Tímarit Máls og menningar - 01.02.1987, Page 102
Tímarit Máls og menningar
staðhæfing er varla í fullu samræmi við textann. Að vísu segir Salka við
Arnald eftir síðustu ástanótt þeirra: „Nú ætla ég að leysa þig úr viðjum.“
(II, 356) En það er ekki fyrr en hún er orðin sannfærð um að Arnald langar
að yfirgefa hana og fara til Kaliforníu. Hann hefur sem sé kynnst efnuðu
fólki þaðan sem leiðsögumaður þess á Islandi - kannski ekki síst glæsilegri
skáldkonu og ritstjóra „fyrir einu stærsta málgagni amerískra dýraverndun-
arfélaga“ (347).
Að breyttu breytanda er margt furðu líkt með þeim Arnaldi og Steini
Elliða. Það sem Guð og kaþólsk kirkja er Steini, er „hugsjón sameignar-
stefnunnar“ Arnaldi. Um einstaklingana, um menn hér og nú, kæra þeir sig
lítt. Að lokum segja þeir skilið við konur þær sem elska þá einlægt og
skilyrðislaust. Báðum er sameiginleg sú list að tala sig með lipru tungutaki
frá ábyrgðinni gagnvart þessum konum, þó að Steinn geri það á öfgafullan
og ruddalegan hátt, en Arnaldur sé nærgætnari, eða ísmeygilegri. Bakvið
allar rökræður, allan orðaflauminn, virðast þeir hugsa einungis um sjálfa sig.
Síðari hluti sögunnar, Fuglinn í fjörunni, hefur undirfyrirsögnina „Pólit-
ísk ástarsaga". Og það er mikið tal um pólitík og bjarta framtíð handa fólk-
inu í sögu þeirra Arnalds og Sölku Völku. En þegar líður að lokum lendir
ástin í brennidepli.
Heildin og einstaklingurinn eru tvö skaut, og togast á. Arnaldur, hug-
sjónamaðurinn, er alltaf með heildina í huga og reynir að samlaga sig henni.
Einu sinni ögrar Salka honum með því að bera hann saman við Steinþór:
- Steinþór er miklu meiri en þú. Hann er manneskja eins og ég, hvar sem
hann fer og flækist. Þú ert bara kenning, og það villukenning ofan í kaupið.
Hvenær gæti það komið fyrir þig að hafa mannlegar tilfinningar gagnvart
nokkurri einstakri sál?
En Arnaldur svarar kæruleysislega: „Hamingjan forði mér frá því, sagði
hann. Á þeirri stund mundi ég vera glataður maður. Ég er óaðskiljanlegur
mergðinni. Eg er eins og fuglinn. . .“ Og Salka: „Héld þú ættir að fara þarna
niður í fjöruna og garga með kríunni." (194) En Arnaldur veit reyndar vel
að það er sitthvað að vera einstaklingur og hluti af heildinni: „það er erfitt
að vera manneskja, - erfiðast þó að venja sig af því að hugsa og finna til eins
og einstaklingur. . .“ „Það virðist næstum óskiljanlegt, hélt hann áfram, að
maður skuli vera skapaður einstaklingur, en eiga þó að sigra eða bíða ósigur
sem heild.“ (198)
Að vera einstaklingur er að vera einn. Það má segja að það sé eitt
mikilvægasta þema sögunnar. Þegar sem lítil stelpa í fyrri hlutanum finnur
Salka Valka til einmanaleika í sambandi við móður sína, sem stendur henni
þó líffræðilega allra manna næst: „tvær sálir geta verið svo fjarlægar hvor
90