Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.11.2014, Page 15

Læknablaðið - 01.11.2014, Page 15
LÆKNAblaðið 2014/100 583 míturlokuhringinn til þess að treysta viðgerðina.9 Nýleg rannsókn sýndi að einkennalausir sjúklingar með eðlilega starfsemi vinstra slegils sem gangast undir aðgerð vegna mikils míturlokuleka lifa lengur en þeir sem einungis eru meðhöndlaðir með lyfjum.18 Í annarri rannsókn reyndist langtímalifun einkennalausra sjúk­ linga sem gengust undir aðgerð mun betri en þeirra sem geng­ ust undir aðgerð með einkenni hjartabilunar (NYHA­flokkur III og IV), eða 76% á móti 53% lifun eftir 15 ár.19 Einnig eru meiri líkur á enduraðgerð og endurteknum leka hjá sjúklingum með einkenni, sérstaklega ef starfsemi vinstri slegils er skert.20 Í okkar rannsókn virtust sjúklingar með hrörnunarlokusjúkdóm oft hafa komið frekar seint til aðgerðar, til dæmis var rúmur þriðjungur þeirra með verulega lækkað útstreymisbrot og tæpur þriðjungur með stækkaðan vinstri slegil fyrir aðgerð. Auk þess voru tæpir tveir þriðju sjúklinganna með einkenni hjartabilunar fyrir aðgerð. Þessum sjúklingum hefði því sennilega mátt vísa fyrr til aðgerðar, en yfirleitt er mælt með aðgerð við míturlokuleka áður en marktæk skerðing verður á starfsemi vinstri slegils.6 Í starfrænum míturlokuleka gegnir lyfjameðferð stærra hlut­ verki en skurðaðgerð. Reynd er lyfjameðferð með ACE/AT2­heml­ um eða beta­blokkum og stundum spírónólaktón og þvagræsilyf áður en gripið er til skurðaðgerðar.6 Ef kransæðasjúkdómur er til staðar er metið hvort kransæðavíkkun eða kransæðahjáveita geti hugsanlega bætt samdrátt hjartans og minnkað lekann.21 Hjá sum­ um einstaklingum með verulega skertan vinstri slegil og vinstra greinrof á hjartariti, getur tveggja­slegla gangráður (biventricular pacemaker) dregið úr starfrænum míturlokuleka.22 Ef alvarlegur leki og einkenni hjartabilunar eru til staðar þrátt fyrir ofangreinda meðferð er talið rétt að íhuga lokuaðgerð.21 Skurðaðgerð vegna starfræns míturlokuleka er hægt að fram­ kvæma með því að skipta lokunni út eða gera við hana. Líkt og raunin er um aðgerðir við hrörnunarsjúkdómi hefur viðgerðum fjölgað á kostnað lokuskipta.17 Viðgerðir við starfrænum leka felast yfirleitt í því að þrengja míturlokuopið með stífum hring.10 Aðrar aðferðir, eins og tilfærsla á totuvöðva og lokustög úr gerviefnum (pólítetraflúróetýleni), hafa þó einnig verið þróaðar. Í völdum til­ vikum kemur til greina að framkvæma svokallaðan Alfieri­saum, en þá er settur saumur frá miðju fremra lokublaði yfir á það aftara. Þetta er þó ekki besta viðgerðin en fljótleg. Á síðustu árum eru aðgerðir með þræðingartækni sem byggja á þessari aðferð í örri þróun (MitraClip®).7 Alls var gerð míturlokuviðgerð hjá 55 sjúklingum vegna starf­ ræns míturlokuleka og var lekinn helsta ábending aðgerðar í um þriðjungi tilvika. Flestir sjúklinganna (83%) gengust undir aðra hjartaaðgerð samhliða míturlokuviðgerð og var í mörgum til­ vikum einungis um meðal míturlokuleka að ræða. Gagnsemi viðgerðar á meðalmiklum starfrænum leka hefur verið könnuð með framskyggnri rannsókn á sjúklingum sem þurftu einnig á kransæðahjáveitu að halda. Í þeirri rannsókn var sýnt fram á bætta starfsemi vinstri slegils og minni einkenni hjartabilunar hjá þeim sem fengu viðgerð með míturlokuhring og hjáveitu samanborið við þá sem fóru eingöngu í kransæðahjáveitu.23 Í okkar rannsókn voru engir sjúklingar með alvarlegan lokuleka vegna blóðþurrðar og líklegast að þessir sjúklingar hafi gengist undir lokuskipti í stað viðgerðar. Í allt að þriðjungi tilfella kemur leki aftur aðeins hálfu ári eftir míturlokuviðgerð.24 Þrátt fyrir þennan endurtekna leka, sem oftast er vægur, hafa afturskyggnar rannsóknir ótvírætt gefið til kynna að langtímaárangur sé betri við viðgerð en lokuskipti, bæði hvað varðar líkur á enduraðgerð og fylgikvillum tengdum lokunni.25, 26 Nýleg framskyggn slembirannsókn á sjúklingum með alvarlegan starfrænan míturlokuleka vegna blóðþurrðar í hjartanu bendir þó til þess að lokuskipti geti verið betri valkostur en lokuviðgerð.27 Tíðni fylgikvilla var há í þessari rannsókn, en alvarlegir fylgi­ kvillar greindust hjá rúmlega helmingi sjúklinga. Þetta er hærra hlutfall en eftir míturlokuskipti hér á landi (47%),14 en einnig ósæðarlokuskipti (33%)28 og kransæðahjáveituaðgerðir (9,6%).29 Háa tíðni fylgikvilla má að hluta til skýra með því að 81% sjúk­ linganna gengust undir eina eða fleiri hjartaaðgerðir samtímis míturlokuviðgerðinni. Tími á hjarta­ og lungnavél og tangartími þessara sjúklinga var því lengri, sem tengist hærri tíðni fylgikvilla og lengir bæði gjörgæslu­ og sjúkrahúsdvöl. Enduraðgerðir vegna blæðingar reyndust tíðar (14%) og var tíðnin svipuð og eftir mítur­ lokuskipti (15%).13 Hlutfall sjúklinga sem létust innan 30 daga eftir míturlokuviðgerð reyndist hins vegar lægra (6%) en við míturloku­ skipti (9%).14 Þetta er í samræmi við erlendar rannsóknir sem sýna betri lifun eftir míturlokuviðgerð borið saman við lokuskipti, sér­ staklega hjá sjúklingum með hrörnunarsjúkdóm í lokunni.30 Styrkleiki þessarar rannsóknar er að hún nær til heillar þjóðar og voru sjúklingarnir allir meðhöndlaðir á sömu stofnun og eftir­ fylgd nánast 100%. Á hinn bóginn veikir það rannsóknina að sjúklingaþýðið er tiltölulega lítið og misleitt. Því er erfitt að bera saman niðurstöður okkar við erlendar rannsóknir með einsleitari sjúklingaefnivið. Rannsóknin er afturskyggn með þeim veikleik­ um sem tilheyra slíkum rannsóknum, til dæmis þegar kemur að samanburði hópa. Skráning er ekki jafn nákvæm í afturskyggnri rannsókn og framskyggnri, til dæmis hvað varðar orsakir á starf­ rænum míturlokuleka. Einnig voru upplýsingar um langtímafylgd sjúklinga, sérstaklega hvað varðar niðurstöður ómskoðana, ekki nægjanlega ítarlegar. Sennilega hefur hluti sjúklinga aðeins verið ómaður á einkastofum eftir aðgerðina en upplýsingar þaðan lágu ekki fyrir í þessari rannsókn, heldur aðeins frá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Auk þess nær rannsóknin yfir 12 ára tímabil en á þessum tíma hafa orðið töluverðar framfarir í grein­ ingu og meðferð míturlokuleka. Míturlokuviðgerðum hefur fjölgað umtalsvert hér á landi á síðasta ártug en míturlokuskiptum hefur fækkað. Árangur mítur­ lokuviðgerða á Íslandi er góður, sérstaklega fyrir sjúklinga með hrörnunarsjúkdóm í lokunni. Fylgikvillar eru algengir eftir aðgerð en dánarhlutfall innan 30 daga er sambærilegt og við margar sam­ bærilegar erlendar rannsóknir. Þakkir Þakkir fær Gunnhildur Jóhannsdóttir skrifstofustjóri á skurðdeild Landspítala fyrir aðstoð við öflun sjúkraskráa. R a n n S Ó k n

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.