Tímarit Máls og menningar - 01.06.1987, Blaðsíða 22
Tímarit Máls og menningar
fjörur, skoða fuglabjörg, kanna brennisteinsnámur, yfirheyra presta um
fornleifar, rannsaka rúnaletur, leita kola og surtabrands, athuga með
uppsetningu á vatnsmyllum, koma á laggirnar veðurstofu — hann yrkir
ekki bara laglega um veðrið heldur leggur hann grunn að veðurathugun-
um um gervallt land og gerir annan hvern prest á landinu vitlausan með
því að senda þeim hitamæla og láta þá færa veðurbækur. Milli þess sem
hann þýðir kvæði eftir Schiller og Heine kryfur hann kútmaga og kropp-
ar erni en „þess á milli að yrkja „Hulduljóð"; það verður fallegt kvæði."
(Bréf til Konráðs, 1841)
Það var Jónas sem skapaði þann Ijóðahimin og þá ljóðajörð og þau
ljóðamið sem eru okkar. Fyrir vikið fínnst okkur hann koma fram á
morgni þjóðlífsins, á undan hafi verið myrkur og óskapnaður en næsti
dagur þar á undan voru fornsögurnar. Með Jónasi rennur nýr dagur — í
alnæmi þessa snillings býr náttúra landsins, lifandi og dauð og ástin og
sorgin — hann er viðtækið sem útvarpar þessum höfuðskepnum í vitund
landsmanna. Af viðlíka öryggi og hásumardagur ryður hann sér til rúms,
skýlaus og endalaus.
Það sem hrífur Kristin í fari Fjölnismanna er hugsjónaeldurinn, þessi
hæfileiki að hlaðast orku fyrir tilstilli málstaðar og umbreyta henni í
verknað:
. . . það er hugsjónaeldurinn sem gefur verkunum gildi, glóðin í
hjartanu, og þegar sá eldur kulnar, þornar brjóstið og verkin missa logann
og lífið, og visna sjálf eða verða eins og kaldir steinar og hræra ekki nokk-
urs manns hug. Sá er leyndardómur hugsjónarinnar og hins brennandi
hjarta. (Ræða á aldarfjórðungs afmæli MM 1962)
Og hugsjónir Fjölnismanna taka til allra af því þeir koma fram á þessu
heillandi augnabliki ferðarinnar þegar hún er öll í hönd og allt er snurðu-
laust eins og í leiðarvísi.
Andi Fjölnismanna er sístæður því þegar kemur til kjarnans snýst
hann um að finna upphafsorku íslenskrar menningar farvegi í samtíman-
um og grundvalla frjálst og rismikið mannlíf. Að hætti Eggerts Ólafs-
sonar álitu þeir að það væru ekki fyrst og fremst ytri orsakir sem höml-
uðu hámarkinu, heldur allsendis huglægar skepnur: deyfð og drungi
sem hver tíð yrði að blása burt með sínum lúðurhljómi.
20