Húnavaka - 01.05.1975, Blaðsíða 67
HÚNAVAKA
65
og hefði nú verið gott að hafa Svein þann hörku ræðara, en ekki
Davíð óvanan og þreklítinn. Loksins skreið þó báturinn upp með
bryggju, sem þá var komin í gömlu Skagastrandarvörina og ég
flýtti mér að komast upp á bryggjuna en var næstum dottinn aftur
á bak, þegar ég ætlaði að stíga upp úr bátnum. Ég var í venjuleg-
um sjóstakk, en hann var tvöfaldur og voru ytra og innraborð saum-
að saman að neðan, en nú var svo mikill sjór þar á milli að þetta
var svo þungt að undrurn sætti. Þó komst ég við aðra atrennu upp
og þá tók ég með báðum höndum undir faldinn á stakknum til að
létta mér gönguna, en ég vildi flýta mér að ná tali af einhverjum
til þess að hægt væri að láta vita heim til mín að við hefðum náð
landi og værum yfirleitt heilir á húfi. Ég fór heim að húsi því, er
Olafur Lárusson kaupfélagsstjóri bjó í og barði þar á bakdyr og var
fljótlega lokið upp. Þar var komin Björg Karlsdóttir kona Olafs. Um
leið og hún sá mig hrópaði hún „Guði sé lof“ og með það hljóp hún
inn í húsið. Ég vissi að hún mundi láta vita um okkur og fór því
til baka, og gengum við nú að því að losa bátinn og sýndi það sig
að menn mínir voru með fullum kröftum og ekki hægt að sjá á
þeim að neitt óvenjulega hefði hent þá.
Ég hef þá ekki frá fleiru að segja af því, sem við kemur þessum
fiskiróðri, en vil þó aðeins geta þess að hásetar mínir voru alltaf
æðrulausir og mér mjög samhentir um allt, sem okkur gat verið til
bjargar. Ég vil sérstaklega geta þess að mér fannst Davíð reynast bet-
ur en við hefði mátt búast, þar sem hann þekkti ekkert til okkar
félaga sinna og hlaut því að efast um hvort við værum sæmilega fær-
ir um að sigrast á þeim erfiðleikum er okkur bar að höndum þenn-
an umrædda dag.
Ég get ekki skilið svo við þetta mál að ég ekki segi eitthvað frá
bátnum, sem ég fór þessa sjóferð á. Er þá fyrst að geta þess að hann
var byggður á Sauðárkróki og gerði það maður að nafni Jóhannes
Jóhannesson frá Kleif á Skaga. Hann lærði bátasmíði hjá manni, er
Kristján hét og hygg ég hann hafi verið sunnlendingur. Hann smíð-
aði talsvert af bátum bæði í Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu,
og þóttu það yfirleitt góðir bátar. Þessi bátur, sem hér um ræðir
var byggður fyrir Skúla Sveinsson, sem lengi bjó á Ytra-Mallandi
á Skaga.
Báturinn hét „íslendingur". Ég keypti hann af Skúla veturinn
1923 og reri honum til hákarlaveiða þann sama vetur frá því á góu.