytingar verða gerðar á skipinu. Ísbjörn er væntanlegur til Ísafjarðar skömmu fyrir jól.
„Eftir ágæt aflabrögð úti fyrir
Norðurlandi framan af sumri
kom marglytta inn á svæðið og
engin rækja hefur síðustu
mánuði fengist á miðunum
norður af Horni og austur að
Kolbeinsey. Rækjutogararnir
könnuðu nýlega hvort breyting
hefði orðið á og togarinn okkar
kom inn á mánudag með um
sex tonn eftir fimm daga, sem
er ekki neitt. Það var hvergi
neitt að hafa,“ segir Jón Guð-
bjartsson, sem vill meiri rann-
sóknir á lífríkinu í sjónum.
Hann segir að miklar breyt-
ingar hafi orðið á lífríkinu í
sjónum á síðustu árum. Hann
nefnir í því sambandi að stein-
bítur gangi miklu norðar en
áður og hrygni fyrr. Skötusel-
urinn sé sömuleiðis að
auka sitt útbreiðslu-
svæði og færa sig norð-
ur með landinu.
Loks nefnir Jón að
þörungablómi gjósi upp
fyrir Norðurlandi á allt
öðrum tímum á sumrin
en áður fyrr.
Vill meiri
rannsóknir
MARGLYTTA Á RÆKJUSLÓÐ
BAKSVIÐ
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Fólk sem tapaði stofnfé sínu að
verulegu eða öllu leyti við fall spari-
sjóðanna grandskoðar nú dóm
Hæstaréttar í máli stofnfjárhafa
Byrs sparisjóðs. Sumir þeirra telja
sig hafa svo líka lánasamninga að
ástæða sé til að gera sér vonir um
að skuldir sem stofnað var til vegna
stofnfjárkaupa verði felldar niður.
Skaðabótamál eru einnig í undir-
búningi.
Sparisjóðirnir sóttu sér rúmlega
40 milljarða króna til stofnfjáreig-
enda á árunum 2006 og 2007. Það
var oft gert í tengslum við samein-
ingar sparisjóða.
Hluti aukningarinnar kom frá
einstaklingum sem vildu styðja sinn
sparisjóð og halda öflugri fjármála-
þjónustu og atvinnu í heimabyggð.
Mikið var um að viðkomandi spari-
sjóðir lánuðu fyrir aukningunni eða
útveguðu lán hjá öðrum bönkum
fyrir henni. Í öðrum tilvikum notaði
fólk sparifé sitt til að kaupa stofnfé
eða útvegaði sér sjálft lán.
Eignin er í flestum tilvikum glöt-
uð með yfirtöku ríkisins eða banka
á hinum föllnu sparisjóðum en lánin
standa eftir.
Samtök stofnfjáreigenda á
nokkrum stöðum hafa haldið uppi
vörnum fyrir félagsmenn sína
vegna innheimtuaðgerða lánveit-
enda. Niðurstaða í fyrsta málinu er
komin. Þar sluppu um 400 einstak-
lingar og 20 fyrirtæki sem aukið
höfðu stofnfé sitt í Sparisjóði Norð-
lendinga vegna sameiningar við Byr
sparisjóð við að endurgreiða lánin.
Mikil stofnfjáraukning var einnig
hjá Sparisjóðnum í Keflavík, Spari-
sjóði Húnaþings og Stranda og
Sparisjóði Vestfirðinga í tengslum
við sameiningu undir merkjum
SpKef.
Sliga mörg heimili
Þórunn Einarsdóttir, formaður
samtaka sparifjáreigenda í Spari-
sjóðnum í Keflavík, segir að margt
virðist líkt með máli Byrs og lánum
sem Sparisjóðurinn sjálfur og
Landsbankinn veittu fólki til að
auka stofnfé. Lánin hafi verið veitt
gegn handveði. Hún vill þó ekki
fullyrða að málin séu algerlega
sambærileg. Farið verði yfir þau
með lögfræðingi samtakanna.
Fram hefur komið að skuldir sem
íbúar í Húnaþingi vestra og Bæj-
arhreppi tóku á sig vegna aukning-
ar á stofnfé í sparisjóðnum myndu
sliga mörg heimili, ef þær yrðu inn-
heimtar. Stofnfjárhafnir nyrðra
voru upphaflega um 200. Einhverjir
staðgreiddu eða hafa gert upp sín
lán en mörg heimili sitja uppi í tug-
milljóna króna skuldir. Ekki var
óalgengt að einstaklingar keyptu
fyrir 20 milljónir. Lánin voru að
hluta til gengistryggð og voru kom-
in yfir 40 milljónir en voru aftur
komin niður í um 30 milljónir eftir
skilmálabreytingar í kjölfar dóms
Hæstaréttar um gengistryggð lán.
Mörg heimili keyptu tvo skammta
og skuldsettu jafnvel börnin líka,
þannig að dæmi eru um heimili sem
skulda á annað hundrað milljónir
vegna þessa ævintýris.
Eftir að Landsbankinn yfirtók
SpKef eru allar skuldirnar þar.
Bankinn hefur ekki gengið hart í
innheimtuna, á meðan samningavið-
ræður hafa verið um lausn á málinu.
Reimar Marteinsson, talsmaður
stofnfjáreigenda, segist ekki geta
fullyrt að dómur Hæstaréttar í
Byrs-málunum sé fordæmisgefandi
fyrir mál Húnvetninga en vonast til
að hann gefi vísbendingar um nið-
urstöðuna. Andmæli þeirra eru
meðal annars byggð á því að það
hafi ekki hafi staðist, sem kaupend-
um var sagt, að fjárfestingin væru
áhættulaus. Sömuleiðis fullyrðingar
um að fólk gæti hvenær sem er selt
bréfin þar sem sparisjóðurinn væri
skyldugur að kaupa þau til baka.
„Verða að bera ábyrgð“
Ekki hefur tekist að leysa deilur
sparifjáreigenda í sjóðunum sem
mynduðu SpKef og Landsbankans
og segir Þórunn Einarsdóttir að
málið fari fyrir dómstóla ef bankinn
hafi ekki vit á að draga það til baka,
í ljósi dóms Hæstaréttar. Sparifjár-
eigendur af Suðurnesjum, Húna-
þingi vestra og Vestfjörðum og
Landsbankinn hafa í sameiningu
valið fjóra til fimm einstaklinga sem
verður stefnt í prófmáli, ef Lands-
bankinn heldur áfram með málið.
Þessi mál snúast eingöngu um
lánin. Þau eru aðeins hluti af tapinu
því sparifjáreigendur hafa tapað
megninu af þeim fjármunum sem
þeir hafa greitt fyrir stofnfé. Sam-
tök sparifjáreigenda á Suðurnesj-
um eru að undirbúa skaðabótamál á
hendur stjórn og stjórnendum
Sparisjóðsins í Keflavík. „Við telj-
um að varan sem við vorum látin
kaupa hafi verið gölluð og það þurfi
að endurgreiða hana eða láta okkur
fá aðra vöru,“ segir Þórunn og vísar
til upplýsinga um að ársreikningar
hafi ekki verið réttir. Þrotabú spari-
sjóðsins á engar eignir en Þórunn
segir að haldið verði áfram með
málið. „Komið hefur í ljós að spari-
sjóðurinn var skelfilega illa rekinn
og þessir menn verða að bera
ábyrgð.“
Gera sér vonir um niðurfellingu
Samtök stofnfjáreigenda margra sparisjóða meta forsendur dóms Hæstaréttar í Byrsmálinu
Málin eru mörg og mismunandi Þeir sem staðgreiddu eygja litla von Skaðabótamál undirbúin
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Fé Fjárhagsáhyggjur hafa hrjáð mörg heimili í Húnaþingi frá hruni.
„Það var sama matreiðslan á þessu hjá okkur og Sparisjóði Norðlendinga,“
segir Jóhann Ólafsson sem fer fyrir hópi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarf-
dælinga. Hann tekur fram að lögfræðingur samtakanna sé að fara yfir málin
í kjölfar dóms Hæstaréttar. Sjálfur telur hann forsendur lántökunnar hafa
brostið, á sama hátt og hjá Byr.
Stofnfjáreigendurnir fengu lán hjá systurfélagi Saga Kapital, félagi sem
Seðlabankinn hefur nú yfirtekið. Stofnfjárhöfum gafst kostur á að skrifa sig
fyrir 3,5 milljónum kr. en lánin hækkuðu verulega vegna gengisbreytigna á
árinu 2008. Lögmaður kannar grundvöll skaðabótakröfu á hendur stjórn-
endum sparisjóðsins, endurskoðendum og fleirum vegna málsins.
Stofnfjáreigendur fleiri sparisjóða fylgjast grannt með umræðunni, með-
al annars í Bolungarvík, Vestmannaeyjum og á Norðfirði.
„Ég samgleðst þeim fyrir norðan, þetta voru alvöru tölur hjá þeim,“ segir
Stefán Sigurjónsson, stofnfjáreigandi í Sparisjóði Vestmannaeyja. Hann tel-
ur málin þó ekki sambærileg þar sem stofnfjáreigendur í Eyjum hafi fjár-
magnað stofnfjárkaupin hver fyrir sig. „Við erum að borga og munum borga
út ævina. Ég er hættur að líta á þetta sem eign. Maður fær ekki einu sinni
koníak á fundum, aðeins malt og appelsín.“
Sama matreiðslan
STOFNFJÁREIGENDUR VÍÐA UM LAND Í SÖMU SPORUM