Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Blaðsíða 23
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 23
GESTUR GUÐMUNDSSON
Á síðasta aldarfjórðungi hefur framhaldsskólaganga ungra Íslendinga aukist
enn meira en í nágrannalöndum og náð sama hlutfalli, en útskriftarhlutfallið hefur
hækkað minna. Það sem gerðist á Íslandi (en ekki í fjölmörgum nágrannalöndum,
til að mynda Finnlandi) var að með lögum frá 1988 var framhaldsskólum gert að
taka við öllum 16 ára ungmennum, án tillits til árangurs þeirra í grunnskólum. Á
síðasta áratug 20. aldar varð ljóst að stór hluti þeirra sem hófu framhaldsskólanám
án nægjanlegs undirbúnings lauk aldrei námi. Viðbrögðin voru að setja á stofn
svokallaðar „almennar deildir“ í framhaldsskólum en smám saman kom í ljós að
þær skiluðu einungis hluta sinna nemenda til loka framhaldsskóla. „Framhaldsskóli
fyrir alla“ hafði í för með sér að það teygðist á framhaldsskólanámi og mest á námi
þeirra sem ekki hafa fullnægjandi námslok úr grunnskóla og fara í almennar deildir.
Stuðningur foreldra og annarra ríður gjarnan baggamuninn í tilvikum þeirra sem
eiga við námsörðugleika að stríða (Sigrún Harðardóttir, 2014). Til að örva námslok
var nýtt svokallað framhaldsskólapróf innleitt með lögum 2008. Framkvæmd þess
lagaákvæðis var ein af mörgum umbótum sem kreppa sama árs seinkaði og nú virðist
sem sitjandi menntamálaráðherra vilji fara aðrar leiðir til að draga úr brotthvarfi úr
framhaldsskóla (Mennta- og menningarmálaráðuneytið, 2014).
LOKAORÐ
Frá sjöunda áratug 20. aldar og fram á þann níunda voru vegferðarrannsóknir lítil
hliðargrein í ungmennarannsóknum og fjölluðu um (ó)samræmi milli skólagöngu og
innkomu á vinnumarkað. Þegar atvinnuleysi ungmenna jókst í Bretlandi á níunda
áratugnum og um alla Evrópu á tíunda áratugnum urðu þær viðfangsefni stórra
rannsóknarverkefna. Æ fleiri rannsakendur létu sér ekki nægja að leita að betri sam-
stillingu skólakerfa og eftirspurnar á vinnumarkaði heldur skoðuðu þeir fjölþættari
breytingar á viðhorfum og áttun ungmenna, vinnumarkaði og fleiri þáttum samfélags-
gerðarinnar. Vandamálið var ekki einfaldlega að sumt ungt fólk kom vanbúið inn
á markaðinn heldur ekki síður að væntingar og vilji æ fleiri ungmenna var ekki að
fara stystu leið í örugga höfn tryggrar atvinnu og heimilisstofnunar – þau voru í
persónulegri leit langt fram á fullorðinsaldur. Jafnframt sýndu rannsóknir að umbrot
í vegferð ungmenna eru á margan hátt verulegu ólík frá einu landi til annars og eftir
ólíkum hópum í hverju landi (stétt, kynferði, etnískum uppruna, búsetu).
Til að skilja þessar breytingar voru ýmsar kenningar og eldri rannsóknarhefðir
virkjaðar, ekki síst kenningar Becks um einstaklingsvæðingu og afturblik, kenningar
Ziehes um menningarlega leit og rannsóknarhefðir sem snerta lífssögu og lífshlaup.
Æ fleiri þættir úr hinni fjölskrúðugu kenningaarfleifð ungmennarannsókna hafa verið
nýttir í vegferðarrannsóknum. Þó má segja að tveir meginstraumar þeirra rannsókna
séu enn verulega aðskildir – ungmennamenning og vegferð – og ástæða sé til að tengja
þá betur saman.