Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Blaðsíða 84
Njörður P. Njarðvík
Ellin er gul
Leikþáttur fyrir útvarp
Persónur:
Indriði, liðlega sjötugur trésmiður.
Kristín Ólöf, dóttir Indriða, 46 ára, gift kona og tveggja barna móðir.
(Skal aðeins tilgreina við afkynningu).
Leikurinn gerist í íjölbýlishúsi í vesturbænum í Reykjavík snemma
morguns í lok nóvember.
Indriði:
Ekki er nú morgunninn bjartur, kona góð. Slydduhraglandi og kolgrár
himinn. Það er hálfgerð raun að sjá krakkagreyin híma þarna hjá
biðskýlinu. Og strætó náttúrlega á eftir áætlun. Eins og venjulega.
Undarlegt hvað hann þarf alltaf að vera seinn. Af hverju breyta þeir
ekki þessari áætlun, úr því að vagninn er alltaf svona seinn? Það mætti
nú halda að þeir gætu það. Krakkagreyin koma hundblaut í skólann.
Og svo þessar fáu konur. Konur og krakkar. Það er fólkið strætisvagns-
ins. Bíðandi og blautt. Hún gustar vestanáttin og smýgur ónotalega í
gegnum mann. Ég ætti að þekkja það.
Þá er nú betra að vera hérna fyrir innan stofugluggann. Ekki þarf
ég að fjandast í neina vinnu í dag. Og ekki á morgun. Og aldrei meir.
Bara sitja hérna hátt uppi og horfa út yfir morguninn eins og merk-
ismaður. Verst að ráða hvorki yfír veðrinu né strætisvagninum. Þá
gengi þetta nú betur, ef ég fengi að ráða, kona góð. Heyrirðu það?
Kristín? Ertu ekki farin að rumska, Kristín mín? Það á þó að heita
að kominn sé morgunn, þótt dimmur sé hann, Drottinn minn. (Brýtiir
raustina): Kristín mín! Á ég ekki að fara að koma með kaffið inn til
þín? Ha? Ertu nokkuð með verra mótinu í dag? (Röddin verður smám
saman eðlileg aftur): Ég er búinn að laga þetta fína kaffi. Sjóðheitt og
82
TMM 1996:4