Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.11.2014, Blaðsíða 54
54 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23.11. 2014
Menning
T
ilkynnt hefur verið að Víkingur
Heiðar Ólafsson píanóleikari sé
kominn á mála hjá hinni kunnu
umboðsskrifstofu Harrison Par-
rott. Meðal skjólstæðinga skrif-
stofunnar eru margar skærustu stjörnur
klassíska tónlistarheimsins og sér skrifstofan
um bókanir og fer með réttindamál lista-
mannanna. Meðal tuttugu píanóleikara sem
eru þar á mála ásamt Víkingi má nefna
Maurizio Pollini, Krystian Zimerman, Steph-
en Hough, Angelu Hewitt og Vladimir
Ashkenazy, en hann sveiflar einnig tónsprot-
anum eins og stjórnendur á borð við sir Ne-
ville Marriner, Neeme Jarvi og Osmo
Vänskä. Klarinettustjarnan Martin Fröst og
fiðluleikararnir Janine Jansen og Pekka Ku-
usisto eru á listanum, eins og sellóleikarinn
Truls Mørk, og söngvararnir Anne Sofie von
Otter, Andreas Scholl og Susan Bullock, sem
og tugir annarra listamanna sem troða upp í
helstu tónleikahöllum jarðar.
„Þetta breytir ansi miklu fyrir mig,“ segir
Víkingur Heiðar kátur þegar hringt er í
hann til Berlínar, þar sem hann er búsettur,
og spurt út í samninginn við Harrison Par-
rott-skrifstofuna.
„Þetta eru einhverjar skemmtilegustu
fréttir sem ég hef fengið á mínum ferli –
þótt ég líti nú alltaf svo á að ég sé að hefja
ferilinn. Ég hef verið að því í mörg ár,“ segir
hann og hlær.
„Eftir athyglisverðar samningaviðræður
og leynifundi áttaði ég mig á því að ég hafði
í raun stefnt að því í mjög langan tíma að fá
að vinna með einmitt þessari skrifstofu. Ég
var að tala við vinkonu mína frá skóla-
árunum í New York og treysti henni fyrir
fréttunum, sem áttu þá enn að vera leynd-
armál, en hún hló og sagði að þetta hefði ég
alltaf ætlað mér. Ég var búinn að gleyma því
en hún sagði að fyrir tíu árum hefði ég talað
um að ég ætlaði mér að vinna með Harrison
Parrot.“
Víkingur Heiðar segir afar gott orð fara af
umboðsskrifstofunni, enda sé hún með úr-
valslistamenn á sínum snærum.
„Ég finn til sterkrar tengingar við marga
listamennina sem eru þar. Ég hef unnið með
sumum þeirra, eins og Martin Fröst og fiðlu-
leikaranum Sayaka Shoji sem kom fram á
hátíðinni minni, Reykjavík Midsummer Mu-
sic, í sumar. Þetta fólk talar sama tungumál
og ég. Svo finnst mér gaman að vera á sama
blaði og Ashkenazy, Pollini og aðrir slíkir,
það er mikill heiður. Það fyllir mig auðmýkt.
En þótt það sé langþráður áfangi að vera
boðið að starfa með Harrison Parrott á ég
auðvitað enn eftir að sanna mig þar.“
Listin í forgrunni
Víkingur Heiðar er á lista umboðsskrifstof-
unnar sem einleikari en hann segir að eins
og klassíski tónleikaheimurinn sé að þróast
rækti tónleikahaldarar sífellt betur tengslin
við tónlistarmenn sem snúa aftur og aftur á
sama staðinn; þannig kunni hann að leika
með hljómsveit í einhverjum tónleikasal eitt
árið en árið eftir koma aftur til að leika
kammertónlist eða sóló.
„Ég skilgreini mig alls ekki bara sem ein-
leikara en fókusinn er þó á einleik,“ segir
hann. „Þegar ég kom til fundar við yfirmenn
Harrison Parrott ræddum við saman í tvo
tíma, um listræna sýn og allt sem er áhuga-
vert, fallegt og skemmtilegt. Það kom mér
þægilega á óvart að finna að listin er í for-
grunni og gengið út frá henni en ekki hörð-
um bissness. Stofnandi umboðsskrifstof-
unnar, Jasper Parrott, verður sjálfur með
mín mál ásamt Tugce Tez, ungri og eldklárri
konu sem er reyndar mjög góður píanóleik-
ari sjálf, útskrifuð úr Parísarkonservatoríinu.
Ég get sem sagt ekki kvartað.“
– Þýðir þessi breyting á þínu vinnu-
umhverfi ekki að pressan eykst á þér?
„Að sjálfsögðu. Það er erfiðast í upphafi
þegar maður þarf að gera allt í fyrsta sinn,
alltaf vera að læra ný verk, debútera, en ég
þrífst ágætlega undir pressu. Mér finnst oft
skemmtilegast að vinna við þær aðstæður.
Nær alla konserta sem ég hef til dæmis spil-
að með Sinfóníuhljómsveit Íslands hef ég
verið að leika í fyrsta sinn, en það eru oft
rafmögnuðustu tónleikarnir. En óvissan er
mikil í hvert sinn sem maður leikur verk í
fyrsta sinn.“
Heppni, úthald og kjarkur
– Þú hefur verið duglegur við það á undan-
förnum árum að læra nýja konserta og tak-
ast á við fjölbreytileg verkefni.
„Já, það hefur ekki alltaf verið auðvelt.
Árið 2008 ákvað ég að færa mig frá Banda-
ríkjunum, þar sem ég hafði lært við Juillli-
ard, og þær tengingar sem ég hafði á þeim
tíma voru einkum þar í landi. Ég vildi samt
vera í Evrópu, hér finnst mér tónlistarlífið
áhugaverðara, skemmtilegra – og frjórra.
Ég þurfti þá að byrja á núlli, þekkti engan
en hef verið svo lánsamur að fá allt frá
upphafi ferilsins að spila mikið heima á Ís-
landi. Það hefur verið ómetanlegt. Heima
hef ég getað gert mín mistök og lært af
þeim.
Svo fór boltinn að rúlla í kringum 2010,
2011, eftir að ég kynntist og kom fram með
Martin Fröst sem hefur reynst mér ein-
stakur vinur og samstarfsmaður. Hann bauð
mér að leika á hátíðunum sínum í Svíþjóð og
Noregi, sem aftur opnaði mér margar dyr.
En ég hafði ekki neinn umboðsmann fyrr en
seint á árinu 2013, þegar ég gekk til liðs við
Nordic Artists, skrifstofu sem ég hef nú sagt
skilið við. Þá var ég orðinn 29 ára. Og það
var ekki eins og ég hefði ekki áhuga á að
starfa með umboðsmanni! Ég lærði mjög
mikið af því að þurfa að gera allt sjálfur,
þurfa að skapa eigin verkefni og fram-
kvæma. Mér fannst á tímabili að sama hvað
ég ynni mikið og gerði margt, þá virtist ekk-
ert gerast í umboðsmálum. Ég held að í
fáum atvinnugreinum sé jafnsláandi ójafn-
vægi á framboði og eftirspurn og í klassíska
tónlistarheiminum; það er með ólíkindum
hve mikið af andans fólki og stórkostlegu
tónlistarfólki fær aldrei sviðið sem list þeirra
verðskuldar. Eftir því sem ég fer víðar finnst
mér ég hitta fleiri og fleiri virkilega áhuga-
verða listamenn sem þó eru nær algjörlega
óþekktir. Og auðvitað er þetta spurning um
heppni, en líka úthald og kjark. Alfred Bren-
del, sem varð ekki almennilega þekktur fyrr
en á fimmtugsaldri, sagði mér að það hefði
tekið sig 15 ár að verða stjarna á einu
kvöldi. Skemmtilega þversagnakennt en
satt.“
Langskemmtilegasti veturinn
– En þú hefur fengið mörg verkefni síðustu
ár, eins og þú segir, og hefur ferðast mikið
undanfarið?
„Já, þetta hefur verið annasamur vetur.
Og langskemmtilegasti veturinn minn til
þessa. Verkefnin hafa hingað til mest borist
mér vegna afspurnar, ég hef ekki verið
kynntur af skrifstofu eins og nú mun verða
gert, en ég hef verið að leika talsvert í
smærri borgum Norðurlanda og það hefur
verið góður andi í því. Í vetur hef ég svo
verið á þeytingi og verð það áfram. Ég er
að koma úr tveggja vikna stífum en
skemmtilegum túr um Kanada. Upphaflega
fékk ég boð um að spila píanókonsert
Griegs með Winnipeg-hljómsveitinni á nor-
rænni hátíð en svo bætti ég við það fimm
einleikstónleikum í borgum frá vestur-
ströndinni til austurstrandarinnar, í Winni-
peg, Toronto, Ottawa, Calgary og Vancou-
ver. Ég spilaði Goldberg-tilbrigðin eftir
Bach, sem hljómar kannski eins og kjánaleg
hugmynd í Goldberg-landi.“
Þar vísar Víkingur hlæjandi í að Glenn
Gould, einn þekktasti flytjandi þessa dáða
tónverks, var Kanadamaður.
„Það vakti greinilega athygli að ég dirfðist
að takast á við þetta verk, og það var stór-
skemmtilegt. Ég spilaði líka íslensk tónverk
fyrir tilbrigðin, svona til að gera mér lífið
ómögulegt; tilbrigðin eru um 70 mínútur og
heilir tónleikar í sjálfu sér en ég var líka
með 25 mínútur af nýrri og eldri íslenskri
tónlist, því ég vildi leyfa fólki að heyra eitt-
hvað sem það þekkti ekki. Þetta var stíft
ferðalag, tónleikar nær hvern dag og á milli
masterklassar og fyrirlestrar. Áður en ég fór
í þessa ferð lærði ég og lék í fyrsta skipti
konserta eftir Schumann og Beethoven.
Þetta mætti ekki vera þéttara.
Á mánudaginn lék ég svo prógramm með
„fuglamúsík“ eftir Messiaen í Mílanó. Það er
abstrakt músík, alveg geggjuð, ólík öllu sem
ég hef leikið en hræðileg að læra. Þetta er
allt í átta nótu hljómum með átta hækkunar-
eða lækkunarmerkjum! Það voru síðustu
stóru tónleikarnir mínir á árinu.“
„Þetta breytir
ansi miklu“
„ÞETTA ERU EINHVERJAR SKEMMTILEGUSTU FRÉTTIR SEM ÉG HEF FENGIÐ
Á MÍNUM FERLI,“ SEGIR VÍKINGUR HEIÐAR ÓLAFSSON UM SAMNINGINN
SEM HANN HEFUR GERT VIÐ EINA HELSTU UMBOÐSSKRIFSTOFU KLASS-
ÍSKA TÓNLISTARHEIMSINS. HANN ER ÞAR MEÐ LISTAMÖNNUM Á BORÐ
VIÐ VLADIMIR ASHKENAZY, MAURIZIO POLLINI OG SIR NEVILLE MARRINER.
VÍKINGUR HEFUR MIKLAR ÁHYGGJUR AF VERKFALLI TÓNLISTARKENNARA.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
„Ég hef áhyggjur af því að tónlistarnám sé í auknum mæli að
verða nám fyrir börn ríkra, að börn úr efnaminni fjölskyldum
eigi ekki kost á að stunda tónlistarnám,“ segir Víkingur Heiðar.
Hann er hér í menningarhúsinu Skúrnum, við hlið Hörpu, þar
sem boðið var upp á tónleika meðan á tónlistarhátíð hans,
Reykjavík Midsummer Music, stóð síðasta sumar.