Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.09.2013, Blaðsíða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 8.9. 2013
Menning
U
pp á veggi Ásmund-
arsalar í Listasafni
ASÍ eru komnar
flennistórar blýants-
teikningar á léreft
af húsflugu, lóu og þorski. „Þessi
dýr eru í umhverfinu,“ segir mynd-
listarkonan Sigrún Eldjárn og
finnst sjálfsagt að blása dýrin
svona upp, og kannski benda á ein-
kenni þeirra um leið. Sigrún hefur
tekið Listasafn ASÍ yfir og opnar í
dag, laugardag, klukkan 15, sýn-
ingu á báðum hæðum safnsins sem
hún kallar „Teiknivísindi – Sjö níu
þrettán“.
„Blýanturinn er yfir og allt um
kring á þessari sýningu. Það mætti
líta á sýninguna sem óð til blýants-
ins,“ segir Sigrún þar sem við
göngum um salina. Og það er
margt að sjá. Á efri hæðinni kynn-
ir hún til að mynda vísindagreinina
teiknivísindi, þar sem reynslusaga
listakonunnar úr æsku, um blý sem
eyra geymdi í nokkur ár, kemur
meðal annars við sögu. Sögur eru
vitaskuld áberandi í þessum mynd-
heimum, enda Sigrún bæði þekkt
fyrir myndlistina og bækurnar;
þær nálgast nú fimmta tuginn sem
hún hefur ýmist myndskreytt eða
myndskreytt og skrifað.
Í Ásmundarsalnum er röð stórra
blýantsteikninga sem sýna ólíka
hluti. Á einni má sjá skötu í for-
grunni og flugdreka flogið í
fjarska, önnur sýnir hendur í fugla-
fit, þarna eru flugfiskur og kría og
þá eru teikningar af gömlum ljós-
myndum. Um leið og frásagn-
arkenndum myndum sem þessum
er raðað upp reynir hugurinn að
lesa úr þeim sögur.
„Ég hugsa að það sé smá saga í
hverri mynd en þegar þeim er
stillt svona saman verður allt
mögulegt,“ segir Sigrún. „Ég
teiknaði meðal annars upp eftir
gömlum ljósmyndum sem komu frá
afa mínum og ömmu á Ísafirði. Ég
veit ekkert hvaða fólk þetta er.
Ég reyndi lengi að halda bóka-
gerðarmanninum og myndgerð-
armanninum aðskildum en er hætt
að standa í því. Enda er engin
ástæða til þess.“
Tvær myndanna, af músarrindli
og maríuerlu, lét Sigrún stækka
upp og setti utan á húsið sem hún
býr í við Fjölnisveg, sem hluta af
útisýningunni í Þingholtunum í
sumar. Sýningunni er lokið en
myndirnar prýða húsið enn.
Spennandi ævintýri
„Þetta er Didda,“ segir hún þar
sem við göngum að einu horni sal-
arins. Þar situr brúða í rauðri
peysu á stöpli og við hliðina er
flennistórt málverk af henni, í
mörgum hlutum. „Ég gerði þessa
mynd árið 2004 og hef sýnt hana
áður, en mér fannst hún samt eiga
skilið að vera hér, að fara svona út
í horn. Sigrún amma mín á Tjörn í
Svarfaðardal gaf mér þessa dúkku
þegar ég var lítil og hún hefur
fylgt mér gegnum lífið.“
Sigrún segir nokkurn mun á því
að vinna sjálfstæð myndverk, eins
og þessi, og myndir sem eru hugs-
aðar sérstaklega fyrir bækur. En
þegar gengið er niður stigann tek-
ur heimur sívinsællar bókagerð-
arkonunnar við. Undir gleri í borði
má sjá myndirnar úr fyrstu bók
Sigrúnar, Allt í plati frá árinu
1980, og í Arinstofunni má sjá
myndir úr nokkrum bókum hennar,
þar á meðal þeirri nýjustu, Stroku-
börnum á Skuggaskeri, sem kemur
út síðar í mánuðinum.
„Bókin gerist í þessum dal,“ seg-
ir hún og sýnir teikningu í eintaki
af bókinni sem hún hefur þegar
fengið í hendurnar. „Hér er á og
tveir bæir sitthvorumegin við hana.
Þarna lifir fólk í sátt og samlyndi
þar til grunur kviknar um að auð-
lind sé að finna í hólma í ánni. Þá
fer allt í bál og brand milli vina-
bæjanna og það verður óbærilegt
fyrir krakka í þeim báðum, sem
strjúka. Þá er ævintýrið komið af
stað …“
Er þetta upphafið að nýrri æv-
intýraseríu?
„Ég ákvað fyrirfram að vera
ekki með neinar yfirlýsingar um að
þetta yrði sería, þetta gæti verið
stök bók, en svo endaði hún óvart
þannig að að ég verð eiginlega að
halda áfram.“ Hún brosir afsak-
andi. „Þetta er spennandi ævintýri
en ég á alltaf erfitt með að útskýra
fyrir hvaða aldur bækurnar mínar
eru.“ Enda nýtur fólk á öllum aldri
lestrarins.
Skýjakljúfar blýantanna
Þegar gengið er niður í Gryfjuna
taka fyrst á móti gestinum teikn-
ingar á tréplötur sem kallast á við
verkin á efri hæðinni. Þarna eru
meðal annars spói, legókall, skata
og rauðmagi. Niðri í gryfjunni er
bein lína mismikið yddaðra blý-
antsstubba. „Já, þetta er fjall-
garður úr blýöntum – eins konar
„cityscape“,“ segir Sigrún. „Og hér
er ég búin að draga gullinsniðs-
formið á stóra vegginn og spíral in
í hann.“ Á spíralinn hefur hún síð-
an fest á fjórða tug litríkra dýra
sem hún hefur heklað. „Þetta er
innsetning, hekluð dýr í gullin-
sniðsformi. Það kom upp í höfuðið
á mér að gera þetta, án nokkurrar
útskýringar, og mig langaði að
prófa. Og hvers vegna ekki!“
„Ég hugsa að það sé smá saga í hverri
mynd,“ segir Sigrún Eldjárn um verk-
in á sýningunni. Bak við hana er mál-
verk af brúðunni Diddu en einnig lóa
og blýantsteikningar sem segja sögur.
Morgunblaðið/Einar Falur
SIGRÚN ELDJÁRN SÝNIR MYNDVERK Í ÖLLUM SÖLUM LISTASAFNS ASÍ
Blýanturinn yfir og allt um kring
„ÉG REYNDI LENGI AÐ HALDA BÓKAGERÐARMANNINUM OG MYNDGERÐARMANNINUM AÐSKILDUM EN ER HÆTT AÐ STANDA Í ÞVÍ,“ SEGIR SIGRÚN
ELDJÁRN. Á NÝRRI SÝNINGU HENNAR ER ÁHERSLA Á MYNDVERKIN EN VINSÆLAR BÆKURNAR OG SAGNAHEIMARNIR ERU ÞÓ NÆRRI.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
Í Gryfju Listasafns ASÍ sýnir Sigrún verk byggt á gullinsniði og á fjórða tug lit-
ríkra heklaðra dýra. Þessi eru innst í sveignum sem spinnst í verkinu.
Morgunblaðið/Einar Falur