Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Page 46
Tímarit Máls og menningar
vill. Vinsældir þessarar afþreyingar benda líka til að það sé nokkuð rétt. Það
er erfitt, ef ekki bara illmögulegt að hrekja það. Ef maður gerir tilraun til að
gagnrýna þessa stefnu í populisma liggur í loftinu ásökunin um að maður
þjáist af menningarsnobbi og vilji „þunga“ menningu og leiðindi.
Lausnin er ekki bara að láta allt flakka og vona síðan hið besta. Og fyrir
ríkið að einblína á að reyna að vera útvarp allra landsmanna. Þá getur ekki
nema það versta orðið ofan á, einhæf og einlit þjóðarmenning undir stjórn
erlendra dagskrárframleiðenda. Þjóðarmenning verður að skapast að innan,
ekki að utan, og ekki vera undir því komin hvort nýjasti þátturinn í
einhverri sápuóperunni hafi náð til landsins í tæka tíð fyrir útsendingu.
Hefði ekki verið nær, í stað þess að aflétta einokun, að beina meira
fjármagni í uppbyggingu innlendrar dagskrárgerðar og styrkja byggðarlög
og bæjarfélög til að stofna sínar eigin stöðvar? Svo hefðu ríkisfjölmiðlarnir
getað keypt þætti og efni af þessum svæðisbundnu stöðvum. Þessi möguleiki
hefði jafnvel ýtt undir fólk að búa til áheyrilegt og spennandi íslenskt efni.
En kannski er þetta ekki það sem FOLKIÐ vill?
1. Alþingistíðindi 1928, 6. hefti, bls. 1646.
2. Stefán Jón Hafstein: The Icelandic Television. London 1979, bls. 33.
3. Alþingistíðindi 1939 B, 6. hefti, bls. 1721.
34