Ólafía : rit Fornleifafræðingafélags Íslands. - 01.05.2012, Síða 158
rannsóknum sínum hefur Marilyn
Strathern (1981) raunar bent á það að
greftrunarathafnir minnist hins látna oft
í gegnum einingu (e. reconfiguration)
hans. Það er að segja með því að
sameina í eina heild þá hluta sem
fullgerðu einstaklinginn í lifanda lífi, og
minnast þannig einstaklingsins og lífs
hans í heild. Í þessu samhengi verður
augljóst, eins og Williams (2004, bls.
263) bendir á, að innihald kumlsins má
ekki aðeins skilja sem gripi og bein, eða
einungis af táknrænum toga. Líta verður
á kumlið sem virka, efnislega heild sem
hefur úrslitaáhrif á þá þætti í
persónuleika hins látna sem kosið er að
minnast annars vegar og gleyma hins
vegar.
Fullyrða má að allir hlutar
grafarmengisins voru færðir á
greftrunarstaðinn af lifendum. Hins
vegar má á sama tíma fullyrða að allir
lifenda voru kallaðir þangað af hinum
látna. Þess vegna er ótækt að hugsa um
hann, eða haugféð, sem dauða og óvirka
hluti. Allir báru þeir með sér ákveðna
lífssögu og ákveðið tengslanet sem náði
langt út fyrir augnablik greftrunar í tíma
og rúmi. Auk þess mætti ætla að sumir
fágætari gripa kumlasafnsins hafi verið
þekktir, jafnvel undir nafni, og orðspor
þeirra og lífsskeið verið mönnum
kunnugt. Hið sama hefur átt við um
fórnardýr. Sú staðreynd að slíkir gripir
virðast ekki hafa verið á hverju strái
getur aðeins styrkt slíka tilgátu. Það er
að segja að gripir og dýr voru ekki
aðeins til staðar heldur voru þeir þekktir
og sögu þeirra minnst. Í því samhengi
er auðvelt að ímynda sér hvernig val
gripa (minni) og útilokun annarra
(gleymska) hefur haft áhrif á það mengi
sem framsett var og það minni sem
vakið var (Williams 2005, bls. 254).
Mikilvægi haugfjár í opinni gröf
hefur því ekki aðeins verið af
táknrænum toga. Þótt vissulega hafi
mátt tjá og undirstrika þætti eins og
vald, stöðu og kyngervi með notkun og
staðsetningu ákveðinna hluta á eða í
nálægð við líkama hins látna, var tilvera
þessara hluta ekki táknræn heldur
raunveruleg. Hið augljósa mikilvægi
hlutarins hefur því ekki aðeins verið
tengt fjarlægri, afstæðri hugmynd um
vald heldur raunverulegri tilveru hans –
þeirri staðreynd að einmitt þessi hlutur
var til staðar, þekktist og vakti
minningar. Í stað þess að líta á hlutinn
eða dýrið í kumlinu sem myndlíkingu
einhvers sem var efnislega ekki til
staðar tel ég að það hafi ekki síður verið
hluturinn sjálfur, og lífssaga hans, sem
gæddi grafarmengið merkingu og þá
efnisminningu sem það skóp.
Lokaorð
Við nánari skoðun er ljóst að hið þráláta
stef um fátækt og einsleitni íslenska
kumlasafnsins er fremur afurð þeirrar
meðferðar sem safnið hefur hlotið í
höndum fræðimanna en raunverulegs
eðlis þess. Merking eða mikilvægi
kumlsins var ekki fólgið í einstökum
þáttum þess heldur í samofinni
efnislegri heild þeirra. Sú aðferð að slíta
þættina í sundur og flokka eftir gerð og
eðli er góð og gild, en ein og sér hefur
__________
158
Fé og frændur í eina gröf
__________
159
Þóra Pétursdóttir
Mynd 4. Kuml 3 á Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal. Í því hvíldi kona, 36-45 ára (Hildur
Gestsdóttir, 1998), og hestur. Hesturinn lá þétt upp að fótum konunnar í óskiptri gröf. Haugfé
fannst bæði í tengslum við konuna og hestinn (Kristján Eldjárn, 1966:37).