Morgunblaðið - 09.06.2015, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 09.06.2015, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 9. JÚNÍ 2015 Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/ Ríkisstjórninkynnti ígær áætlun sína um að aflétta gjaldeyrishöftun- um sem bráðum hafa verið við lýði í sjö ár. Mikil vinna hefur verið lögð í að binda þannig um hnútana að íslenskt efnahagslíf taki ekki aðra kollsteypu við að höftin verði afnumin. Íslenskt efnahagslíf hefur verið í skjóli hafta og reyndar búið við nokkurn stöðugleika. Höftin hafa hvað sem því líður skaðleg áhrif á efnahagslífið, sem magnast eftir því sem tím- inn líður. Þau veita ákveðna vernd, ekki síst þrotabúunum, sem hafa eins öfugsnúið og það kann að hljóma fengið svigrúm til að ná sem mestu til baka fyrir eignir sínar, en eru um leið eins og spennitreyja fyrir efnahagslífið almennt. Fall íslensku bankanna hafði mikil áhrif á íslenskt efnahags- líf. Íslenska krónan féll um helming og skellurinn var mikill fyrir almenning. Í kynningu á aðgerðunum í gær kom fram að um væri að ræða einhver mestu „gjaldþrot sögunnar á heimsvísu sem leysa þarf úr innan eins minnsta hagkerfis Evrópu með einn minnsta gjaldmiðil heims“. Kom fram á einni glæru að mesta gjaldþrot frá upphafi í Bandaríkjunum, fall Lehman-banka, hefði verið upp á 691 milljarð dollara og sam- svarað 5% af landsframleiðslu þar í landi. Fall íslensku bank- anna þriggja hefði verið upp á 182 milljarða dollara, sem er margföld landsframleiðsla Ís- lands, eða 1.035%. Þessar tölur sýna við hvað hefur verið að eiga. Endurreisn nýju bankanna hefur kostað sitt. Ríkið lagði 213 milljarða króna í endur- fjármögnun þeirra. Vaxta- gjöldin af þessu framlagi ein og sér eru 10 milljarðar króna á ári og einn helsti útgjaldaliður á fjárlögum. Síðan vofir yfir efnahagslíf- inu hin svokallaða snjóhengja, sem fram kom í gær að næmi 1.200 milljörðum króna, sem skiptast í krónueignir slitabúa fallinna fjármálastofnana, kröfur slitabúanna á innlenda aðila í erlendri mynt og aflandskrónur. Fyrstu tveir liðirnir eru samanlagt 900 milljarðar króna. Ljóst er hvað myndi gerast ef þetta fé leitaði allt út úr landinu á sama tíma. Kröfuhafar þrotabúanna hafa hingað til ekki lagt fram viðunandi lausn þannig að unnt yrði að gera þau upp. Stjórn- völd gátu því ekki annað en gripið til sinna ráða. Á kynn- ingunni í gær var talað um tvo kosti. Annars vegar gætu slita- búin fallist á svokölluð stöðug- leikaskilyrði og hefðu frest til þess til áramóta, en ella yrði þeim gert að greiða 39% stöðug- leikaskatt. Eig- endum aflands- króna verður boðið upp á uppboðsleið og endurfjárfest- ingar. Í kynningunni í gær kom fram að ekki kæmi til greina að kröfuhafar gætu vænst þess að hagsmunir þeirra yrðu „efndir ef þeir eru andstæðir grund- vallarhagsmunum þjóðar- innar“. Ljóst var af orðum Sigmund- ar Davíðs Gunnlaugssonar for- sætisráðherra í gær að hann gerir ráð fyrir því að þessar aðgerðir muni skila miklu í ríkissjóð – allt að 900 millj- örðum – hvora leiðina sem kröfuhafar kjósi að fara. Bjarni Benediktsson fjár- málaráðherra sagði að með þessum aðgerðum væru leifar bankahrunsins hreinsaðar upp og hagkerfið opnað fyrir fjár- magnsflutninga: „Útkoman verður betri hagur almennings, sterkari staða ríkissjóðs og stórbætt skilyrði fyrir fyrir- tæki til að vaxa hér og dafna.“ Meðferð þess fjár sem gert er ráð fyrir að heimtist með að- gerðunum skiptir einnig máli. Forsætisráðherra og fjármála- ráðherra boðuðu í gær að féð yrði notað til að grynnka á skuldum þjóðarbúsins um allt að 30%. Það boðar gott því að með slíkum aðgerðum yrði grunnur íslensks efnahagslífs styrktur án þess að eiga á hættu að efnahagslífið ofhitn- aði. Svo gæti farið að kröfuhafar létu reyna á réttmæti aðgerð- anna fyrir dómstólum, en við undirbúning þeirra hefur verið gert ráð fyrir þeim möguleika og verður að ætla að þær séu á traustum lagalegum grunni. Þess utan voru kröfurnar margar keyptar á hrakvirði og munu eigendur þeirra samt fá sitt margfalt til baka. Þeir gætu því séð sér hag í því að fallast á þessi skilyrði frekar en að sitja fastir í lagaflækjum. Afnám hafta er mikilvægasta verkefni þessarar ríkis- stjórnar. Þrátt fyrir stöðug- leika undanfarin misseri hafa hin óuppgerðu þrotabú hinna föllnu banka legið eins og mara yfir efnahagslífinu. Lykilatriði var að áætlun um afnám hafta yrði þannig úr garði gerð að efnahagslífið færi ekki úr skorðum og hvað sem liði áróðri og þrýstingi yrði þess gætt að hagsmunir almennings gengju fyrir. Þetta eru svo mikilvægir hagsmunir að þeir eru hafnir yfir hið hefðbundna stjórnmálaþras og boða við- brögð stjórnarandstöðunnar í gær gott í þeim efnum. Kröfuhöfum settir kostir með hags- muni almennings að leiðarljósi} Ráðist í losun hafta A llir sem eiga – eða hafa átt – uppá- haldslið í fótbolta þekkja þau óskrifuðu lög að maður skiptir ekki um lið. Einhvern tímann á lífsleiðinni velur maður sér lið og heldur tryggð við það, alveg sama hvað. Þeir sem skipta um lið þykja þar af leiðandi ekki ýkja merkilegur pappír, sér í lagi ef þeir skipta um lið þegar á bátinn gefur og halda til lags við sigursælli klúbb í staðinn. Slíkir tækifæris- sinnar uppskera ekkert nema háðsglósur og það réttilega. Einn góður vinur minn hélt hér áður fyrr með Wimbledon, því vitskerta hyski, en skömmu eftir að liðið var gert að Milton Keynes Dons afréð hann að halda með Arsenal. Fyrir bragðið hefur hann oft fengið skömm í hattinn þegar vinahópurinn hittist, þó meira í gamni en alvöru. Öðlingur einn, frændi kon- unnar minnar, heldur með Leeds og mun gera fram í rauð- an dauðann, sama hverju fram vindur innan gafls hjá þessu sögulega fótboltaliði, og það finnst mér smart. Annar fyrr- verandi vinnufélagi minn megnaði ekki að halda lengur með Chelsea eftir leik liðsins gegn Frakklandsmeisturum Paris Saint-Germain í Meistaradeild Evrópu nú í vor. Svo herfilega var honum misboðið af hegðun Chelsea-manna í leiknum að hann sá sig knúinn til að gjöra eftirfarandi kunnugt á Fésbók: „Eftir 30 ár hef ég ákveðið að skilja við þá bláu. Get þetta lið ekki lengur. Innst inni hef alltaf verið rauður enda var það fyrsta liðið sem ég hélt með. YNWA.“ Hér gegnir vitaskuld allt öðru máli því í raun er hann að leiðrétta fyrri flutning milli liða. Það sem gerir sannfæringu hans ennþá fallegri er sú stað- reynd að Chelsea varð Englandsmeistari en Liverpool súnkaði niður í 6. sætið á lokasprett- inum við litla reisn. En svona er boltinn – eng- inn fær umflúið sína sannfæringu. Tilefni til þessara hugleiðinga er það að um daginn fann ég innra með mér þessar sömu kenndir til að skipta. Ég ólst ungur að árum upp í Hlíðunum og hélt því með Val. Rauður var líka eini liturinn sem komst að hjá Liver- pool-manninum mér og var svo um langt árabil. En nú hef ég þrívegis átt lögheimili í Hafnar- firði, síðast á núverandi stað, ég hef átt gull- fallega Gaflaradömu að lífsförunauti í rúm tutt- ugu ár og sonur okkar hjóna æfir með Fimleikafélagi Hafnarfjarðar og er svo eldheit- ur í svart-hvítri FH-trú sinni að ómögulegt er annað en að hrífast af stráknum. Í þriðju umferð Íslands- mótsins í fótbolta þetta sumarið sóttu FH-menn Valsara heim að Hlíðarenda. Fóru leikar svo að rauðklæddir heimamenn báru sigurorð af Hafnfirðingum, 2-0. Þarna kom augnablikið, þegar mér grömdust úrslitin frekar en hitt. Ekki þurfti ég frekari vitnanna við, ég hafði heldur óskað þess að FH sigraði. Það skal því kunngert hér með að ég held með FH í ís- lenska boltanum. Menn verða bara að fussa og sveia ef þeir vilja en ég tel mig hafa til þess fullgildar ástæður og að- stæður. Við getum svo rætt þetta nánar á vellinum. Áfram FH. jonagnar@mbl.is Jón Agnar Ólason Pistill Að skipta um lið STOFNAÐ 1913 Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík. Ritstjóri: Davíð Oddsson Aðstoðarritstjóri: Karl Blöndal Ritstjóri og framkvæmdastjóri: Haraldur Johannessen BAKSVIÐ Skúli Halldórsson sh@mbl.is Sakborningar í ölvunar-akstursmálum skiptast aðverulegu leyti í tvo ólíkaflokka, unga ökumenn og eldra fólk með áfengisvandamál. Er þetta meginniðurstaða rannsóknar sem þingmaðurinn Vilhjálmur Árna- son gerði fyrir meistaraprófsritgerð sína í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. „Annars vegar eru það ungir ökumenn sem hafa ekki áttað sig á alvöru málsins og þeirri hættu sem þeir skapa. Hins vegar er það hópur eldra fólks sem á við áfengis- vandamál að stríða,“ segir Vil- hjálmur. Við rannsóknina greindi Vil- hjálmur gögn lögreglunnar meðal annars eftir vikudögum. „Með þeirri aðferð fann ég út þessa tvo hópa. Um helgar er mikið af ungu fólki á heim- leið af skemmtanalífinu en á virkum dögum er það eldri hópur sem dreif- ist jafnt yfir vikuna, og þá er áfeng- ismagnið töluvert hærra. Þetta eru í raun það ólíkir hópar að erfitt er að finna lausn sem virkar fyrir þá báða.“ Fólk hvatt til ölvunaraksturs Enda finnst engin töfralausn, að sögn Vilhjálms. „Ýmsar breytingar þurfa að eiga sér stað, meðal annars viðhorfsbreyting í samfélaginu gagn- vart ölvunarakstri. Í yngsta aldurs- hópnum sýndu gögnin að vinir við- komandi voru oftar að hvetja til ölvunaraksturs í stað þess að koma í veg fyrir hann, einfaldlega vegna þess að þá vantaði far.“ Eitt helsta vandamálið endur- speglast í því að fólk trúir því ekki að viðurlögum vegna ölvunaraksturs verði komið yfir það, en það kom fram þegar Vilhjálmur tók viðtöl við fólk sem hafði hlotið dóm fyrir ölvunarakstur, til að fræðast um við- horf þess. „Oft áður keyrt fullur og aldrei verið stöðvaður“ „Þá kom í ljós að fólk vissi alveg af viðurlögunum og að það gæti verið svipt ökuréttindum, en það átti ekk- ert von á því að löggan væri staðsett á nákvæmlega þessum stað og stund- um var viðkvæðið að viðkomandi hefði oft áður keyrt fullur og aldrei verið stöðvaður af lögreglu.“ Af og til kemur upp umræða þar sem krafist er harðari refsinga fyrir ölvunarakstur, en Vilhjálmur setur spurningarmerki við þá leið. Nefnir hann að betri lausn kunni að finnast í nágrannalöndunum. „Þar má finna dæmi um að fólk sé dæmt til að sitja námskeið um ölvunarakstur og þær afleiðingar sem hann getur haft í för með sér. Oft er það framkvæmt þannig að fólk sem situr námskeiðið fær vægari viðurlög að öðru leyti. Stundum er námskeiðið þó sett sem skilyrði, en það fer eftir alvarleika brotsins.“ Ölvunarakstur við vínbúðir Vilhjálmur kallar einnig eftir markvissara eftirliti lögreglu, en sjálfur hefur hann starfað sem lög- reglumaður í tíu ár. „Við vínbúðir er til að mynda alltaf eitthvað um ölv- unarakstur. Þá man ég að þegar við höfðum lítið að gera á vaktinni á virkum dögum settum við stund- um upp stöðvanir við umferðaræðar og án und- antekninga höfðum við náð einum undir áhrifum á innan við hálftíma,“ segir Vilhjálmur. Af þessu má skilja að töluvert sé um ölvunarakstur og að tölur lögreglu gefi ekki nema tak- markaða mynd af því sem viðgengst í um- ferðinni á hverjum degi. Fræðsla um hættuna eða harðari viðurlög? Morgunblaðið/Júlíus Eftirlit „Stundum settum við upp stöðvanir og án undantekninga náðum við einum undir áhrifum á innan við hálftíma,“ segir Vilhjálmur Árnason. Í rannsókninni studdist Vil- hjálmur við öll skráð ölvunar- akstursmál í málaskrá lögreglu árið 2014, en þau voru samtals 1.275. Við nánari skoðun er ljóst að þar koma mun fleiri karlar við sögu, eða 997 karlar á móti 276 konum. Þeirri spurningu hefur aftur á móti verið varpað fram hvort lögreglan telji líklegra að karl- menn aki ölvaðir og stöðvi þá því frekar en konur við eftirlit. Að því er segir í ritgerðinni eru skilin á milli kynjanna ekki jafn mikil og sumir gætu haldið, sé hlut- fallið reiknað út frá ekn- um kílómetrum hvors kyns. Í því sambandi er ályktað að konur valdi hlutfallslega jafn mörgum óhöppum, séu eknir kíló- metrar teknir með í reikninginn. Karlar frekar stöðvaðir ÓJAFNVÆGI KYNJA? Vilhjálmur Árnason

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.