Frjáls verslun - 01.02.2007, Page 104
104 F R J Á L S V E R S L U N • 2 . T B L . 2 0 0 7
SUMARHÚS
Sumarhús allt árið
„Af einhverjum ástæðum er það svo að mikið af sumarhúsum
og bújörðum hefur lent í sölu hjá mér í gegnum tíðina,“ segir
Magnús Leopoldsson fasteignasali.
„Ég hef fylgst með þeirri þróun síðustu tvo áratugina að
fólk kaupir sumarhús og jarðir allt árið nú en í upphafi var það
einkum á vorin sem salan átti sér stað. Það er auðvitað rólegra yfir
háveturinn en þegar húsin eru orðin jafngóð og raun ber vitni, er
ekkert mál fyrir fólk að fara hvenær sem er ársins og dvelja í þeim.
Reyndar veit ég dæmi þess að fólk hefur búið í sumarbústöðum
um skemmri eða lengri tíma á meðan það er að laga íbúðarhús-
næði sitt og jafnvel þegar það er á milli íbúða enda orðið minnsta
mál með betri samgöngum að fara á milli og jafnvel sækja vinnu í
borgina.“
Þess verður þó að gæta að ekki er ætlast til að fólk búi alfarið
í sumarbústöðum og þjónusta eins og að sækja börn í skóla á
ekki við um þá. „Það hefur samt verið áhugavert að fylgjast með
hvernig jaðarbyggðir, sem áður voru eingöngu sumarbústaðasvæði,
t.d. í kring um Elliðavatn, eru nú orðnar að íbúðasvæðum og sú
þróum á eftir að halda áfram.“
Nálægð við borgina ræður því svolítið hversu vinsæl svæði eru
þó það sé ekki algilt. „Borgarfjörðurinn var mjög sterkur eftir að
göngin komu,“ segir Magnús. „Það sem hefur breyst hins vegar
er að nú er gríðarlega mikið framboð af lóðum um allt og því
auðveldara fyrir fólk að fá stað við hæfi.
Nokkur umræða hefur skapast um mismuninn á því að eiga
bústað á eignarlóðum og á leigulóðum. Magnús segir viðhorf fólks
nokkuð mismunandi eftir því hvort um er að ræða leiguland í
eigu sveitarfélaga eða í einkaeign. „Að öllu jöfnu virðist fólk ekki
setja fyrir sig að kaupa bústaði á leigulóðum í eigu sveitarfélaga,
ekki frekar en hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem nær allar fast-
eignir eru á leigulóðum,“ segir hann. Hins vegar er ljóst að fæstir
vilja sætta sig við það lengur að eiga bústað og byggja upp í kring
um hann og lenda síðan í óvissu þegar leigutíma lýkur. Þess vegna
er það að flestir kjósa heldur að kaupa bústaði á eignarlóðum ef
það er í boði. “
Magnús Leopoldsson fasteignasali.
Leigulóð
eða eignarlóð?
Sumarbústaðir ganga kaupum og sölum eins og aðrar fasteignir.
Eitt af því sem gæta þarf að þegar sumarbústaður er keyptur, er
hvort hann stendur á eignarlóð eða leigulóð. Einar Páll Kjærnested
hjá Fasteignasölu Mosfellsbæjar segir að upp hafi komið tilvik þar
sem réttaróvissa ríkir um leigusamninga og fólk þarf að berjast fyrir
framtíð sumarhúsa sinna.
„Það er ákaflega mikilvægt að bæta úr þessu hið fyrsta,“ segir
Einar. „Sumarbústaðir eru í auknum mæli að verða heilsárshús og í
raun annað heimili fólks og það á ekki að þurfa að búa við réttaró-
vissu með heimilið sitt. Væntanlega myndu fáir sætta sig við það að
lóðin undir íbúðarhúsi þeirra væri háð slíkum takmörkunum. Auð-
vitað er heppilegast að kaupa bústað sem er á eignarlóð eða a.m.k.
tryggja að lóðasamningurinn sé öruggur og nægjanlega langur.“
Einar segir bústaði á leigulóðum síðri í sölu en þá sem eru á eign-
arlóðum. „Auðvitað kemur fleira þarna inn í, s.s. staðsetning, land-
gæði, nálægð við vatn eða golfvöll og svo framvegis. Einnig eru eldri
svæði oft vinsæl þar sem þau eru gjarnan uppgrædd á meðan sum af
nýrrri svæðinum eru ekkert nema gömul tún sem skipt hefur verið
upp í lóðir.“
„Það er eins gott að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar sumarbú-
staður er keyptur því þetta er fjárfesting upp á 15-40 milljónir og
fólk vill fá ró og næði í sumarbústaðnum sínum en vill ekki þurfa að
standa í stríði um bústaðinn,“ segir Einar að lokum.
Einar Páll Kærnested fasteignasali.