Morgunblaðið - Sunnudagur - 06.10.2013, Side 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6.10. 2013
Menning
É
g var ráðin til að horfa gagn-
rýnum augum á þessa stofnun
og vega og meta bæði kosti
hennar og galla,“ segir Fríða
Björk Ingvarsdóttir sem tók við
rektorsstöðu Listaháskóla Íslands 1. ágúst
sl. Aðspurð segist hún hafa sótt um starfið
þar sem hún sá með því tækifæri til að
sameina öll áhugasvið sín. „Ég hef í gegn-
um tíðina verið viðriðin svið nánast allra
listgreina. Mér hefur líka alltaf fundist gam-
an að kljást við heildarmyndina. Síðast en
ekki síst finnst mér menningarpólitík skipta
gríðarlega miklu máli. Menningarpólitík er
sú umræða úr stjórnmálunum sem alltaf
stendur eftir. Hún felur í sér svo stórar
ákvarðanir sem móta samfélagsmyndina og
umhverfið sem við lifum í. Menntun og
menningarpólitík snýst um framtíðarhorfur
barnanna okkar, hvernig við förum að því
að þróast sem samfélag og hvernig við
sjáum okkur í samhengi við aðra. Allt eru
þetta stórar spurningar sem lúta að mann-
legri tilvist og því hvernig við upplifum okk-
ur sem einstaklinga í samfélaginu.“
Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart
í sambandi við LHÍ á þeim tíma sem þú
hefur þegar haft til að setja þig inn í nýja
starfið?
„Nei, í raun og veru ekki enda eru engar
beinagrindur í skápum hér. Það sem ég
undrast samt er hversu mikið hefur áorkast
og hvað hefur verið hægt að gera fyrir lítið
fé og með fáum manneskjum. Starfsfólk er
mjög einbeitt, fórnar gríðarlega miklu og er
tilbúið til þess að gefa allt sitt. Maður er öf-
undsverður af því að koma inn í þannig
stofnun. En þótt liðsheildin sé sterk og and-
inn góður þá er spurning hvernig fólki end-
ist þrek við þann aðbúnað sem hér þarf oft
að sætta sig við.“
Menntun er fyrirbyggjandi
Við lifum enn á niðurskurðartímum eftir
hrun. Ertu uggandi yfir framhaldinu?
„Já, ég held ég þurfi að vera það eins og
allir aðrir sem vinna á sviði æðri menntunar
á Íslandi í dag. Framlög til háskólastarfs
eru lág ef við berum okkur saman við um-
heiminn. Þau eru lág miðað við OECD-
löndin, og mjög lág miðað við Norðurlöndin.
Það er alveg ljóst að við eyðum miklu
minna til háskólastarfs en þeir sem við vilj-
um bera okkur saman við. Ég veit ekki
hversu lengi við komumst upp með það, því
hreyfanleikinn er orðinn svo mikill á milli
landa, bæði á fólki og fyrirtækjum. Við
þurfum hreinlega að óttast það að missa
okkar fólk úr landi ef við getum ekki boðið
upp á sömu gæði í menntun hér eins og
aðrar þjóðir. Þeim fjármunum sem varið er
til menntunar á háskólastigi er mjög vel
varið. Menntun er fyrirbyggjandi í öllum
skilningi og uppbyggjandi líka.“
Hver er framtíðarsýn þín fyrir LHÍ?
„Mín framtíðarsýn varðandi skólann lýtur
fyrst og fremst að uppbyggingu hug-
myndafræði og rannsókna á fræðasviðinu
listum. Þar liggur sérstaða LHÍ og hlut-
verk. Listræn sköpun miðar að því að fram-
kvæma hið óframkvæmanlega og kortleggja
það sem við ekki þekkjum. Framlag sköp-
unar til samfélagsins felst í því að vinna á
mörkum óvissunnar og vera í framlínu
nýrra uppgötvana og mótandi hugmynda-
fræðilegra hræringa.
Í LHÍ þarf því að móta starfsumhverfi
þar sem listgreinarnar vinna saman þvert á
allar greinar, jafnt utan skólans sem innan.
Húsnæðismálin hafa óneitanlega verið haml-
andi í því. Við þurfum líka að skapa farvegi
fyrir nánara samstarf við aðra skóla hér
innanlands á sviði menningar og mennta og
jafnframt við atvinnulífið, sem hefur auðvit-
að verið gert upp að ákveðnu marki. Það
sama á við um samstarf við stofnanir er-
lendis. Að mínu mati er þverfaglega nálg-
unin, sem í raun og veru er orðin grunnur
að aðferðarfræði 21. aldarinnar, mjög mik-
ilvæg. Það er því okkar að þróa ný viðmið í
rannsóknum á sviði lista, fræða og fagur-
fræði og hefja til vegs í samhengi við þróun
á öðrum sviðum.“
Skammtímalausnir eru dýrar
Þú nefnir húsnæðismál skólans. Hvaða lausn
sérðu í þeim efnum?
„Það er mjög brýnt að leysa húsnæð-
isvanda skólans sem hefur verið í limbói frá
því skólinn var stofnaður fyrir 15 árum.
Draumurinn hefur ávallt verið að allar
deildir verði sameinaðar undir einu þaki og
við gerum ekki ráð fyrir öðru en að hann
rætist í nálægri framtíð,“ segir Fríða Björk
og nefnir að að áskjósanlegt gæti verið að
byggja nýtt húsnæði LHÍ upp smám saman
eins og gert var með Háskólann á Akureyri
með góðum árangri. „Í millitíðinni þurfum
við að finna skammtímalausnir sem duga
lengur en misserið og eru þannig að þær
hamli ekki starfseminni,“ segir Fríða Björk
og bendir á að dýrt sé að reka LHÍ á
þremur stöðum eins og gert sé í dag. „Það
er dýrt að reka þrjú mötuneyti, þrjú bóka-
söfn og starfsfólk á þremur stöðum. Það
kostar að minnsta kosti 40 milljónir á ári.
Við sem rekum þennan skóla með fjár-
framlögum frá ríkinu þurfum að horfa til
þessara fjármuna ábyrgum augum. Við gæt-
um styrkt sjálfa menntunina mikið ef rekst-
urinn á þessum húsum væri ekki svona dýr.
Skammtímalausnir eru alltaf mjög fjárfrekar
og framtíðarlausnir hljóta að miða að því að
nýta betur þann infrastrúktur sem við sem
samfélag eigum. Það mætti vera meiri vilji
til að hugsa út fyrir kassann. Það er t.d.
heilmikið af ónotuðu rými í Hörpu sem LHÍ
gæti nýtt, en þá þarf að myndast sam-
félagsleg samstaða um það að LHÍ hafi efni
á því að nýta sér þetta rými, því hann getur
náttúrulega ekki keppt um húsnæði í Hörpu
á háu markaðsverði. En er ekki skárra að
stofnun eins og LHÍ nýti það rými en að
það standi autt?“
Nokkrar staðsetningar hafa verið nefndar
í sambandi við framtíðarhúsnæði LHÍ. Hef-
ur þú skoðun á því hvar væri vænlegast að
byggja skólann til framtíðar?
„Í raun er búið að þrengja möguleikana
niður í tvo, þannig að valið stendur nú á
milli Laugarness og Sölvhólsgötu,“ segir
Fríða Björk og bendir á að nefnd á vegum
mennta- og menningarmálaráðherra, sem
skipuð er fulltrúa frá ráðuneytinu, Reykja-
víkurborg og LHÍ, vinni nú að því að kanna
hvor möguleikinn sé hagstæðari fyrir skól-
ann og ríki og borg, en nefndin átti að skila
niðurstöðu nú um mánaðamótin.
„Ég mun taka niðurstöðuna mjög alvar-
lega. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að það
verði allt reiknað inn í þessa jöfnu, s.s.
kostnaður við lóðirnar, breytingar á deili-
skipulagi, áhrif nærumhverfis og aðgengi að
þjónustu auk samlegðaráhrifa við aðrar
menningarstofnanir. Skóli á borð við LHÍ
hefur auðvitað mikið vægi í borgarlandslag-
inu og færir heilmikið með sér. Við ættum
líka að hugsa til þess í hvaða infrastrúktúr
borgarbúar eru þegar búnir að fjárfesta og
hvernig við nýtum hann með sem bestum
hætti, hvernig við þéttum þetta net sem við
eigum og hvernig skólinn passar inn í það
til framtíðar.“
Eins og þú nefndir eru aðeins 15 ár síðan
LHÍ var stofnaður. Telur þú að þær fæð-
ingarhríðir sem felast í því að breyta hand-
verksskóla í háskólastofnun séu að baki?
„Nei, þær eru ekki að baki og það er
vegna þess að starfið þarf að vera í sífelldri
endursköpun. Um leið og maður heldur að
fæðingarhríðirnar séu búnar þá fer svona
skóli að staðna. Hann þarf stöðugt að vinna
á mörkum óvissunnar, því listræn sköpun og
rannsókn er kortlagning á uppgötvunum og
möguleikum mannlegrar tilvistar. Listin get-
ur spurt spurninga sem öðrum dettur
kannski ekki í hug að spyrja, m.a. á sviði
vísinda,“ segir Fríða Björk og bendir á að
ýmsar merkilegar uppgötvanir hafa orðið
þegar listamenn vinna í nánu samstarfi við
t.d. skammtafræðinga og aðra raunvís-
indamenn, sem og tölvunarfræðinga og
hönnuði.
„Ég trúi því að ef 20. öldin var öld tækn-
innar, sem hún svo sannarlega var, þá muni
21. öldin verða öld hinnar skapandi hugs-
unar og í þeim skilningi öld listanna. Ég
held að samfélag mannanna þurfi á því að
halda t.d. bara til að komast út úr þeim
umhverfislegu ógöngum sem við erum í. Ef
við ætlum að hafa lífvænlegt fyrir börnin
okkar og barnabörn þurfum við á þessari
skapandi hugsun að halda sem grundvall-
arþætti í öllum vinnubrögðum í samfélag-
inu.“
„Það er mjög brýnt að leysa húsnæðisvanda skólans sem hefur verið í limbói frá því skólinn var stofnaður,“ segir Fríða Björk Ingvarsdóttir.
Morgunblaðið/Kristinn
NÝR REKTOR LISTAHÁSKÓLA ÍSLANDS HORFIR GAGNRÝNUM AUGUM Á HLUTINA
Vill kljást við heildarmyndina
LISTRÆN SKÖPUN MIÐAR AÐ
ÞVÍ AÐ FRAMKVÆMA HIÐ
ÓFRAMKVÆMANLEGA OG
KORTLEGGJA HIÐ ÓÞEKKTA.
SÖKUM ÞESSA GEGNIR HÚN,
AÐ MATI NÝS HÁSKÓLAREKTORS,
LYKILHLUTVERKI Í SAMFÉLAGINU.
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is
* Ég trúi því að ef 20. öldin var öld tækninnar,sem hún svo sannarlega var, þá muni 21. öldin vera öld hinna skapandi hugsunar
og í þeim skilningi öld listanna.