Tímarit Máls og menningar - 01.02.1984, Page 36
Tímarit Mdls og menningar
sónu nema hann sé á einhvern hátt svo skyldur henni að hann geti hugsað
sömu eða skyldar hugsanir fyrir sjálfan sig. Við getum ekki sett okkur inn í
hugarheim kýrinnar þegar hún úðar í sig grængresi nema kannski að
einhverju leyti með því að setja eitthvað í staðinn sem okkur þykir gott.
Enda er varla reynt að beita innlifun í öðrum fræðum en þeim sem fást við
hugsanir manna. Þetta getur sjálfsagt auðveldlega leitt til þess að fræðimenn
skrifi í rauninni um sjálfa sig og samferðamenn sína þegar þeir þykjast vera
að túlka liðnar sögupersónur. En hitt getur væntanlega gerst líka að
hugarheimur sögupersónu og fræðimanns sé nægilega líkur til þess að
túlkunin verði rétt og trúverðug. Þegar slík túlkun kemur fyrir sjónir
lesanda sem líka skilur hefur söguritun heppnast, og fyrir þau augnablik
vinnur innlifunarsagnfræðingur í rauninni allt sitt starf. Við getum ekki
útilokað að reynsla þeirra Egils Skallagrímssonar og Sigurðar hafi verið lík á
þann hátt að Sigurður hafi skilið Egil og túlkað hugsanir hans í einhverjum
skilningi rétt. Um þetta er ekki auðvelt að fjalla því að þeir hafa örugglega
notað gróflega ólík hugtakakerfi, og þá kann að vera vandi að segja um að
hve miklu leyti hugsanir þeirra geta verið samar.7 Hér tengist innlifunar-
kenningin óhjákvæmilega við afstæðishyggju og samtíðaráhuga. Það leggur
varla nokkur maður út í að birta túlkun á hugsunum miðaldamanna nema
hann hafi að minnsta kosti jafnmikinn áhuga á lesendum sínum og á
miðöldum.
Samtíðarhyggja, túlkunarfrœði og heimspeki
Sigurður Nordal var ekki sagnfræðingur að mennt, og ég efast um að hann
hafi lesið mikið af ritum þeirra söguheimspekinga sem lögðu grunninn að
innlifunarkenningunni. I forspjalli Islenskrar menningar setur hann raunar
fram afdráttarlausa afstæðishyggju (36): „Að vísu breytist ekki fortíðin
sjálf. . . . Hver kynslóð lítur á hana sínum augum, hver stjórnmálaflokkur,
trúarflokkur eða einstaklingur getur valið úr henni og skýrt hana eftir vil
sinni og dul.“ En hann þakkar engum sagnfræðingi eða heimspekingi
skilning sinn á sagnfræði öðrum en danska söguprófessornum Kristian
Erslev (12). Nú er Erslev að vísu kunnastur fyrir stranga tækni við heimilda-
rýni í næsta vísindalegum anda. En eins og Sigurður nefnir skrifaði hann
eina litla bók um söguritun (historieskrivning) sem hann taldi annars konar
iðju en sagnfræði (historievidenskab) og miklu listrænni að eðli.8 Þessa bók
segist Sigurður hafa marglesið á námsárum sínum í Kaupmannahöfn, og hafi
hún aukið sér „kjark að meta rit Snorra og aðrar íslenzkar fornsögur eins og
mér var skapfelldast og taldi sönnu næst, og skoðanir mínar á gildi og
tilgangi sögulegra fræða hafa jafnan síðan borið merki hennar.“
26