Læknablaðið - 01.05.2015, Blaðsíða 28
260 LÆKNAblaðið 2015/101
■ ■ ■ Hávar sigurjónsson
U M F J Ö l l U n O G G R E i n a R
„Það á við hér sem víða annars staðar
að ef maður ætlar að borða fíl þá er rétt
að gera það í smábitum,“ segir Birgir
Jakobsson sem um síðustu áramót tók
við Embætti landlæknis. Birgir var
áður forstjóri Karolinska sjúkrahússins
í Stokkhólmi, eins stærsta og virtasta
sjúkrahúss á Norðurlöndum og segir að
það sem komi sér mest á óvart sé hversu
mörg og ólík verkefni séu á borði Emb-
ættis landlæknis.
Hefurðu sett upp forgangsröð þeirra verkefna
sem þú vilt vinna að?
„Mér finnst mikilvægt að hefja þetta
starf af ákveðinni auðmýkt og nýta tímann
í fyrstu til að átta mig á því hvernig mál
standa, kynnast fólki og sjónarmiðum
þess og hef því nýtt tímann frá áramótum
til að ræða við fjöldann allan af fólki í
heilbrigðiskerfinu og stjórnsýslunni. Það
hefur verið mjög fróðlegt og gagnlegt fyrir
mig. Svarið við spurningunni felst þó í
þeim áherslum sem ég hef lagt í mínum
störfum sem stjórnandi stórrar heilbrigðis-
stofnunar undanfarna tvo áratugi og snýst
um að leita stöðugt nýrra leiða til að bæta
gæði þjónustunnar sem við veitum og
leggja áherslu á öryggi sjúklinga. Það er
ekkert launungarmál að ég kem til með að
leggja áherslu á þessa þætti í starfi mínu
sem landlæknir. Íslenska heilbrigðiskerfið
er hvorki betra né verra en önnur kerfi að
þessu leyti; sömu vandamál eru hér og við
þurfum að skoða mjög vandlega hvernig
við breytum hugsun okkar og vinnuhátt-
um til að fá betri niðurstöður.“
Margir vilja halda því fram að fjárskortur
í heilbrigðiskerfinu, sem veldur því að dregið
er úr þjónustu og stofnanir undirmannaðar, sé
helsta ógnin við öryggi sjúklinga.
„Ég er ekki vafa um það að íslenska
heilbrigðiskerfið fór illa út úr hruninu
hvað þetta varðar og allir eru sammála
um að fjármagn til heilbrigðismála hafi
minnkað hlutfallslega og það er vandamál.
Samt tel ég að ýmislegt sé hægt að gera
með þá fjármuni sem við höfum. Ég hef
sagt það margoft að ef ég væri að leggja
aukna peninga í kerfið myndi ég hugsa
mig um tvisvar nema skýrar vísbendingar
kæmu fram um að nýting fjármunanna
væri eins góð og hægt er. Við þurfum að
hugsa hvernig við getum bætt kerfið til að
viðbótarfjármunir nýtist sem best.“
Kerfið er ábyrgt fyrir mistökum
Öryggi sjúklinga er víðfemt hugtak. Hvað áttu
nákvæmlega við þegar þú talar um það?
„Ég er að fyrst og fremst að tala um
að fyrirbyggja mistök sem átt geta sér
stað innan kerfisins. Kerfið er þannig
byggt upp að mistök eiga sér stað. Það er
staðreynd að ónauðsynleg dauðsföll eiga
sér stað vegna mistaka innan kerfisins.
Vissulega deyr fólk innan kerfisins en
ónauðsynleg dauðsföll eiga ekki að gerast
og ennfremur eiga sjúklingar ekki að
verða fyrir ónauðsynlegum skaða eða
tjóni. Það geta verið sýkingar í kjölfar að-
gerða, aukaverkanir vegna lyfja og annars
konar ónauðsynleg áföll sem verða ekki
skilgreind sem annað en kerfisbundinn
galli. Þetta hefur verið rannsakað í þaula
víða erlendis og rannsókn í Svíþjóð árið
2007 leiddi í ljós að 3000 sjúklingar dóu
ónauðsynlegum dauða og 100.000 urðu
fyrir varanlegum skaða vegna mistaka í
kerfinu. Þetta eru háar tölur þó það sé lítið
sem hlutfall af heildinni. En eitt svona slys
er meira en nóg. Á hinn bóginn getum við
státað af því að yfir 90% af sjúklingum
eru ánægðir með þjónustuna og það er til
marks um að heilbrigðisþjónustan okkar
er að mörgu leyti mjög góð. En þetta þýðir
líka að einn af hverjum 10 er ekki ánægður
og við getum spurt okkur hvort það sé
viðunandi. Ég er ekki ánægður með það
og þarna er töluvert svigrúm til að bæta
sig. Sem betur fer stafar óánægja fólks
ekki alltaf af því að það hafi beinlínis
orðið fyrir tjóni eða varanlegum skaða.
Stundum er það viðmótið eða upplifun
sjúklingsins af þjónustunni sem veldur
óánægjunni. Það kostar ekkert að bæta
slíkt en kallar á sameiginlega meðvitund
og vakningu.“
Þú hefur sagt að íslenska heilbrigðiskerfið
standi því sænska fyllilega jafnfætis og að þekk-
ingin og þjónustan sé sambærileg við það besta
sem þekkist í samanburðarlöndunum.
„Við erum hins vegar ekki nógu dugleg
að lyfta fram tölfræðilegum upplýsingum
úr kerfinu og erum ekki að gera árangur-
inn nægilega sýnilegan. Þetta er mjög
mikilvægt fyrir alla; að þeir sem vinna
„Okkar hlutverk
er að greiða götuna“
– segir Birgir Jakobsson landlæknir