Tímarit Máls og menningar - 01.11.1950, Page 38
196
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Alþingi 1550
Eftir þessa hraklegu meðferð á næstæðsta umboðsmanni konungs
var haldið til alþingis, en litlu betur var þar búið að konungsmönnum.
Þeir feðgar, Jón, Björn og Ari, fjöbnenntu mjög til alþingis og höfðu
Martein biskup með sér. Talið er að þeir hafi haft um 420 manna lið
alvopnað. Þeir feðgar réðu öllu á þinginu og létu höfuðsmann kenna
á valdi sínu. Þeim var sérstaklega illa við hann, af því að hann hafði
rægt þá við konung. í lögréttunni rak Ari biskupsson á nasir honum
silfur það, sem hann átti að greiða honum í gjöld sín, og bað hann eta.
Tylftardómur klerka dæmdi Jóni Arasyni forræði Skálholtsbiskups-
dæmis, og lesið var upp bréf frá páfa til styrktar Jóni biskupi. Sömu-
leiðis voru honum dæmdar allar biskupstekjur af stiftinu og eignir
þeirra manna, sem risu gegn honum. Ari fékk staðfestingu á því, að
hann ætti Bjarnaneseignir. Einnig var dæmt um mál kaupmanna og
Múla, og féll dómurinn hirðstjóra í vil, svo að landsmenn hafa ekki
verið að öllu leyti á bandi Þjóðverja, enda höfðu þeir gert sig seka
um ýmsar átroðslur við íslendinga. Um þessa Þingvallaför kvað hinn
athafnaglaði biskup:
Þessi karl á þingið reið
þá með marga þegna
svo gegna
öllum þótti hann ellidjarfur,
ísalandi næsta þarfur
og mikið megna.
Unnið Skálholtsbiskupsdœmi
Af alþingi hélt Jón með lið sitt í Skálholt og tók staðinn, en Jón
Bjarnason ráðsmaður tók kaþólska trú og játaði forræði Jóns biskups.
Biskup hreinsaði kirkjuna með vígðu vatni og lét taka upp líkama hins
guðlausa villumanns, Gissurar Einarssonar, og dysja hann utan garðs.
Þetta athæfi bendir til þess, að Jón hafi aldrei viðurkennt Gissur sem
réttan biskup í Skálholti, þótt hann þyldi hann. Nokkrir prestar í
Skálholtsbiskupsdæmi sóru Jóni einnig trúnaðareiða, og er sagt, að
hann hafi mælt, er hann hafði sýslað þetta: „Nú hef ég undir mér allt