Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Qupperneq 17
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 2015 17
GESTUR GUÐMUNDSSON
fræðimanna eða við áherslur Bourdieus og fleiri á viðhald félagslegrar lagskiptingar í
skólakerfi og vegferð til fullorðinsaldurs. Fræðimenn í Þýskalandi, Hollandi, á Ítalíu,
Spáni og víðar tóku sig saman um evrópskan samanburð á breyttu lífshlaupi, m.a. í
evrópska rannsóknarnetinu European Group for Integrated Social Research (EGRIS),
sem vann mörg evrópsk samstarfsverkefni á árunum 1994–2013 (EGRIS, 2004). Þessi
bylgja fann sér aðallega farveg í áætlun breskra stjórnvalda um ungmennarannsóknir,
sem var hrint af stokkunum 1997 og tók ekki bara til breskra rannsókna heldur
einnig til samstarfs við fræðimenn í nágrannalöndum (Bynner o.fl., 1997; Evans
o.fl., 2001). Það var sterkt einkenni á þessum rannsóknum að þar var reynt að skoða
samhengi milli ígrundaðrar virkni einstaklinga og félagslegra áhrifavalda. Þannig
var einstaklingsbundið val skoðað með tilliti til félagsstéttar, kyns, búsetu, etnísks
uppruna og fleiri þátta (sjá t.d. Thomson, Henderson og Holland, 2003). Gagna í slík-
um rannsóknum var oft aflað með lífssögulegum viðtölum og gjarnan var leitað að
mikilvægum hverfipunktum (e. turning points eða critical moments) sem samþættu
bakgrunn og val (Thomson, Bell, Holland, Henderson, McGrellis og Sharpe, 2002).
Hin kenningarlega tenging við breiðari samfélagsbreytingar varð fljótt til þess að
vegferð var ekki bara skoðuð frá skóla til atvinnulífs heldur sem margþætt ferli frá
barnæsku undir forsjá foreldra til fullorðinsaldurs þar sem einstaklingurinn tekur
ábyrgð á sjálfum sér og gjarnan á fjölskyldu sinni (sjá t.d. Oinonen, 2003; Moreno,
2012). Vegferð hvers einstaklings var gjarnan skoðuð út frá nokkrum viðmiðunar-
atriðum, og meðal þeirra atriða sem oftast hafa verið skoðuð eru:
• Opinber aldursmörk sem varða sjálfræði, kosningarétt, rétt til vinnu,
hjónaband, rétt til áfengiskaupa, kynlíf og fleira
• Hvenær ungt fólk flytur að heiman
• Hvenær ungt fólk fer í fyrstu sambúð
• Aldur við fyrstu barneign
• Aldur við hjónaband
• Aldur við námslok/brotthvarf
• Aldur við atvinnuþátttöku (t.d. fyrsta starf að loknu námi eða fyrsta
„fasta starfið“)
Evrópskur samanburður sýndi að hvað varðaði lagaleg aldursmörk höfðu Evrópu-
lönd færst nær hvert öðru en ekki hvað varðaði önnur mörk, svo sem aldur við hjóna-
band, barneignir og hvenær ungt fólk flytur frá foreldrum. Munurinn hefur heldur
ekki minnkað hvað varðar atvinnuþátttöku, háskólanám og hvenær fólk lýkur hæstu
prófgráðu (Bynner, 1997). Almennt hefur orðið breyting í átt frá því að ungt fólk taki
skrefin frá barnæsku til fullorðinsaldurs í „réttri röð“ (Holland, Reynolds og Weller,
2007). Menningarhefðir fyrir verkaskiptingu kynja og innbyrðis stöðu kynslóða hafa
tekið mismiklum breytingum eftir landssvæðum, og samspil slíkra hefða við vinnu-
markað, pólitískar hreyfingar og málamiðlanir hafa mótað stofnanalegan ramma og
venjur, sem m.a. taka til vegferðar nýrra kynslóða til fullorðinsaldurs. Fræðimenn
hafa greint á milli nokkurra megingerða evrópskra velferðarkerfa (Esping-Andersen,
1990; Gallie og Paugam, 2000). Andreas Walther (2006) bætti því við að hverri megin-
gerð fylgdi ákveðin tegund vegferðar: