Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Blaðsíða 15
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 15
GESTUR GUÐMUNDSSON
VEGFERÐ, LÍFSHLAUP OG LÍFSSAGA
Áðurnefndri félagslegri verkfræði fylgdu talsverðar rannsóknir á frávikum og
frístundum ungs fólks fyrstu tvo áratugina eftir stríð (Ungdomskommissionen, 1952;
Cohen, 1955; Cloward og Ohlin, 1960) og þær urðu hvatning og leiðsögn fyrir ýmiss
konar æskulýðsstarf.
Athygli rannsakenda færðist þó í vaxandi mæli að félagslegum hreyfanleika og þeir
skoðuðu tækifæri ungs fólks til að nýta sér nám til að afla sér betri samfélagsstöðu en
foreldrar þeirra (Svalastoga og Wolf, 1961). Slíkar rannsóknir voru hvað skipulegastar
á Norðurlöndum, þar sem þær fylgdu skólaumbótum sem opnuðu lengri menntaleiðir
fyrir þorra ungs fólks. Bæði varð aðgangur að menntaskólum greiðari, og margs konar
iðnmenntun var efld og möguleikar auknir á tæknilegu framhaldsnámi. Norrænar
rannsóknir sýndu að vissulega fékk verkalýðsæskan aukin menntatækifæri en að
stéttamunur í skólakerfinu var þó áfram mikill (Hansen og Jørgensen, 1966; Hansen,
1973, 2003; Hernes 1975; Husén, 1977; Sigurjón Björnsson, Wolfgang Edelstein og
Kreppner 1977; Sigurjón Björnsson 1980; Hansen, Nord-Larsen, Mærkedahl, Kjøller
og Schwedler, 1983).
Þróun efnahags- og atvinnulífs frá olíukreppunni 1973 og næstu tvo áratugi þar
á eftir fylgdi aukið atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks. Menn voru lengi ekki
vissir um það hvort þetta væru einungis tímabundnar efnahagssveiflur eða hvort
dýpri eðlisbreyting væri að verða á atvinnulífi. Smám saman kom í ljós að störfum
í iðnaði var að fækka til langframa, einkum einföldum störfum sem ekki kröfðust
fagþekkingar, og að það bitnaði harðast á ungu fólki sem fór út á vinnumarkað eftir
skyldunám. Fram á áttunda áratuginn höfðu langflest ungmenni getað farið beint
úr skóla til að vinna í verksmiðju. Árið 1977 höfðu 72% ungmenna í Skotlandi sem
kvöddu skólana eftir skyldunám fengið fasta vinnu innan fárra vikna en árið 1991
hafði þetta hlutfall lækkað niður í 28% (Furlong og Cartmel, 1997, bls. 29). Þessi þróun
hratt af stað bylgju rannsókna á vegferð ungs fólks frá skóla og til vinnu, og ákveðnar
rannsóknarhefðir og kenningar tóku að mótast.
Stóraukning varð nú á sókn í lengra nám, og bentu rannsóknir til þess að bæði
ættu táningar æ minni kost á vinnu, og að þeir teldu sig þurfa meiri menntun en
skyldunám til að eiga sæmilega kosti á vinnumarkaði (Dwyer og Wyn, 2001). Sú
spurning vaknaði hvort þær lengri námsleiðir sem minnihluti ungs fólks hafði áður
farið myndu nú skila meirihlutanum störfum við hæfi og öryggi á vinnumarkaði. Í
umfangsmestu rannsóknunum á ungu fólki í helstu iðnríkjum Evrópu, Bretlandi og
Þýskalandi, snerust lykilspurningarnar um það hvort samsvörun væri á milli þeirrar
menntunar sem ungt fólk lagði stund á og nýrra atvinnutækifæra sem í boði voru
(Roberts, 1968). Margar rannsóknir bentu til þess að örar breytingar á atvinnuháttum
hefðu oft í för með sér að gjár mynduðust milli þarfa atvinnulífsins og menntunar
ungs fólks. Aðrar rannsóknir sýndu að bil hefði myndast á milli starfa í boði og þeirra
gilda sem ungt fólk lagði áherslu á (Inglehart, 1977; Baethge, Schomburg og Voskamp,
1983). Á níunda áratugnum lögðu bresk stjórnvöld megináherslu á að skoða hvað yrði
um þau ungmenni sem hurfu úr skóla eftir skyldunám; þau virtust eiga fárra kosta völ
á almennum vinnumarkaði og voru send í ýmiss konar starfsþjálfunarúrræði (Wallace
og Cross, 1990).