Tímarit Máls og menningar - 01.09.1986, Blaðsíða 10
Tímarit Máls og menningar
hann hafi með þeim getað grafið sig inn að þjóðarhjartanu. Hitt grunar mig
að Þórarinn kunni svo vel þá list að beiting spaðanna verði til þess að hann
hljóti kosningu sem bókmenntabiskup Islands.
Um hina stuðningsmenn Davíðs Oddssonar langar mig að segja það, að
best væri að flengja þá alla á Þingi, svo þeir hræðist íhaldið. Það ráð veit ég
best og þekki af sárri reynslu af „undirbúningsflengingum" heima í æsku
sem áttu, með hótunum, að leiða til enn áhrifameiri og sárari flenginga á
Þingi, ef ég hlýddi ekki. Ógnunin hefur orðið mér svo til varnaðar gegn
svikum og í mig barist slík hlýðni á öllum sviðum, að andleg hlýðni mín
hefur náð til Alþýðubandalagsins fjórða hvert ár, þótt ég sé ekki í því eða
beinlínis „vinstrisinni" samkvæmt mælikvarða þeirra sem vita allt um sinnið
og í hvaða átt það eigi að snúa.
Slík er ógæfa mín. Megi sæta liðið losna við þá fylgju.
Árni Kr. Einarsson
í tilefni af nýfengnu frelsi
Stendur öllum á sama um hvernig við seljum íslenskar bækur? Er kannski
óviðeigandi að bjóða bækur sem söluvöru? Það þykir fínt að gefa út bækur,
en stundum vandast málið þegar kemur að því að selja þessar sömu bækur.
Mörgum hefur orðið það óyfirstíganlegur þröskuldur og þeir hafa fremur
kosið að safna bókunum inn í lagerhillur en þurfa að beita nýjum aðferðum
við að selja þær. En meðan bókin er inni í hillu á lager segir fátt af henni.
I sumar renna út samningar bóksala og útgefenda, og þegar þetta er
skrifað hafa nýir samningar ekki verið gerðir og verða vonandi ekki.
Samningar þessir voru að uppruna áratuga gamlir en viðbótum hafði verið
tjaslað við þá í tímanna rás. I hvert skipti sem upp komu nýjar hugmyndir
um sölu á bókum argaþrösuðu bóksalar og útgefendur mánuðum saman.
Þar er skemmst að minnast ólátanna sem urðu við stofnun bókaklúbbsins
Veraldar. Svo var sest niður og bætt við samninginn einni eða fleiri greinum
þar sem sagði að þetta mætti en þetta mætti ekki. Á endanum fataðist
mönnum hugmyndaflug við að finna nýjar leiðir til að auka bóksölu án þess
að brjóta gegn samningnum, svo kirfilega var mælt fyrir um allar söluleiðir.
Kerfi þetta var orðið svo fullkomið að það gekk af sjálfu sér og gekk
jafnframt af söluviðleitni bóksala og útgefenda dauðri.
272