Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.03.2007, Page 32

Læknablaðið - 15.03.2007, Page 32
YFIRLITSGREIN / NÝRNASJÚKDÓMAR takmarkar notkun beggja jafna er skortur á al- þjóðlegri stöðlun kreatínínmælinga. Rannsóknir eru í gangi á gildi MDRD-jöfnunnar hjá öðrum kynþáttum en hvítum og svörtum, öldruðum einstaklingum, einstaklingum með mismunandi tegundir nýrnasjúkdóma og hjá heilbrigðum ein- staklingum. Aðrar jöfnur hafa verið notaðar til að meta nýrnastarfsemi hjá börnum þar sem hvorki Cockcroft-Gault-jafnan né MDRD-jafnan hafa verið sannreyndar hjá þeim. Helstar má þar nefna Schwartz- (12) og Counahan-Barratt-jöfnur (9). Eins og áður greinir er skortur á stöðlun kreat- ínínmælinga milli rannsóknastofa talinn eiga veru- legan þátt í ónákvæmni reiknaðs GSH. Nú hefur verið hrint af stað alþjóðlegu átaki til að staðla kreatínínmælingar samkvæmt staðli sem mældur hefur verið með ákveðinni aðferð, massalitrófs- greiningu með ísótópaþynningu (Isotope Dilution Mass Spectrometry). Framleiðendur hvarfefna og mælitækja vinna nú að þessari stöðlun og er áætlað að þeirri vinnu ljúki á næsta ári. Slík stöðlun er ein af meginforsendum þess að rannsóknastofur geti farið að birta reiknaðan GSH samhliða niðurstöð- um kreatínínmælinga (14). í sumum tilvikum er ástæða til að ætla að ekki sé hægt að reiða sig á kreatínín eða kreatínínjöfnur, til dæmis vegna óeðlilegs vöðvamassa, svo sem hjá vaxtarræktarfólki eða við vöðvarýrnun af ólikum orsökum. Kann þá að vera ráðlegt að fá nákvæma mælingu á GSH með ísótóparannsókn. Cystatín C Þrátt fyrir þá framþróun sem hér hefur verið lýst er hægt að bæta um betur og enn er leitað að hentugri aðferð til að meta GSH. Síðustu ár hefur áhugi manna einkum beinst að cystatín C, litlu próteini (13 kD) sem framleitt er af öllum kjarna- frumum líkamans. Það síast greiðlega í gauklum og er brotið niður af frumum í nýrnapíplum. Cystatín C er því talið vænlegur kostur til að meta GSH og er talið vera betra en kreatínín í sermi eitt og sér (15). Hins vegar virðist mæling á cystatín C eða útreikningur á GSH sem byggist á cystatín C ekki hafa mikið umfram kreatínínjöfnur að bjóða (16). Mæling cystatín C er auk þess umtalvert dýrari og mælingaraðferðir hafa ekki verið staðlaðar þannig að sem stendur er ekki hægt að ráðleggja notkun þess í stað reiknaðs GSH sem byggist á kreatíníni. Faraldsfræði langvinns nýrnasjúkdóms Við upphaflegar rannsóknir á faraldsfræði lang- vinns nýrnasjúkdóms voru notaðar ýmsar aðferðir til að mæla kreatínín í sermi og mismunandi kreatíníngildi til að skilgreina sjúkdóminn og urðu niðurstöður því ærið misvísandi (17-20). Nýrri rannsóknir sem lagt hafa skilgreiningu Bandarísku nýrnasamtakanna frá árinu 2002 til grundvallar, sýna að tíðni langvinns nýrnasjúkdóms er talsvert há og er til að mynda um 11% í Bandaríkjunum (21) . Hér á Islandi var algengið um 7% meðal karla og 12% meðal kvenna samkvæmt nýlegri rannsókn sem byggði á gögnum frá Hjartavernd (22) og er það svipað og komið hefur fram í öðrum löndum (23-25). Athygli vekur að tíðni langvinns nýrnasjúkdóms er svipuð milli landa þó að tíðni lokastigsnýrnabilunar sé talsvert mismunandi (24). Bendir það til að framrás nýrnabilunar sé mismunandi meðal vestrænna þjóða en óljóst er hvernig á því stendur. Nauðsynlegt er þó að hafa hugfast að þessar rannsóknir hafa notað kreatínín í sermi og jöfnur sem byggja á því til að reikna út GSH og eru því háðar sömu annmörkum og kreatínínmælingarnar sjálfar. Nýleg rannsókn sem staðlaði niðurstöður kreatínínmælinga og kann- aði algengi langvinns nýrnasjúkdóms og tíðni áhættuþátta fyrir lokastigsnýrnabilun í Noregi og Bandaríkjunum, sýndi samt svipaða tíðni langvinns nýrnasjúkdóms þótt algengi lokastigs- nýrnabilunar sé mun meira vestanhafs. Höfundar hennar töldu að mismunandi dreifing áhættuþátta, meðal annars sykursýki og offitu, sem eru mun tíðari í Bandaríkjunum, gæti að minnsta kosti að hluta til útskýrt hvers vegna algengi lokastigs- nýrnabilunar er meira þar (24). Orsakir langvinns nýrnasjúkdóms geta því verið mismunandi milli landa, til dæmis er sykursýkinýrnamein fátíð orsök hér á landi þar sem innan við 10% af sjúklingum með lokastigsnýrnabilun eru með sykursýki, en er allt að 40-50% annars staðar. Aðrar helstu orsakir langvinns nýrnasjúkdóms meðal fullorðinna eru háþrýstingur, æðakölkun, gauklabólga, millivefs- bólga, stíflunýrnamein, og arfgengir sjúkdómar, svo sem arfgengur blöðrunýrnasjúkdómur með ríkjandi erfðamáta (17,24). Allar faraldsfræðirannsóknir hafa sýnt að algengi langvinns nýrnasjúkdóms eykst mjög með vaxandi aldri. Það er þekkt að nýrnastarfsemi hnignar með aldrinum og álitið er að GSH lækki að meðaltali um 1 ml/mín. á ári eftir að fullorðins- aldri er náð (26). Það þarf því ekki að koma á óvart að aldraðir séu áberandi í flokki þeirra sem eru með langvinnan nýrnasjúkdóm samkvæmt þessum nýju skilgreiningum. Rétt er því að fara varlega í að greina langvinnan nýrnasjúkdóm meðal aldr- aðra einstaklinga, einkum ef um væga minnkun á nýrnastarfsemi er að ræða og engin önnur skil- merki fyrir sjúkdómnum eru til staðar. 204 Læknablaðið 2007/93

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.