Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Side 28
186
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
ingar höfðu jafnan sett við konungshyllingu, en í þeim var hvergi
hvikað frá fyllstu réttindum þjóðarinnar.
Kirkjuskipan konungs var auðvitað samþykkt á alþingi 1541, en ein-
göngu fyrir Skálholtsbiskupsdæmi. Þar með var Lútherstrú lögtekin í
því stifti og stjórn kirkjumálanna breytt samkvæmt hinum nýja sið.
Veitingarvald prestsembætta hafði verið í höndum biskups, erkibiskups
eða staðareigenda eftir því, hvernig eignarhaldi á kirkjustaðnum var
háttað, en nú þurfti konungur eða umboðsmaður hans að samþykkja
veitinguna. Ekkert var ákveðið um klaustrin og tekjur kirkjunnar, því
að Gissur Einarsson bjóst til utanferðar til vígslu og samninga við kon-
ung um ýmis efni. Hér var því einungis stigið fyrsta sporið í þá átt að
koma siðskiptunum á.
Samningar við kirkjurœningjann
Að áliðnum vetri 1542 skrifaði konungur Gissuri Einarssyni og
Jóni Arasyni og boðaði þá báða á sinn fund. Jón biskup afsakaði sig
með vanheilsu, en sendi utan þrjá menn fyrir sína hönd, þeirra á meðal
Sigurð, son sinn, og kvaðst vilja halda allt það, sem þeir lofuðu sín
vegna „eftir allri ininni formegun, það ég kann og ég má og get gert.“
Það er mjög bagalegt, að engin gögn finnast um það, hvað konungi
og fulltrúum Jóns hefur farið á milli. Þeir skildu skaplega og konung-
ur hefur ekki sjáanlega gefið út neinar tilskipanir um kristnihald í
Hólabiskupsdæmi, því að þau lagafyrirmæli, sem sett eru um þá hluti,
koma einungis til framkvæmda í Skálholtsstifti. Gissur Einarsson tók
biskupsvígslu í þessari för og komst að merkilegu samkomulagi við
konung um skipan kirkjumála í biskupsdæmi sínu. Þegar hann fór frá
Kaupmannahöfn, hafði hann meðferðis tilskipanir konungs þess efnis,
að reisa skyldi tvo fullkomna latínuskóla, annan í Viðey en hinn á
Helgafelli. Á þessum stöðum höfðu verið auðugustu klaustur landsins,
og átti að verja tekjum þeirra til skólahaldsins og fátækir nemendur að
dveljast þar að öllu leyti sér að kostnaðarlausu. Á öðrum þremur
klaustrum Skálholtsbiskupsdæmis: Þykkvabæ, Skriðu og Kirkjubæ átti
að reisa barnaskóla. Umráð klaustranna skyldi falin Gissuri biskupi, en
umboðsmönnum konungs boðið að sjá til að þeim lagaboðum væri
framfylgt. Kirkjur og prestar skyldu halda tíundum sínum sem áður,