Morgunblaðið - 27.07.2013, Blaðsíða 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. JÚLÍ 2013
VIÐTAL
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Kaupmaður í verslun í litlum bæ úti
á landi þarf að sjá sínu fólki fyrir öll-
um nauðsynjum. Miðað við veltuna
og umfang rekstrarins hér er úrvalið
mikið. Í talningu um síðustu áramót
reiknaðist mér svo til að í matvör-
unni værum við með rösklega 4.800
vörunúmer og ríflega 1.500 í öðrum
vöruflokkum. Og þó búa hér á svæð-
inu ekki nema í kringum þúsund
manns, enda þótt ferðamanna-
straumur hér sé mikið að aukast,“
segir Haukur Már Sigurðsson,
kaupmaður í Fjölvali á Patreksfirði.
Verslun er grunnþjónusta
Í hverju byggðarlagi eru
ákveðnar stofnanir og fyrirtæki það
sem kalla mætti grunnstoðir. Þannig
þarf hið opinbera t.d. að starfrækja
skóla, velferðarþjónustu, gatnakerf-
ið og löggæslu. Skapa þarf aðstöðu
fyrir íþróttir, útiveru og dægradvöl
og svo mætti áfram telja. Það er svo
hlutverk einkaaðila að halda uppi at-
vinnu- og halda úti nauðsynlegum
póstum, eins og verslunarrekstri.
En hvað fæst í Fjölvali? Haukur
Már segir stefnuna að vera með all-
ar almennar nauðsynjar og nýlendu-
vörur og telur sig standa ágætlega
undir væntingum viðskiptavina að
því leyti.
„Ég hef þá stefnu að taka inn allar
þær vörur sem birgjar bjóða. En ég
áskil mér þá líka rétt að skila þeim
fljótt ef ekkert hreyfist,“ segir
Haukur Már sem stofnaði Fjölval
árið 2007. Hafði þá rekið söluskála
Olíufélagsins og N1 á Patreksfirði
um nokkurra ára skeið.
Samkeppni er ekki möguleiki
Tvær matvöruverslanir eru á Pat-
reksfirði; Fjölval og Albína. Þær
veita hvor annarri ákveðið aðhald,
en hin raunverulega samkeppni er
við lágvöruverðsverslanirnar. „Fólk
notar oft tækifærið sé það á ferðinni
og gerir innkaupin í Bónus; í Stykk-
ishólmi áður en farið er í Baldur. Og
þegar fjallvegir eru færir fer fólk
stundum norður á Ísafjörð og kaupir
nauðsynjarnar þar,“ segir Haukur
Már.
Athugun sem gerð var fyrir
nokkrum árum leiddi í ljós að fólk á
sunnanverðum Vestfjörðum gerir
um 75% sinna innkaupa á svæðinu,
en fjórðunginn í lágvöruverðsversl-
unum svo sem í Stykkishólmi hand-
an Breiðafjarðar.
„Kúnnarnir segja mér að þegar
þeir skoða kassastrimlana sé verð í
t.d. Bónus eða Krónunni um það bil
20% lægra en hér. Og það er ekki
nokkur möguleiki að keppa við þessi
fyrirtæki. Vissulega nýtur maður
ákveðinna afsláttarkjara, en þau eru
ekkert í líkingu við það sem þeir
stærstu á matvörumarkaðnum fá.
Svona er bara veruleikinn. Ég hef
aðeins getað bætt mér þetta með því
að fá Euroshopper-vörur hingað inn
og það er mjög til bóta, þannig verð-
ur verðmunurinn mun minni eða í
kringum 10%“ segir Haukur Már
sem fyrir margt löngu var útibú-
stjóri í verslun Kaupfélags Borgfirð-
inga á Hellissandi.
„Á Hellissandi þurfti allt að vera
til, matvara, áburður fyrir bænd-
urna, fatnaður og byggingavörur.
Bara nefndu það og af hálfu stjórn-
enda kaupfélagsins var metnaður
fyrir því að mæta óskum fólks um að
verslunin stæði undir félagslegum
skyldum að því leyti. Verslunin var
því kannski ekki alltaf rekin með
hagnaði, en aðrir þættir í starfsem-
inni vógu upp á móti,“ segir Haukur
Már sem leggur áherslu á sam-
félagslega skyldu kaupmannsins.
Brauðið kemur með flugi
„Úrvalið hér þarf að vera fjöl-
breytt og svo sérpantar maður vörur
fyrir viðskiptavinina óski þeir þess.
Sumar matvörurnar hafa geymslu-
þol, en aðrar fæ ég sendar daglega
að sunnan svo sem brauðin úr Myll-
unni og Gæðabakstri sem kemur
með flugi,“ segir Haukur Már sem
nú er að færa út kvíarnar í starfsemi
sinni. Hyggst auka við sérvöruúr-
valið í Fjölvali og opnaði nýverið
ferðamannaverslun í samstarfi við
Westfjords Adventure sem er nýtt
fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vest-
fjörðum. Sérvörudeildar vegna hef-
ur Haukur rýmt plássið í verslun
Fjölvals þar sem áfengisverslunin
var til skamms tíma. Á Patreksfirði
hefur nefnilega sá háttur verið hafð-
ur á til skamms tíma að áfengið var, í
sérstöku rými vel að merkja, selt í
matvöruversluninni. Nú er Vínbúðin
komin í næsta hús.
Þá yrði fyrst dýrt að drekka
Lengi hefur verið vinsælt umfjöll-
unarefni, m.a. í pólitíkinni hvort
einkaaðilar skuli alfarið taka við
áfengissölunni og ÁTVR hverfi af
markaðnum. „Nei, ég er alfarið á
móti því að einkamarkaðurinn fái
áfengssöluna,“ segir Haukur Már og
heldur áfram:
„Sjálfsagt lítur þetta vel af-
skaplega úti á blaði en afleitar afleið-
ingarnar kæmu líklega mjög fljótt í
ljós. Í dag selur ÁTVR áfengið með
11 til 18% álagningu sem er jöfn yfir
landið. Ef einkaaðilar tækju alfarið
við þessum viðskiptum yrði raunin
fljótt sú að stærri verslanir sem eru
umsvifamestar á höfuðborgarsvæð-
inu fengju rífleg afsláttarkjör.
Þeirra myndi landsbyggðarversl-
unin væntanlega ekki njóta í sama
mæli og svo kæmi flutningskostn-
aður inn í dæmið. Úti á landi myndi
þetta að leiða til sennilega 30 til 40%
hækkunar á áfengisverði og þá yrði
nú fyrst dýrt að drekka.“
Kaupmaðurinn hefur sínar skyldur
Nánast allt fæst í Fjölvali á Patreksfirði Fjórðungur innkaupa utan svæðisins Kveðst ekki
geta keppt við lágvöruverðsverslanir Sérpantað og sent að sunnan, segir Haukur Már Sigurðsson
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Patreksfjörður Verslun er ein af mikilvægustu stoðum byggðarlagsins og allt það nauðsynlegasta þarf að vera til, eins og fólkið í bænum gerir kröfu um.
Vöruverð Vissulega nýtur maður ákveðinna afsláttarkjara, en þau eru ekk-
ert í líkingu við það sem þeir stærstu fá, segir Haukur Már Sigurðsson.
Alfons Finnsson
Ólafsvík
Miklar endurbætur standa nú yfir við sundlaug
Ólafsvíkur. Kostnaður við framkvæmdina er
áætlaður um 165 milljónir króna.
Kristinn Jónasson, bæjarstóri Snæfells-
bæjar, segir í samtali við Morgunblaðið að fram-
kvæmdin sjálf felist í því að skipt verður um allan
búnað laugarinnar, hreinsikerfi og slíkt og allar
lagnir. Þá verður útbúin aðstaða utandyra þar
sem verða tveir heitir pottar og ein vaðlaug. Þá er
áformað að setja upp rennibrautir í framtíðinni.
Skipta þarf um jarðveg þar sem útiaðstaðan
verður og hófust þær framkvæmdir í vikunni.
Loks er þess að geta að stórt gat verður sag-
að á suðurhlið hússins. Þar mun koma gluggi sem
hleypa mun mikilli birtu inn í sundlaugina.
Sundlaug
Ólafsvíkinga
tekin í gegn
Morgunblaðið/Alfons
Framkvæmdir Kristinn bæjarstjóri ásamt verktökum og Ævari Sveinssyni, verkstjóra áhaldahúss Snæfellsbæjar.