Tímarit Máls og menningar - 01.06.1987, Blaðsíða 9
Fyrir fjörutíu árum
Anonymus í Tímaritinu á þessum árum og síðan þýðingasafnið Annar-
legar tungur undir sama dulnefni. Jóhannes lagði ríkt á við mig að eng-
inn mætti vita hver höfundurinn væri. Kristinn vissi þaðþó líka, og mig
minnir að Hafsteinn Guðmundsson prentsmiðjustjóri í Hólum hafi vit-
að það eða að minnsta kosti haft um það rökstuddan grun. En við þögð-
um allir, og leyndarmálið komst ekki upp fyrr en löngu síðar þegar Jó-
hannes birti það sjálfur, og hafði þó ekki skort misjafnlega gáfulegar get-
gátur um höfundinn. Sannaðist þá að ekki er ævinlega víst að þjóð viti þá
þrír vita.
Tvær ljóðabækur aðrar eru mér eftirminnilegar frá þessum árum.
Önnur var raunar fyrsta félagsbókin sem ég las af prófarkir og kom í
gegnum prentsmiðju, en það var Ljóð frá ýmsum löndum, úrval úr þýð-
ingum Magnúsar Ásgeirssonar, sem hann hafði sjálfur valið, en Snorri
Hjartarson samdi við merkilegan formála. Ég man að prófarkalesturinn
olli mér áhyggjum, því að Magnús var þá úti í Danmörku og skilaði ekki
próförk í tæka tíð. Enda kom það honum í koll, því að meinleg villa sem
var í handriti hans slapp í gegnum allar prófarkir, þar sem enginn gat
varast hana nema hann sjálfur. Hin ljóðabókin sem ég hafði afskipti af
var Úr landsuðri eftir Jón Helgason í annarri og breyttri útgáfu. Hún
varð vinsælasta ljóðabók sem Mál og menning hefur gefið út, var endur-
prentuð tvisvar óbreytt og allt efni hennar loks tekið upp í Kvæðabók
Jóns sem út kom í fyrra.
Hér skal staðar numið að minnast á þær bækur sem félagið gaf út á
þessum árum, og ekki verða hér heldur taldir þeir höfundar og þýðendur
sem þar lögðu hönd að verki. Flestir þeirra urðu kunningjar mínir góðir,
sumir nánir vinir um langan aldur, en hópur þeirra er nú heldur en ekki
farinn að þynnast. Sama er að segja um þá sem með mér sátu í stjórn Máls
og menningar á þessum árum; af þeim er Halldór Laxness nú einn ofar
moldu. En gott var að eiga þá að samferðamönnum bæði þá og síðar.
Svo fór að lokum að tognaði úr vist minni hjá Máli og menningu frek-
ar en ráð var fyrir gert í upphafi. Kristinn lét af ritstjórn Þjóðviljans í
mars 1947 og fór skömmu síðar utan til þess að fá næði til að ljúka við
bókmenntasögu sína. Um sumarið veiktist hann hættulega og var lengi
óvinnufær. Heimkoma hans dróst því fram á haustið 1948, og var ekki
um annað að ræða en að ég héldi áfram í sama horfi. Hinsvegar hafði það
gerst á árinu 1947 að ég var ráðinn að Orðabók Háskólans og hafði sagt
upp stöðu minni í Kaupmannahöfn, og því var mér ekkert að vanbúnaði
7