Tímarit Máls og menningar - 01.07.1982, Side 63
Unglingar í Reykjavík
kröfur til allra. Lágstéttarbarnið hlýtur að álykta sem svo, að
það sé ekki nógu duglegt, það kemur biturt út úr skólanum,
ósátt við sjálft sig og tilveruna. Skólinn leggur alla áherslu á að
búa alla undir langskólanám — þeir sem ekki fara þá leið — og
það eru að langmestu leyti börn úr verkalýðsstétt — hafa tapað.
Hins vegar ef það væru sérstakir skólar fyrir börn úr verkalýðs-
stétt þá myndu þau fá skólagöngu, sem m. a. byggi þau undir
stéttabaráttu í auðvaldsþjóðfélagi.
Þau fengju styrkari sjálfsmynd þar sem nám þeirra væri
tengdara lífi þeirra og reynsluheimi. Slík aðgreining í mismun-
andi skóla myndi án efa flýta fyrir að skapa meðvitaða verka-
lýðsstétt.
En eins og ég segi, það er í lagi að gæla við svona hugmynd,
það getur alltaf verið, að við getum lært af henni, áður en við
leggjum hana til hliðar.
Jónas Ég er á móti aðskilnaði og einangrun ákveðinna hópa, ég vil að
allir séu með. En það verður að breyta skólanum í heild til að
allir hafi sömu möguleika — og það verður erfitt því þetta er
auðvitað líka spurning um að breyta samfélaginu.
Hugo Ráðandi hugmynd í grunnskólanum er að festa börn ekki í
ákveðnu fari, gefa öllum jafna möguleika á að sigra í samkeppn-
inni — en það er í sjálfu sér í andstöðu við grundvallarmarkmið
skólans því ef einhver á að sigra verða allir hinir að tapa. Og
þegar börnin koma út úr skólanum er engu líkara en hann hafi
verið lagskiptur. Þau sem voru „ofan á“ fyrir eru það ennþá og
hin „undir“. Þetta má auðveldlega sjá með því að athuga úr
hvaða stéttum háskólanemar eru.
Ef við berum saman lýsingar ýmissa þeirra sem um þetta hafa
fjallað á einkennum miðstéttarbarna og lágstéttarbarna, eru orð-
in sem notuð eru um efri stéttina hlaðin jákvæðu gildi. Það er
talað um, að miðstéttarbörnin hafi góða sjálfstjórn, sterkt yfir-
sjálf, þau viti betur hvað má og hvað má ekki og þær reglur séu
runnar þeim í merg og blóð. I framhaldi af því er sagt, að mið-
stéttarbarn geti síður hugsað út fyrir lög og reglur, boð og
bönn. Ef það brýtur af sér refsar það sér sjálft, t. d. með því að
skammast sín eða fá samviskubit.
Aftur á móti einkennist mótun barna úr verkalýðsstétt meir
af því, að beitt er ytri boðum og bönnum. Þetta eru yfirleitt
309