Frjáls verslun - 01.01.2010, Blaðsíða 78
78 F R J Á L S V E R S L U N • 1 . T B L . 2 0 1 0
Þegar Katrín Óladóttir,
framkvæmdastjóri Hagvangs, er
spurð hvernig best sé að undirbúa
sig fyrir ráðningarviðtal segir
hún að umsækjandi eigi að taka
viðtalið alvarlega og undirbúa sig.
Það getur hann gert með því að
kynna sér starfsemi viðkomandi
fyrirtækis. Þá eigi hann að gæta
þess að svara spurningum með
stuttum og skýrum setningum
og líta á hverja spurningu sem
eðlilegan hlut. Einnig á hann að
geta útskýrt hverju hann hefur
áorkað í sínu núverandi starfi og í
hverju hann vilji bæta sig.
„Viðtalið gengur betur ef
umsækjandinn er afslappaður,
jákvæður og eðlilegur. Best er ef
klæðnaður umsækjanda samrýmist
umræddu fyrirtæki; hann ætti að
leggja áherslu á að vera snyrtilega
til fara og ekki vera með tyggjó eða
of mikið af skartgripum.
Það eru oft margir um hituna
fyrir hvert auglýst starf. Hvað ef
nokkrir hafa sömu menntun og
reynslu? „Menntun og reynsla er
bara einn af fjölmörgum þáttum
sem þarf að taka tillit til þegar
hæfni umsækjenda er metin. Það
sem flestum hættir til að vanmeta
eru persónulegir eiginleikar
umsækjenda eins og áreiðanleiki,
samviskusemi, næmi í
samskiptum, drifkraftur, metnaður,
sjálfstraust og jafnlyndi. Ef finna á
besta starfsmanninn úr hópi
umsækjenda með tilskilda
menntun og reynslu þarf að skoða
þessa eiginleika því það eru þeir
sem greina á milli
afburðastarfsmannanna og hinna
sem eru rétt í meðallagi. Auk þess
að meta þessa þætti í viðtalinu
leggjum við hjá Hagvangi áherslu á
það í öllum okkar ráðningum að
allir hæfir umsækjendur séu settir í
persónuleikamat frá Hogan
Assessments, sem er einn allra
virtasti framleiðandi slíkra prófa í
heiminum. Þessi próf eru fljótleg,
ódýr og afar gagnleg við að greina
á milli hæfra umsækjenda.“
eftirminnileg ráðstefna:
Eins og
draugaborg
Helgi Jónsson, gigtarlæknir á Landspítalanum,
segir að sín besta ráðstefna hafi verið stofnfundur
Heimsslitgigtarsamtakanna (Osteoarthritis Research
Society) í París árið 1992. Þar hittist fólk úr mörgum
greinum svo sem gigtarlæknar, bæklunarlæknar,
dýralæknar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar, efnafræðingar
og lyfjafræðingar. Allt þetta fólk er tengt slitgigt og
slitgigtarrannsóknum sem hann segir vera sínar ær
og kýr. Að hans sögn mæta venjulega um 800-1000
manns á ráðstefnur samtakanna.
„Ein ráðstefnan er sérstaklega minnisstæð en
hún var haldin í Washington í september árið 2001.
Um 250 manns mættu en Washington var þá eins og
draugaborg eftir árásirnar 11. september. Þetta var
svolítið óhuggulegt. Segja má að við ráðstefnugestir
höfum verið einir á risastóru hóteli. Þetta var samt
með allra bestu ráðstefnum sem ég hef sótt enda var
það harðasti kjarninn og þeir sem höfðu frá mestu að
segja sem mættu.
Ráðstefnur á vegum Heimsslitgigtarsamtakanna
hafa breytt miklu varðandi þekkingu og meðferð á
slitgigt. Engin straumbreyting hefur enn orðið í
meðferð en vonandi er það í vændum. Skilningur á
sjúkdómnum og ýmsir þættir sem tengjast
meðferðum eru nú skýrari og betri.“
Helgi Jónsson. „Þetta var samt með allra
bestu ráðstefnum sem ég hef sótt enda var
það harðasti kjarninn og þeir sem höfðu frá
mestu að segja sem mættu.“
Katrín Óladóttir. „Það sem flestum hættir til að vanmeta eru persónulegir
eiginleikar umsækjenda eins og áreiðanleiki, samviskusemi, næmi í
samskiptum, drifkraftur, metnaður, sjálfstraust og jafnlyndi.“
ráðningarViðtöl:
Að vera maður sjálfur