Morgunblaðið - 12.12.2014, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. DESEMBER 2014
ævi. Sjálfstæður var hann og fór
sínar eigin leiðir allt til dauða-
dags. Þegar ég hugsa um það líf
sem hann lifði og það sem hann
gerði þá fyllist ég stolti og auð-
mýkt miðað við hvernig tímarnir
eru í dag.
Elsku afi, það er komið að
kveðjustund. Ég og fjölskyldan
mín þökkum þær samverustundir
sem við áttum saman.
Það friðar, gleður, léttir lund
og lokar hjartans undum,
að eiga’ í hug sér helgan fund,
með horfnum ævistundum.
(Ágúst Böðvarsson)
Einar Aðalsteinn,
Eyrún og börn.
Hann nafni minn, langafi og
vinur er látinn. Það er víst nú sem
leiðir okkar skilur. Á þessari
kveðjustund fyllist hugur minn
þakklæti og ég hugsa til tímanna
og minninganna sem við áttum
saman. Þú hafðir heldur betur lif-
að tímana tvenna, nærvera þín
var hlý, þú varst hress, víðlesinn
og mikill viskubrunnur.
Ég man þegar við horfðum
saman á skipasiglingarnar á Nrk
um norska firði í rólegheitunum,
þú fræddir mig um landafræði,
bauðst mér súkkulaðirúsínur og
sagðir mér sögur frá því í gamla
daga og það var líkt og heimurinn
stöðvaðist, ekkert annað skipti
máli en stundin, hér og nú. Og í öll
hin skiptin sem við ræddum um
daginn og veginn og lífið í gamla
daga.
Að leiðarlokum er mér efst í
huga forréttindi og virðing fyrir
að hafa átt að langafa mann sem
lifði mestu umbreytingatíma sem
yfir land og þjóð hafa gengið.
Ég kveð þig með hlýhug og
söknuði, elsku langafi. Ég veit að
langamma tekur þér fagnandi.
Hve ljúft og gott að sofna í sælli trú
á sigur þess er firrir lífið grandi.
Ég veit að einmitt þannig kvaddir þú
– þín þrá var eins og morgunn yfir landi.
Og ég sé best í húmi haustsins nú
hve heiðríkur og fagur var þinn andi.
(Jóhannes úr Kötlum)
Jón Hlífar Aðalsteinsson.
Það er vafalítið rétt að reynsla
bernskuára getur sett mark sitt á
fólk og fylgt því allt lífið.
Móðurbróðir minn Jón Einars-
son, smiður á Neskaupstað, er lát-
inn, 94 ára að aldri. Móðir mín
Helga Einarsdóttir, tveimur ár-
um yngri, lifir bróður sinn. Örlög-
in höguðu því þannig að tveggja
og fjögurra ára voru þau systkinin
aðskilin og umgengust ekki um
árabil. En á unglingsárum hittust
þau aftur og eftir það voru þau
alla tíð mjög náin. Hvort heldur
það voru árin sem þau misstu eða
annað sem réði því þá var afar
kært þeirra á milli og þau ákaf-
lega samrýmd allt til hins síðasta.
Nú syrgir Helga bróður og einn
sinn besta vin.
Vináttutengslin náðu einnig til
maka þeirra, Þorbjargar Vil-
hjálmsdóttur og Odds Sigur-
bergssonar. Það þótti ávallt mikið
tilhlökkunarefni þegar von var á
Jóni og Þorbjörgu suður. Þá áttu
þau fjögur góðar stundir saman,
vandað var til matar og drykkjar
og glatt á hjalla. Það var spjallað
og skemmt sér og lítt hugað að
klukkunni þó áliðið væri.
Jón Einarsson bar með sér
reisn og fágun menntaðs manns í
besta skilningi þess orðs. Maður-
inn minn lét þau orð falla eftir
fyrstu kynni af Jóni að hér færi ís-
lenskur aðalsmaður. Jón átti
mörg áhugamál. Hann var ljóð-
elskur og þekkti og kunni skil á
ógrynni ljóða. Hann var fróðleiks-
fús og fylgdist vel með, næmur á
umhverfi sitt og samfélag. Hann
hafði sérstaka ánægju af því að
ferðast, fræðast og kynnast fólki
og ræða við það á sinn sérstaka yf-
irvegaða hátt. Hann var vinmarg-
ur og hélt þeim góða sið að heim-
sækja oft vini sína og vandamenn.
Til góðra vina liggja gagnvegir.
Sérlega minnisstæð er ferð
með þeim hjónum um sveitirnar
fyrir austan, þaðan sem þau
systkinin Jón og móðir mín eru
ættuð og hann átti sín bernskuár.
Í þeirri ferð var komið við í kaffi í
eldhúsinu á Skriðuklaustri og set-
ið þar á bekkjum sem Jón hafði
smíðað löngu fyrr sem ungur
maður. Hann strauk sínum fag-
mannshöndum um smíðisgripina
og sá að allt var eins og fyrr. Ljóst
var að hagleiksmaður hafði þar
vandað til verka eins og Jóns var
von og vísa.
Í þessari dagslöngu bílferð
fræddi Jón okkur um margt frá
fyrri tíð. Þá röðuðust saman í
huga mér staðir og sögubrot úr
æsku þeirra systkina sem ég er
afar þakklát fyrir.
Nú er þessi góði frændi minn
horfinn á braut. Ég mun ekki
framar finna þétt og hlýtt hand-
tak hans né ljúft klapp á öxlina.
En minningar lifa. Fyrir hönd
móður minnar og fjölskyldu sendi
ég þeim systrum Margréti og
Kristínu Björgu og öðrum ætt-
ingjum innilegar samúðarkveðj-
ur.
Margrét Oddsdóttir.
Þegar ég minnist uppvaxtarára
minna í Neskaupstað kemur í
hugann orðtakið að það þurfi heilt
þorp til að ala upp barn. Auk
góðra foreldra naut ég velvildar
og tilsagnar fjölda fólks sem lét
sig hag minn varða. Ég varð
þeirrar sérstöku gæfu aðnjótandi
að í nágrenni við æskuheimili mitt
bjuggu þrjár föðursystur mínar
með fjölskyldum sínum og var
mikill samgangur milli frænd-
fólksins. Ein systranna var Þor-
björg Vilhjálmsdóttir sem var gift
Jóni S. Einarssyni, og á neðri
hæðinni hjá þeim bjuggu Einar og
Björg, faðir hans og stjúpmóðir.
Ég á hlýjar bernskuminningar úr
þessu húsi þar sem ég mætti alltaf
mikilli væntumþykju. Við Rúnar
bróðir minn vorum stundum kost-
gangarar í Miðgarði 3 ef mamma
og pabbi fóru að heiman. Þar
lærðum við til dæmis að lesa með
bandprjónsaðferð Bjargar. Á
unglingsárunum fékk ég bygging-
arvinnu hjá Jóni sem var umsvifa-
mikill og farsæll húsasmíðameist-
ari á þessum árum í Neskaupstað.
Fyrst í stað var ég í smávægileg-
um verkum á trésmíða-
verkstæðinu sem Jón hafði byggt
sér skammt frá heimili sínu. Þar
áttum við Jón oft góðar stundir
tveir saman sem standa mér nú
fyrir hugskotssjónum; lyktin af
ferskum hefilspæni og sagi kveik-
ir á minningunni. Jón var hlýr
maður og rólegur í fasi, yfirveg-
aður, oft alvörugefinn en þó stutt í
kímnina. Þéttur á velli, þéttur í
lund. Það var alla tíð gott og
traustvekjandi að vera í návist
hans.
Það var steinsnar á milli heim-
ilis þeirra Jóns og Þorbjargar og
foreldra minna. Jón hafði þann sið
í áraraðir að ganga við hjá þeim,
einkum á laugardagsmorgnum.
Þá var drukkið kaffi og spjallað í
eldhúskróknum. Þessar heim-
sóknir voru þeim ánægjuefni en
urðu mömmu ekki síður dýrmæt-
ar eftir að pabbi dó 2005. Mamma
og Jón höfðu bæði alist upp á Hér-
aði við kröpp kjör og verið sam-
tímis á Ketilsstöðum á Völlum á
fjórða áratugnum. Þau deildu því
minningum um margt. Eftir að
mamma flutti til Egilsstaða og
síðar Fáskrúðsfjarðar var það
fastur liður í ferðum mínum aust-
ur að við heimsóttum Jón á Norð-
firði. Við ræddum gjarnan þjóð-
málin sem hann fylgdist vel með
og hafði vel ígrundaðar en varkár-
ar skoðanir á. Fyrr á árum var
Jón virkur í bæjarmálum og
gegndi trúnaðarstörfum fyrir
Framsóknarflokkinn í Neskaup-
stað. Ekki varð ég þess var í sam-
tölum okkar að hann fylgdi flokks-
línu enda var hann málefnalegur
og íhugull. Jón var ákaflega ern
og hélt fullu minni og dómgreind
alla tíð. Hann var vel lesinn og
upplýstur og mér virðist sem
hann hefði verið vel til fræði-
mennsku fallinn.
Jón missti konu sína, Þor-
björgu, 2007 eftir langt og farsælt
hjónaband. Nú þegar Jón er fall-
inn frá er mamma ein eftirlifandi
af því frændfólki sem samanstóð
af systkinunum frá Hátúni og
mökum þeirra á Norðfirði. Kyn-
slóðin sem myndaði umgjörð
bernskunnar er að hverfa. Það er
sannarlega þakkarvert að hafa
fengið að njóta þessa góða fólks í
uppvextinum. Jón skipar þar stór-
an sess enda hef ég notið velvildar
hans alla mína ævi. Þorpið sem ól
mig upp verður fátækara að hon-
um gengnum. Blessuð sé minning
Jóns Einarssonar.
Vilhjálmur Árnason.
Jón Sigfús Einarsson var þétt-
ur á velli, þéttur í lund, gegnheill
maður og grandvar. Jón var
kvæntur föðursystur minni, Þor-
björgu Guðríði Vilhjálmsdóttur
frá Hátúni á Nesi í Norðfirði. Það
má því með sanni segja að Jón
hafi orðið einn af fjölskyldu Há-
túnssystkina, sem heldur hefur
fækkað í.
Í minningu minni er Jón stór
og sterkur, ég hændist að honum
þegar ég fékk að fara á Norðfjörð,
stundum fannst mér ég vera son-
ur hans og að ég ætti að fara í iðn-
nám hjá honum. Þau hjón Jón og
Þorbjörg voru gestrisin í meira
lagi og trygg sínum. Í húsinu
þeirra bjuggu foreldrar Jóns, þau
Björg og Einar, Björg var fóst-
urmóðir Jóns, og amma allra
barna í fjölskyldunni. Svo var
einnig í húsinu Sigurður bróðir
Þorbjargar. Húsið stóð lengi eitt
við Miðgarð. Ýmsum þótti rétt að
kalla húsið Miklagarð. Gestrisni
Jóns hélt áfram eftir að Þorbjörg
var dáin. Hann fylgdist vel með
mér ef ég var á ferð um Austur-
land og vildi að fjölskyldan liti við.
Stundum vorum við samsíða í að
hittast, það kom fyrir að Jón
hringdi þegar fjölskyldan var
komin í mitt Oddskarð. En það
var einmitt Oddskarðið sem Jón
vildi losna við, hann beið spenntur
etir Norðfjarðargöngum
Jón var stoltur iðnaðarmaður,
stoltur af verkum sem standa,
eins og Gunnarshúsi sem hann
kom að ungur maður, smíðaði
stóra borðið í veitingastofunni,
sjúkrahús, Netagerðina og ótal
íbúðarhús.
Faðir minn og Þorbjörg voru
samsíða í barnahópnum. Víst er
að þau bundust miklum vináttu-
böndum, enda tryggð mikil meðal
Hátúnssystkina. Móðir mín einn-
ig féll inn í þennan hóp. Þegar þau
Bjarni og Þorbjörg voru dáin hélt
Jón mikilli tryggð við móður mína
þar til hún féll frá úr algleymi
sínu.
Ég minnist ferðalaga þeirra
hjóna og fleiri úr systkinahópn-
um. Þær ferðir voru hátíðir, hvort
heldur innan lands eða utan, í
Skagafirði þar sem Steingrímur
bróðir þeirra bjó, í Reykjavík eða
Djúpavogi þar sem Sigfinnur og
Valgeir bjuggu, eða í afmælum
systkinanna.
Jón var alltaf vel akandi, fór vel
með sína bíla og hefur orðið mér
fyrirmynd í þeim efnum.
Þó Jón hafi gengið inn í stóran
systkinahóp átti hann líka systk-
ini. Ég hef aldrei talið mig lista-
ljósmyndara en ávallt er ég stolt-
ur af mynd af Jóni með Helgu
systur sinni. Í myndinni skín í
gegn systkinaþel. Enda voru
Helga og Oddur stundum með í
Hátúnsfjölskyldu.
Að leiðarlokum þakka ég Jóni
alla tryggð við foreldra mína og
þess sem ég fékk að njóta hjá hon-
um og Þorbjörgu, frænku minni.
Verði Jón Sigfús Einarsson
Guði falinn og minningin um hann
heiðrist í vitund þinni.
Vilhjálmur Bjarnason.
Fréttin af láti Jóns Einarsson-
ar kom ekki alveg óvænt. Af hon-
um hafði dregið síðasta árið og
kraftar voru á þrotum. Hann hélt
þó sínu andlega atgervi til hins
síðasta.
Vinskapur okkar Jóns er orð-
inn langur. Þegar ég kom fyrst til
Norðfjarðar fyrir rúmum fjörutíu
árum kynntist ég honum fljótlega.
Margrét dóttir hans og Elín
Kristjana kona mín voru æskuvin-
konur. Við Jón höfum síðan átt
margar góðar stundir saman.
Hátt ber ferð um Vöðlavík og Við-
fjörð undir leiðsögn hans og Þor-
bjargar konu hans fyrir mörgum
árum. Það var góð kennslustund í
sögu héraðsins. Síðustu þrjá ára-
tugi hef ég svo átt margar ferðir á
Norðfjörð. Aldrei hef ég farið þar
um án þess að heimsækja þau
hjón og síðan hann eftir lát Þor-
bjargar. Jón var skemmtilegur
maður og viðræðugóður. Hann
var vitur og lífsreyndur. Hann átti
erfiða æsku en braust áfram af
eigin rammleik og dugnaði, og
komst vel af. Meðan Þorbjörg lifði
varð hver heimsókn að veislu með
ríkulegum veitingum. Þessari
reisn hélt Jón eftir lát Þorbjargar.
Honum var höfðingsskapur og
snyrtimennska í blóð borinn. Jón
hafði alla tíð brennandi áhuga á
málefnum líðandi stundar og vildi
hag Norðfjarðar og Austurlands
sem mestan. Hann fylgdist vel
með öllu og hafði á því skoðanir
sem hann hélt fram af hógværð og
festu.
Jón var svo lánsamur að geta
búið í sama húsinu í yfir sextíu ár.
Fyrir aðeins rúmu ári síðan flutti
hann í Breiðablik, íbúðir aldraðra,
og undi hag sínum þar vel meðal
gamalla vina sinna. Hann náði 94
ára aldri. Langri og farsælli ævi
er nú lokið.
Við hjónin viljum þakka fyrir
það, að hafa átt þennan góða, heil-
steypta mann að vini.
Blessuð sé minning Jóns Ein-
arssonar.
Gizur og Elín Kristjana.
Fyrstu kynni mín af Jóni S.
Einarssyni húsasmíðameistara
voru þegar ég sótti um sumar-
vinnu hjá honum árið 1968 þá 15
ára gamall. Jón tók vel í þessa
beiðni og vann ég hjá honum á
sumrin og var síðan á samningi
hjá honum frá 1971 til ársins 1975
þegar ég flutti til Reykjavíkur um
haustið. Jón reyndist mér góður
kennari og uppalandi. Á þessum
fyrstu árum kynntist ég einnig
Einari, föður Jóns. Hann reyndi
að innprenta okkur strákunum að
nýta gamalt efni í stað þess að
henda því, en á þessum árum
höfðum við ekki skilning á þessu.
Ég tel að það hafi verið forrétt-
indi að læra hjá húsasmíðameist-
ara eins og Jóni þar sem við feng-
um að kynnast því að steypa upp
hús yfir sumartímann og smíða
innréttingar yfir vetrartímann.
Jón átti verkstæði með góðum
vélum og búnaði.
Hlýjar minningar koma upp í
hugann þegar ég hugsa til kaldra
vetrardaga og búið var að kveikja
upp í kamínunni á verkstæðinu
með spæni og spýtnaafgöngum.
Jón kenndi okkur að brýna spor-
járn og hefiltennur og ég dáðist
alltaf að því þegar hann endaði á
því að strjúka tönninni eftir lóf-
anum til að fá sem best bit í hana.
Ef vélar voru ekki í gangi var út-
varpið haft á. Jón fylgdist vel með
fréttum og menningarlegu efni í
útvarpinu. Ef einhver söngvari
sem hann hafði dálæti á var að
syngja í útvarpinu þá sagði hann
„Nú fáum við okkur sæti og hlust-
um“. Ég hef í seinni tíð litið á
þetta sem ákveðinn uppeldislegan
þátt í náminu hjá honum.
Þegar ég hef komið í heimsókn
til Neskaupstaðar þá hefur það
verið fastur liður að heimsækja
Jón til að rifja upp gamla tíma og
ræða bæði bæjarmálin og þjóð-
málin. Jón fylgdist vel með öllu,
bæði bæjarmálum og þjóðmálum.
Einnig hafði hann áhuga á að
fylgjast með því sem ég var að
fást við og hvernig gengi.
Ég þakka fyrir allar þær góðu
minningar sem nú streyma fram
þegar ljóst er að Jón er ekki leng-
ur meðal okkar. Þessar góðu
minningar munu lifa áfram svo
lengi sem ég lifi.
Sigurður Guðjónsson.
Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar,
tengdafaðir, elskulegur afi og langafi,
EINAR ÓLAFSSON,
fyrrv. skipstjóri og útgerðarmaður,
Smáragötu 9, Vestmannaeyjum,
andaðist sunnudaginn 30. nóvember.
Hann verður jarðsunginn frá Landakirkju
laugardaginn 13. desember kl. 14.00.
Blóm vinsamlegast afþökkuð en þeim sem vilja minnast Einars
er bent á líknarfélög.
.
Viktoría Ágústa Ágústsdóttir,
Ólafur Ágúst Einarsson, Halla Svavarsdóttir,
Agnes Einarsdóttir, Kári Þorleifsson,
Viðar Einarsson, Dóra Björk Gunnarsdóttir,
Hjalti Einarsson, Dagmar Skúladóttir,
afa- og langafabörn.
✝
Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur
samúð og hlýhug vegna andláts og útfarar
eiginmanns míns, föður, tengdaföður, afa og
langafa,
ÓSKARS KATÓS AÐALSTEINS
VALTÝSSONAR.
Þökkum starfsfólki Dalbæjar fyrir frábæra
umönnun.
Soffía Guðmundsdóttir,
Guðmundur Óskarsson, Arna Hafsteinsdóttir,
Rakel Óskarsdóttir, Gunnar Guðmundsson,
Þóra Óskarsdóttir, Haukur Jónsson,
Óskar Óskarsson, Anna Jóhannesdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Innilegar þakkir fyrir samúð og hlýhug við
andlát og útför eiginkonu minnar, móður
okkar, ömmu, langömmu og
langalangömmu,
LÚLLEYJAR ESTHERAR
LÚTHERSDÓTTUR.
Fyrir hönd fjölskyldunnar,
.
Hallur Jónasson.
✝
Ástkær sonur minn, bróðir okkar, mágur
og frændi,
SIGURGEIR I. SIGURÐSSON,
Bárðarási 14,
Hellisandi,
varð bráðkvaddur á heimili sínu
miðvikudaginn 10. desember.
Hann verður jarðsunginn frá Ingjaldshólskirkju
fimmtudaginn 18. desember kl. 14.00.
Fyrir hönd aðstandenda,
Steinunn R. Kristjánsdóttir.
✝
Okkar ástkæri
JÓHANNES S. PÁLSSON
frá Furubrekku,
Staðarsveit,
Arnarheiði 13a,
Hveragerði,
lést á hjúkrunarheimilinu Ási Hveragerði
miðvikudaginn 26. nóvember.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey.
Ástríður G. Jóhannesdóttir, Gunnlaugur Björnsson,
Gísli J. Gíslason, Hólmfríður Skaftadóttir,
Guðmundur Svavarsson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Okkar kæri frændi og vinur,
SIGTRYGGUR SIGURÐSSON
málarameistari,
lést á Landspítalanum þriðjudaginn
2. desember.
Útförin fer fram frá Neskirkju mánudaginn
15. desember kl. 15.00.
Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir.
Systkinin úr Hólmgarði
og vinir.