Tímarit Máls og menningar - 01.09.1986, Blaðsíða 42
Tímarit Máls og menningar
hann hefði nokkru sinni séð. Og hann fór reyndar frá glugganum og
hélt á brott titrandi af ekka.
— Hvílík óhamingja, hugsaði hann, ég sem er svo góður, svo
ljúfur . . . þær vilja ekki þiggja vináttu mína. Eg hefði orðið ennþá
betri, ég hefði meira að segja hætt að borða lömb.
En Delphine horfði á úlfinn sem fjarlægðist, höktandi á þrem löpp-
um, ískaldur og sárhryggur. Altekin samviskubiti og vorkunn, kall-
aði hún út um gluggann:
— Ulfur! Við erum ekki hræddar lengur . . . Komdu fljótt að hlýja
þér!
En sú ljóshærðari hafði þegar opnað dyrnar og hljóp á móti úlf-
inum.
— Almáttugur! andvarpaði úlfurinn, en hvað það er notalegt að
sitja við eldinn. Það er svo sannarlega ekki til neitt betra en faðmur
fjölskyldunnar. Það hélt ég líka alltaf.
Hann horfði á telpurnar sem héldu sig feimnar frá honum og augu
hans voru rök af ástúð. Eftir að hafa sleikt særðu loppuna, snúið
kviðnum og bakinu til skiptis að hitanum frá eldstónni, fór hann að
segja frá. Telpurnar færðu sig nær til að heyra ævintýrin um refinn,
íkornann, moldvörpuna og skógarkanínurnar þrjár. Sum þeirra voru
svo fyndin að úlfurinn varð að endurtaka þau tvisvar eða þrisvar
sinnum.
Marinette var strax búin að taka um hálsinn á vini sínum og
skemmti sér við að toga í oddmjó eyrun hans og strjúka feldinn á
honum fram og aftur. Delphine tók sér lengri tíma til að venjast
honum og í fyrsta skipti sem hún lék sér að því að stinga litlu
hendinni sinni upp í ginið á úlfinum, gat hún ekki stillt sig um að
segja: ^
— Uff! en hvað þú ert með stórar tennur . . .
Ulfurinn varð svo vesæll á svipinn, að Marinette faldi höfuð hans í
örmum sínum.
Þó að úlfurinn væri glorsoltinn var hann svo kurteis að hann
minntist ekki á það einu orði.
— Það sem ég get verið góður, hugsaði hann glaður, það er hreint
ótrúlegt.
Þegar hann hafði sagt margar sögur, stungu telpurnar upp á að
hann kæmi í leik.
304