Hrund - 01.04.1967, Qupperneq 27
Vigdís Jónsdóttir,
skólastjóri,skrifar
fyrir HRUND
Borðhaldið
og börnin
Góð og fullgild næring er mikilvæg, um það
efast fáir. Því ætti hagViýt þekking um
þau efni að vera ávinningur. Eg segi hagnýt
þekking og á þar við, að almenningur hafi
skilyrði til að nota þekkinguna sér til gagns,
án þess að hún valdi ruglingi og misskilningi
og auki e.t.v. vandann í stað þess að leysa
hann. Þekking getur leitt afvega, ef hún er
rangtúlkuð eða misnotuð.
¥
Fyrstu kynni sumra barna af kenningum
næringarefnafræðinnar eru tengd þvingun
og nauðung. Móðirin reynir að troða ofan
í barnið einhverju, sem því er þvert um geð
að borða, vegna þess að hún hefur lesið
eða heyrt að sú fæða, sem um er að ræða,
sé hverju barni nauðsynleg. Það er að
líkindum rétt, en aðferðin er röng. Hún er
röng í grundvallaratriðum, vegna þess að
hún truflar þá starfsemi líffæranna, sem góð
melting og nýting fæðunnar byggist á.
¥
Oft getur mikill spenningur og tilfinningahiti
sprottið af litlu tilefni við borðhaldið. Er
það skiljanlegt, því sterkar tilfinningar eru
frá upphafi bundnar hinni mikilvægu athöfn
að nærast.
Það þarf drjúga fyrirhyggju og þekkingu
til þess að setja saman fullkomið fæði. Er
sizt að furða þótt húsfreyju þyki það lýsa
fáfræði og vanþakklæti, ef heimilisfólkið
vanmetur framlag hennar í því efni með því
að taka máltíðunum með leiða og áhuga-
leysi. Sumir virðast jafnvel setja metnað sinn
í að látast ekki taka eftir því hvað þeir borða
og halda að það sé fínt. Það á að tákna, að
hugur þeirra sé svo mjög bundinn við
mikilvægari málefni, að það skipti þá litlu
hvað þeir láta ofan í sig; lesa þá jafnvel í
bók, tala í síma, eða nota þessa samveru-
stund fjölskyldunnar til þess að siða þá
sem mest þurfa þess með í það og það
skiptið. Allir kannast við myndina af mannin-
um með dagblaðið eins og múrvegg milli sín
og hinna.
Þessi dæmi eru vonandi aðeins undan-
tekningar og væntanlega einnig að hús-
móðirin reyni að þvinga börn og full-
orðna til þess að borða meira en þá langar í.
Hver sá, sem einhvern tíma hefir reynt
hvernig það er að verða að halda áfram að
borða eftir að lystin er með öllu þrotin,
getur sett sig í spor barns, sem mat er
troðið í gegn vilja þess. Þó er aðstaða
barnsins erfiðari, þar sem viðhorf þess
mótast eingöngu af tilfinningaviðbrögðum,
en fullorðinn maður getur rökstutt eða
réttlætt atferli sitt með ótal ástæðum, sem
hann telur skynsamlegar. Oft verður út-
koman sú, sem betur fer liggur mér við að
segja, að barnið gengur með sigur af hólmi,
hvolfir diskinum, hellir úr bollanum eða
skyrpir út úr sér. En þrátt fyrir það er skaðinn
skeður, — máltíðin hefir tengzt ógeðfeldum
og óttahlöðnum tilfinningum í vitund barns-
ins og líkur eru til þess að þær ýfist upp í
hvert skipti, sem matar er neytt. Þessar
tilfinningar geta orðið varanlegar, ef stöðugt
er haldið áfram á sömu braut, matnum ýtt að
fólki með áskorunum um að borða meira,
skilyrðislausum kröfum um að Ijúka skömmt-
um, sem e.t.v. eru allt of stórir og stöðugu
tali um hollustu og næringargildi meðan á
máltíð stendur. Oft leiðir þessi ofbeldis-
kennda umhyggja til þess, að allri ánægju
borðhaldsins er spillt svo rækilega, að
máltíðirnar hætta að vera tilhlökkunarefni, en
fylla í þess stað flokk þeirra leiðu skylduat-
hafna, sem við innum af hendi til þess
eingöngu að halda lífi og heilsu, hliðstætt
því að taka inn meðul eða fara til tannlæknis.
Trúlega er þessi ofrausn afleiðing þess, hve
skammt er siðan þjóðin bjó við skort.
Einnig er mörgum ekki Ijóst hve fæðuþörfin
er misjöfn og breytileg, einkum meðal
barna og það jafnvel þótt allt sé eðlilegt,
en ekki hvað sízt, ef þau verða fyrir einhverju
tilfinningaróti.
V
Lystarleysi er ekki hægt að bæta með því
að þvinga fólk til að borða. Ef það er
afleiðing sjúkdóma er það auðvitað hlutverk
lækna að finna orsökina og ráða bót á því
meini, svo sem efni standa til. En lystarleysi
getur verið hugarburður þegar fæðuþörfin
er ofmetin og algengt er að það standi í
sambandi við tilfinningaárekstra tengda
máltíðum. Þegar svo stendur á, eru börn
gjarnan lystarlaus heima hjá sér, en borða
af áhuga og með ánægju komist þau í annað
umhverfi.
¥
Hvers vegna er mikilvægt að menn geti
neytt matar með ánægju og í friði?
Það er á flestra valdi að velja hollar fæðu-
tegundir eftir því sem efni og vöruval leyfir,
hægt er að matbúa þær eftir kunnáttu og
smekk. Það má framreiða matinn með
umhyggju og virðingu fyrir þeim, sem við
borðið sitja, en úr því eru áhrif húsfreyjunnar
á rás viðburðanna aðeins óbein og þá
reynir mjög á stjórnkænsku hennar eða
þeirra, sem fyrir borðsendum sitja. Gera má
ráð fyrir, að menn setjist undir borð með
eftirvæntingu. Hugur þeirra og líkami er við
því búinn að njóta matar. Sjálfvirka tauga-
kerfið setur í gang alla þá margbrotnu og
samstilltu starfsemi kirtla og vöðva, sem
meltingunni stjórnar, en jafnframt slaknar
á annars staðar, þar sem ekki er þörf á að
nota orku í bili, aflvöðvar hvílast og gert er
hlé á glímu hugans við örðug viðfangsefni.
Þótt starf meltingarfæranna sé ekki háð
viljanum er okkur í sjálfsvald sett að ráða
fjölmörgum atriðum, sem'þar hafa afdrifarík
áhrif til ills eða góðs. Svo að segja allar
ákafar geðshræringar trufla starf meltingar-
færanna, gleði og hryggð, ótti og reiði
verða þess tíðum valdandi, að matarlyst
hverfur og jafnframt bregzt starf meltingar-
kirtlanna, maturinn þornar í munninum, svo
að ógerlegt verður að kingja honum. Af
öllum stundum dagsins er því matmáls-
tíminn verst valinn að heyja kappræður um
viðkvæm efni, útkljá deilumál eða setja
ofaní við börnin. Ekki eru það einungis
stóru geðshræringarnar, sem forðast ber
um matmálstímann, — þá þarf að gera hlé
á erli og annríki og friða heimilið svo sem
verða má fyrir símhringingum og öðrum
utanaðkomandi truflunum. Sá ósiður að
hringja menn upp á matmálstímum ætti
með öllu að leggjast niður, enda má búast
við að sú fyrirgreiðsla, sem veitt er á meðan
maturinn kólnar á diskinum, verði naumast
eins góð og sú, sem veitt er í vinnutíma.
Oft er nauðsynlegt að gefa þeim börnum,
sem ekki hafa aldur og þroska til að sitja
til borðs, mat þeirra áður en máltíð hinna
fullorðnu hefst. Ekki má krefjast þess að
börn sitji jafn lengi yfir mat og þeir full-
orðnu, sem eru þá e.t.v. að drekka kaffi og
reykja.
Menn eru yfirleitt vanafastir og íhaldssamir
í matarsmekk og venjum. Á það jafnt við
um börn og fullorðna, snöggar breytingar
og röskun á venjum er sjaldan heppileg.
Frh. á bls. 32.
27