Læknablaðið - 01.06.2014, Síða 21
LÆKNAblaðið 2014/100 341
hina góðu stöðu sem íslenskar konur njóta nú, - á íslenskan en ekki
síður alþjóðlegan mælikvarða.
Hugtök um heilbrigði kvenna
Kyn- og æxlunarheilbrigði er þýðing á enska hugtakinu sexual and
reproductive health og tekur til allra þátta sem varða gerð og eðlilega
líffræðilega starfsemi í kynfærum kvenna og tengdum líffærum,
frá æsku til efri ára. Með því hugtaki er athygli beint að mikilvægi
þessara hluta líkamans, ekki einasta vegna barneigna, heldur einn-
ig til að leggja áherslu á miðlæga þýðingu þeirra í almennri heil-
brigði karla og kvenna. Í víðara samhengi má hvað konur varðar
tala um kvenheilbrigði (women´s health), sem þá tekur til sértækra
heilbrigðismála kvenna þar sem öll líffæri og öll líkamsstarfsemi er
tekin með á þann hátt sem hún er öðruvísi meðal kynjanna. Hvað
sem líður öðrum jöfnuði milli kynjanna, þá eru líffræðileg hlutverk
kvenna og karla frábrugðin og vart þarf að árétta það. Þó er ekki
langt síðan skilningur á heilbrigði og sjúkdómum var að miklu leyti
miðaður við það sem voru þekktar staðreyndir um karla, svo sem
viðmiðunargildi í blóðrannsóknum, sjúkdómseinkenni (hjartaöng
er gott dæmi) og forspár um gang sjúkdóma. Eðlileg aldurs- og
kynjastöðluð gildi fyrir ýmsar líffræðilegar breytur hafa fyrst
komið til á síðustu hálfu öldinni. Lítið var vitað um lífeðlisfræði og
lífefnafræði kvenna og um kvenhormóna fyrr en upp úr miðri síð-
ustu öld. Áherslan var á að lækna það sem úrskeiðis fór. Heilbrigði
kvenna var mælt með tölum um mæðradauða. Burðarmálsdauða
var farið að skoða upp úr 1960-70. Á seinni hluta aldarinnar komu
til kynskiptar tölur um krabbamein, og þá hvað konur varðaði í
lungum, brjóstum, eggjastokkum, legi og leghálsi, einkum eftir að
krabbameinsskráin (1954) og skipulagða krabbameinsleitin (1964)
höfðu orðið til. Með rannsóknum hjá Hjartavernd bættust við
kynskiptar tölur um hjartasjúkdóma meðal kvenna. Þó heilsa við
tíðahvörf og heilsufar tengt getnaðarvörnum, fóstureyðingumm
og ófrjósemi kæmu inn í almenna umræðu í vaxandi mæli á 7.-9.
áratugunum í tengslum við breytta þjóðfélagshætti, breytta fjöl-
miðlun og vaxandi tölvu- og vefnotkun, var ekki farið að ræða um
kynheilbrigði að marki fyrr en á síðasta áratug 20. aldar og æxl-
unarheilbrigði á sér enn styttri og minna mótaða sögu sem hugtak
í íslenskum veruleika.
Mæðra- og burðarmálsumbætur
Frá fyrri hluta 20. aldar lækkuðu hlutfallstölur um burðarmáls-
dauða og mæðradauða hratt frá nær 400/100000 upp úr 19115 og
niður í 4-5/100000 á síðustu árum6, sem er með því lægsta sem sést
í heiminum. Margar samverkandi ástæður koma þar til, svo sem
stórbætt almenn kjör fólks, fækkun barneigna, betri mæðravernd
(nú oft nefnd meðgönguvernd með skírskotun bæði til móður
og fósturs) með Rhesus-vörnum og gjöf K-vítamíns til að varna
blæðingarheilkenni nýbura, með bættu öryggi í fæðingum sam-
fara síritun og skyldum hjálparaðgerðum, margfalt betri meðferð
langvinnra sjúkdóma, svo sem sykursýki, rauðum úlfum og lang-
vinnum bólgusjúkdómum í þörmum og ristli hjá konum á barn-
eignaaldri, vel skipulögð skimun fyrir fósturgöllum og meðgöng-
urof ef alvarlegir gallar greinast, markviss framköllun á fæðingum
þegar konur fara fram yfir væntanlegan fæðingartíma, og miklar
framfarir í nýburalækningum. Á síðari árum hafa bættar leiðbein-
ingar í meðgönguvernd komið til og gert kleift að færa hana í meiri
mæli á heilsugæslustöðvar, en nýta um leið sérfræðiþjónustuna
betur fyrir þær konur sem þess þurftu með. Tilkoma tæknifrjóvg-
unar um 1990 breytti horfum fyrir þau 10% para sem áður gátu
ekki eignast börn. Þó sumar þessara kvenna hefðu margvíslega
áhættuþætti á meðgöngu, svo sem hærri aldur og vandamál sem
tengdust því hefur samt ekki orðið aukning á mæðra- eða burðar-
málsdauða. Vaxandi offituvandi íslenskra kvenna hefur heldur
ekki haft áhrif á þessa þætti enda þótt verri horfur varðandi út-
Landspítalinn með fæðingardeildinni um 1960, hornsteinninn fyrir kvennaheilbrigði gegnum árin. Ljósmyndari óþekktur.