Fréttatíminn - 19.12.2014, Blaðsíða 60
Þegar tilveran fór á hvolf
Svarthvítir dagar heitir æskuminningabók Jóhönnu Kristjóns-
dóttur sem kemur út nú fyrir jólin. Hún hefur mælst afar vel
fyrir enda er þar lýst af einlægni og húmor uppeldi ungrar
stúlku í Reykjavík á árunum 1940-1956. Í bókinni er mikið af
eftirminnilegum mannlýsingum en einnig hjartnæmir kaflar um
mikil alvörumál.
Jú, mamma sagði að
læknirinn, sem hún var
meira að segja búin að velja
fyrir mig og hringja í, ætti
að skoða hvort meyjarhaftið
væri ekki örugglega á sínum
stað, heilt og fínt.
Þ að var á marskvöldi 1954 sem tilvera mín fór á hvolf. Ég sat inni í herberginu mínu og var
vafalaust að lesa skólabækurnar. Þá
var bankað og pabbi kom inn í her-
bergið og hann var svo grafalvarleg-
ur á svipinn að ég var viss um að nú
hefði einhver að minnsta kosti dáið.
„Ég verð að tala við þig um alvar-
legt mál, Jóhanna mín,“ sagði hann
og röddin var þung en samt nokkuð
hlutlaus. Hann fékk sér sæti á rúm-
inu mínu. Ég var enn nokkuð viss
um að einhver væri dáinn. En svo
var ekki. Aftur á móti væri komið
upp úr dúrnum að ég mætti ekki fara
í sveit í Hjarðarholt um vorið eins og
síðustu tvö sumur.
Það var vissulega á við dauðsfall,
og það þyrmdi yfir mig þar sem ég
starði þrumu lostin á pabba minn
þar sem hann sat á rúminu og bæði
skrokkurinn og röddin virtust nú
þyngjast óðfluga.
„Þórður og Nanna segjast ekki
geta tekið ábyrgð á þér eftir síðasta
sumar,“ sagði hann og ég skellti aft-
ur bókunum. Hér var eitthvað undar-
legt á seyði þótt enn hefði ég ekki
áttað mig til fulls.
„En ég stóð mig vel, pabbi, Þórður
borgaði mér hátt kaup. Manstu hvað
þú varst montinn af mér,“ sagði ég
hraðmælt og var komin með dynj-
andi hjartslátt. „Hjalti sagði líka
að ég ynni eins og fullorðin mann-
eskja,“ bætti ég við.
Þá var eins og æði rynni á pabba
og hann barði saman höndunum og
varð eldrauður í framan þegar hann
hvæsti:
„Já, þú virðist nú halda að þú sért
orðin fullorðin að ýmsu öðru leyti
líka ... ekki einu sinni fermd ... ert
með strák á öllum böllum og laumast
út með honum ... maður veit nú hvað
getur gerst ... og þú ert bara barn!“
Aldrei séð pabba svona áður
Ég hafði loksins fundið á mér með-
an hann tætti út úr sér setninguna
hvað mundi koma og ég var alveg
kjaftstopp og fann kökkinn færast
upp í hálsinn. Ég sagði með skjálf-
andi röddu að ég og þessi umræddi
strákur hefðum vissulega orðið skot-
in hvort í öðru. En það hefði ekkert
gerst nema við hefðum kyst og þá
greip pabbi fram í fyrir mér og sagð-
ist þekkja hvernig svona strákar
væru og þessi væri eldri en ég og
hann væri greinilega bara kolruglað-
ur að vera að eltast við stelpukrakka.
Þá fann ég allt í einu reiðina blossa
upp. Það skyldi enginn komast upp
með að gera einhvern sora úr þessu
litla og fallega ástarævintýri okkar
Heiðars á Svarfhóli sumarið áður,
ekki einu sinni hann pabbi minn
sem mér þótti vænna um en flesta
aðra í þessu lífi. Mig langaði að
æsa mig en ég reyndi að stilla mig
eftir megni, því ég var líka smeyk
við reiði pabba. Ég hafði aldrei séð
hann svona áður. Ég reyndi að full-
vissa hann um að það hefði ekkert
gerst sem ég eða pilturinn þyrftum
að skammast okkar fyrir. Nákvæm-
lega ekki neitt. Ég sagðist vita hvað
pabbi meinti en það væri ekki rétt.
„Ég hef aldrei skrökvað að þér og
mömmu,“ sagði ég og kökkurinn í
hálsinum var orðinn æði fyrirferðar-
mikill. Á næstu mínútum mundi ég
bresta. „Allar stelpurnar í bekknum
eru farnar að slá sér upp og hvað er
þá athugavert við að ég verði líka
skotin í strák ... og svona sakleysis-
lega ... og hvað ertu að vitna í Þórð
og Nönnu? Þau sögðu aldrei orð við
mig um þetta.“
Svo fór ég að gráta og mér fannst
að ég mundi aldrei geta hætt að
gráta. Milli hviðanna stundi ég upp
að ég segði satt og þau yrðu að trúa
mér, þau bara gætu ekki annað því
það hefði ekkert gerst.
Steinrunnin af sorg og angist
Smám saman hægðist á grátnum og
pabba hafði líka vöknað um augu en
hann sagði mér að Þórður í Hjarð-
arholti hefði nýlega haft samband
við sig og sagt sér frá því að þau
Nanna óttuðust að samband okkar
Heiðars hefði gengið of langt sum-
arið áður. Og þau treystu sér ekki
til að ég kæmi aftur ef þetta héldi
svona áfram. Þau gætu ekki tekið
ábyrgð á því sem gæti gerst. Pabbi
bætti við að þeim mömmu hefði al-
deilis brugðið svo hann hefði brunað
í snjó og ófærð vestur í Hjarðarholt
og fengið þar nánari lýsingar á pilt-
inum sem um ræddi. Þetta væri hinn
mesti kvennabósi og mesta furða að
hann skyldi þó hafa haldið sig við
mig eina. Við hefðum sést koma
út úr hlöðunni á Leiðólfsstöðum í
birtingu, við hefðum sést hér og við
hefðum sést þar. Nú væri ég orðin
árinu eldri og þá væri aldrei að vita
hvað gæti gerst næsta sumar.
„Þú færð vinnu hjá mér á skrif-
stofu Regins,“ sagði pabbi. „Þann-
ig verður þetta. Ég banna þér ekki
að fara í Hjarðarholt í fríum en ég
vil ekki sjá þennan strák og ég vil
ekki sjá að þú talir við hann nokk-
urn tíma.“
Svo fór hann og taldi greinilega
nauðsynlegt til áréttingar orðum
sínum að skella á eftir sér hurðinni.
Og ég sat þarna steinrunnin af sorg
og angist. Ég læsti herberginu mínu,
dró af mér spjarirnar og fór undir
sæng og skældi úr mér augun.
Þegar pabbi vakti mig í skólann
var ekkert á þetta minnst. Mamma
var sofandi. Ég afþakkaði stuttlega
að pabbi keyrði mig í skólann.
Þegar ég kom heim tók mamma á
móti mér með uppgerðarkæti. Hún
sagðist vera búin að finna lausn á
þessu öllu. Að vísu færi ég ekki í
Hjarðarholt en annað væri hún búin
að leysa. Ég sagði ekki orð, át ýsu-
sporðinn og ætlaði síðan inn til mín
að læra. En mamma elti mig, alltaf
með sömu gleðilætin, og vildi segja
mér hver lausnin væri. Ég ætti að
drífa mig til kvenlæknis og láta
skoða mig.
„Skoða hvað?“ hreytti ég út úr
mér.
Jú, mamma sagði að læknirinn,
sem hún var meira að segja búin að
velja fyrir mig og hringja í, ætti að
skoða hvort meyjarhaftið væri ekki
örugglega á sínum stað, heilt og fínt.
Svo gæfi hún mér vottorð um það og
þau pabbi gætu sýnt það Hjarðar-
holtshjónum til að sanna að þetta
sem þau gæfu í skyn væri hugar-
burður og vitleysa.
Og svo brosti mamma út að eyrum
eins og þetta væri bráðskemmtileg
brella sem hún hefði fundið upp og
ég ætti helst að klappa saman hönd-
unum yfir hugkvæmni hennar.
Móðir Jóhönnu hét Elísabet Ísleifsdóttir,
sem hér sést með yngri dóttur sinni
Valgerði. Elísabet átti til að vera nokkuð
siðavönd og brást hart við þegar hún
taldi dóttur sína komna út á refilstigu
tilfinninganna.
Faðir Jóhönnu, Kristjón Kristjóns-
son. Hann var yfirleitt mjög hlýr og
notalegur í umgengni við börn sín, en
reyndi að sýna strangleika þegar hann
óttaðist að dóttir hans væri lent í klóm
kvennabósa!
Jóhanna undi sér afar vel í sveit í Dölunum og langaði um tíma til að verða bóndi. En mikil og óvænt tilfinningamál settu strik í
reikninginn.
60 bækur Helgin 19.-21. desember 2014